Tryggvi Gunnarsson (f. 18. október 1835Laufási í Þingeyjarsýslu, d. 21. október 1917) var íslenskur trésmiður, þingmaður og bankastjóri Landsbankans. Tryggvagata í miðbæ Reykjavíkur er nefnd eftir honum, og raunar ennfremur Tryggvagata á Selfossi. Í garði Alþingishússins er stytta til minningar um Tryggva en Tryggvi bjó þann garð til og sinnti honum einkar vel á efri árum.

Minnisvarði um Tryggva í Alþingisgarðinum.

Æviágrip

breyta

Faðir Tryggva var Gunnar Gunnarsson, prestur í Laufási, og móðir hans var Jóhanna Gunnlaugsdóttir, dóttir Gunnlaugs Briem, sýslumanns í Eyjafjarðarsýslu. Tryggvi ólst upp í Laufási til 14 ára aldurs, en þá fór hann til móðurbróður síns Ólafs Briem á Grund í Eyjafirði og lærði hjá honum trésmíði og fékk sveinsbréf 16 ára gamall.

Árið 1859 giftist hann stjúpsystur sinni Halldóru Þorsteinsdóttur, en faðir hennar var Þorsteinn Pálsson, prestur að Hálsi í Fnjóskadal. Halldóra lést ung af sullaveiki og eignuðust þau ekki börn en ættleiddu þó frænku Halldóru að nafni Valgerður Jónasdóttir. Valgerður var aftur móðir Dóru Þórhallsdóttur eiginkonu Ásgeirs Ásgeirssonar forseta Íslands.

Árið 1859 byggði Tryggvi bæ að Hallgilsstöðum í Fnjóskadal. Árið 1863 ferðaðist hann til Kaupmannahafnar, vegna tillagna Péturs Hafsteins, amtmanns, og hafði vetursetu. Næsta ár fór hann til Åss í Noregi þar sem var landbúnaðarskóli og varði hann nokkrum tíma þar og ferðaðist um Suður-Noreg. Laufáskirkja var byggð árið 1865 af Tryggva Gunnarssyni og Jóhanni Bessasyni bónda á Skarði í Dalsmynni.

Tryggvi var mjög iðinn við búskap og smíðar. Hann var hreppstjóri í þrjú ár og formaður í Búnaðarfélagi Suður-Þingeyinga frá 1866-71. Þau bjuggu á Hallgilsstöðum til ársins 1871 en þá gerðist Tryggvi kaupstjóri Gránufélagsins.

Á bæjarstjórnarfundi 1. nóvember 1917 var ákveðið að nefna nýja götu sem lögð hafði verið samhliða uppfyllingu við hina nýju Reykjavíkurhöfn Tryggvagata í höfuðið á Tryggva Gunnarssyni sem þá var nýlega látinn.

Tenglar

breyta
   Þetta æviágrip sem tengist Íslandi er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.