Laugavegur (gönguleið)

Gönguleiðin milli Landmannalauga og Þórsmerkur
(Endurbeint frá Laugavegurinn)

Laugavegurinn kallast gönguleiðin milli Landmannalauga og Þórsmerkur. Er hún um 54 km löng og fer hæst í um 1050 m.y.s. við Hrafntinnusker. Leiðin er afar vinsæl meðal innlendra sem erlendra göngumanna enda þykir hún ægifögur og bjóða upp á brot af flestu því sem íslensk náttúra hefur upp á að bjóða.

Brú yfir Kaldaklofskvísl, á Laugaveginum.
Varða á Laugaveginum nálægt Hrafntinnuskeri.
Skáli Ferðafélagsins í Emstrum

Áfangar á gönguleiðinni eru látnir ráðast af skálum sem á henni er. Ef gengið er frá Landmannalaugum eins og algengast er verður fyrst á vegi manna skálinn í Hrafntinnuskeri, svo Álftavatni, Hvanngili og Emstrum (Botnum), en allir skálarnir eru í eigu Ferðafélags Íslands. Endar gönguleiðin í Þórsmörk þar sem gengið er í Húsadal, Langadal eða Bása (í Goðalandi). Algengast er að skipta leiðinni upp í 3-4 dagleiðir. Leiðin er þó einnig hlaupin á hverju ári í Laugavegshlaupi og er met í því hlaupi undir 4 klukkustundum[1].

Gönguleiðin milli Landamannalauga og Hrafntinnuskers eru 12 km. Áætlaður göngutími er 4-5 klukkustundir. Hækkunin er mest á þessum kafla leiðarinnar eða 470 metrar. Oftast er þetta fyrsta dagleiðin en sumir leggja snemma af stað og ganga alla leið inn að Álftavatni. Vegalengdin milli Hrafntinnuskers og Álftavatns eru einnig 12 km og er lóðrétt hækkun 490 metrar. Þessi hækkun er jafnari en á fyrsta degi. Áætlaður göngutími er 4-5 klst. Þriðja göguleiðin er inn í Emstrur. Þangað er 15 km ganga og lítil hækkun, 40 m. Göngutíminn er 6-7 klukkustundir. Síðasti dagurinn fer svo í að ganga inn í Þórsmörk og er vegalengdin og áætlaður göngutími sá sami og á þriðja degi. Hækkunin er þó meiri eða 300m.

Fyrsta ferðin sem skráð var á vegum Ferðafélags Íslands á Laugaveginum var 30. september 1978. Árið 1979 var í fyrsta sinn sem Ferðafélag Íslands auglýsti fjögurra daga ferð um Laugaveginn og Þórsmörk og var sú ferð farin 13.-18. júlí 1979. Eftir það hefur fjöldinn allur af fólki og ferðamönnum farið Laugaveginn á vegum Ferðafélags Íslands.

Gróðurfar

breyta

Gróðurfar í Þórsmörk er mjög fjölbreytt. Meginástæða fyrir því er sú að svæðið er varið fyrir búfé af torfærum ám og jöklum. Áður fyrr ráku bændur úr Fljótshlíð og undan Eyjafjöllum fé á Þórsmörk til beitar bæði á sumrin og veturna. Einnig stunduðu þeir skógarhögg á svæðinu. Skógar voru mjög illa farnir af beit á Þórsmörk og urðu einnig illa farnir vegna Kötlugoss 1918. Þá var ákveðið að Þórsmörk yrði beitarfriðuð og var Skógrækt ríkisins falið það hlutverk að hafa umsjón með svæðinu.

Undirbúningur

breyta

Þegar undirbúa skal nokkra daga gönguferð um Laugaveginn þarf að hafa ýmislegt í huga eins og hvort maður hafi andlegan og líkamlegan styrk til göngunnar. Það þarf einnig að huga að því að hafa góðan búnað með sér og skiptir þar mestu máli góðir gönguskór, nægilega stór bakpoki til að geyma auka fatnað og nesti og hlífðarföt sem henta veðri eftir aðstæðum.

