Sjaríalög eru trúarlög sem múslimar hlýða. Þau byggjast á lífsreglum Íslam eins og þau koma fyrir í Kóraninum og hadíðum. Orðið sjaría á uppruna sinn í arabíska orðinu sharīʿah, sem þýðir „siðferðisleg og trúarleg lög byggð á spádómi“, ólíkt lögum settum af mönnum.

Beiting sjaríalaga eftir löndum.
  Sjaríalög hafa engin áhrif á réttarkerfið.
  Sjaríalög gilda um einkamál múslima.
  Sjaríalög eru fullgild, líka í glæpamálum.
  Beiting sjaríalaga er mismunandi eftir landshlutum.

Sjaríalög snerta mörg svið lífsins, svo sem glæpi, stjórnmál, hjónabandssamninga og fjármál, auk þess að taka á einkamál eins og kynmök, hreinlæti, matarhefðir, mannasiðir, bænagjörð og föstu. Í sögulegu samhengi eru sjaríalög eitt af því sem helst einkennir Íslam. Í þrengri skilgreiningu sinni eru sjaríalög talin vera óskeikul orð Guðs.

Sjaríalög eru byggð á tveimur aðalheimildum: Kóraninum og hadíðunum. Stuðst er við svokölluð afleidd lög til að takast á við mál sem ekki er fjallað um í þessum tveimur heimildum. Afleiðingar sjaríalaga eru mismunandi eftir trúarhópum (t.d. sunní og sjía) og lögspekiskólum eins og Hanafi, Maliki, Shafi'i, Hanbali og Jafari.

Í löndum þar sem meirihluti íbúa aðhyllist Íslam eru sjaríalög að hluta eða í heild tekin upp í löggjöf. Dæmi um slík lönd eru Sádí-Arabía, Súdan, Íran, Írak, Afganistan, Pakistan, Brúnei, Katar, Jemen og Máritanía. Í löndum sem beita sjaríalögum eru refsingar á borð við afhöfðun, svipuhögg og grýtingu oft notaðar, bæði í samræmi við ríkjandi réttarfar og utan við það. Fæst lönd heimsins viðurkenna sjaríalög en í sumum löndum njóta þau viðurkenningar að hluta í tengslum við skilnaðar- og erfðamál múslima.

Deilt hefur verið um hvort sjaríalög samræmist veraldlegum lögum eða ekki, þar sem mörg ákvæði sjaríalaga stangast á við veraldlegar hugmyndir um ríkisstjórn, mannréttindi, hugsanafrelsi og kvenréttindi.

Tengill

breyta
   Þessi trúarbragðagrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.