 
Fjallið Háalda, 1089 metrar að hæð

Fyrsti hluti göngunnar - 12 km

breyta

Fyrsti hluti göngunnar um Laugaveginn er yfir Laugahraun sem er talið hafa myndast í kringum 1480. Þegar komið er upp á hraunið er þar mikið útsýni, margskonar fjöll og gil í alls konar litum. Þar má finna fjall sem heitir Háalda sem er hæsta fjallið á þessum slóðum enda er það 1089 metrar að hæð. Næsti hluti göngunnar liggur að hásléttunni, þar er landslagið sundurskorið því árnar á þessum slóðum hafa með árunum grafið sig niður í mjúkt bergið. Frá hásléttunni má einnig sjá fjallið Háalda þar sem það virkar enn þá stærra og meira en séð frá Laugahrauni. Næsti áfangastaður göngunnar er Stórihver, er það eini staður göngunnar sem má finna grænt gras og er oft nýttur sem hvíldar og nestisstaður. Stórihver er gufu-gutlhver. Þegar göngunni er haldið áfram er komið að Hrafntinnuskerssvæðinu. Talið er að Hrafntinnusker hafi myndast í eldgosi í kringum 900. Finna má skála við Hrafntinnusker.

 
Landslag Laugavegs.

Annar hluti göngunnar - 12 km

breyta

Frá Hrafntinnuskeri liggur leiðin meðfram hlíðum Reykjafjalla. Þar er dalur sem er að mestum hluta sléttur. Þegar gengið er úr dalnum liggur leiðin við Kaldaklofsfjall. Ef veður leyfir er hægt að ganga upp fjallið Háskerðing sem er 1281 metri að hæð. Ef skyggni er gott þaðan sést meðal annars vel til Öræfajökuls og Langjökuls. Næsti áfangastaður er Jökultunga. Þar má finna mikla litadýrð og ljósgrænar mosaþembur. Leiðin niður Jökultungu er mjög brött og þarf því að hafa varann á og fara varlega. Leiðin héðan liggur að Álftavatni þar sem má finna tvo skála.

Þriðji hluti göngunnar - 15 km

breyta

Næsti áfangastaður göngunnar er Hvanngil, þá er gengið frá Álftavatni yfir Brattháls. Á leiðinni má sjá fjöll eins og Bláfjöll og Smáfjöll. Þaðan er komið að göngubrú við Kaldaklofskvísl. Austan Kaldaklofskvíslar skiptist leiðin í tvennt, annars vegar er hægt að ganga eftir Mælifellssandi og hins vegar Emstrum. Ef valið er að ganga eftir Emstrum þá er aftur um tvær leiðar að velja. Hægt er að ganga að Útigönguhöfðum, þar sem má meðal annars finna fjallið Hattafell en einnig er hægt að fara suður með Álftavatni. Þar er að finna fallegt útsýni og hægt er að vaða á á leiðinni. Þeir sem ganga á Emstrum mega ekki láta fram hjá sér fara að ganga að Markarfljótsgljúfri. Það er 160 til 180 metra djúpt og er talið að það hafi myndast í hamfarahlaupi fyrir um 2500 árum.

Fjórði hluti göngunnar - 15 km

breyta

Næst hefst ganga suður Almenninga, eftir að komið er upp úr Bjórgili er komið að Fauskatorfum sem er skóglendi. Næst er gengið yfir Kápu, er það síðasti brattinn á leiðinni. Þegar komið er niður af Kápu er komið að Þröngá, þar verður að vaða árnar. Þröngá dregur nafn sitt af þröngum gljúfrum sem eru í kringum hana og hún rennur í gegnum. Næst er komið að Hamraskógi og þar á eftir er komið að Skagfjörðsskála í Langadal á Þórsmörk. Síðasti spölur Laugavegsgöngunnar er skóglendi.

GPS staðsetningar:

breyta

Heimildir

breyta

Tengt efni

breyta

Tenglar

breyta
  1. „Bestu tímar í Laugavegshlaupi“. Laugavegurinn - ultra maraþon.