Kolbeinsey
Kolbeinsey er lítill klettur, leifar af eldfjallaeyju, 105 km norðan við meginland Íslands og 74 km norðvestan við Grímsey og langt norðan við heimskautsbaug. Eyjan er nyrsti punktur Íslands. Hún lætur hratt undan ágangi sjávar og hefur verið styrkt með steinsteypu vegna mikilvægis hennar við skilgreiningu landhelgi Íslands. Engu að síður má ætla að hún hverfi í hafið innan fárra ára enda hefur viðleitni til að styrkja eyjuna verið hætt vegna samninga um miðlínu við Dani.
Lýsing
breytaEyjan var fyrst mæld árið 1616 af Hvanndalabræðrum. Þá var hún sögð 100 metra breið og 700 metra löng. Árið 1903 var hún helmingi minni en það. Árið 2001 var hún aðeins 90 m² að stærð. Eyin er allt að átta metrar að hæð yfir sjávarmáli. Þar var þyrlupallur en í mars 2006 kom í ljós að helmingur hans var hruninn.
Eyjarinnar er fyrst getið í Landnámu þar sem talað er um siglingaleiðina til Grænlands. Hún er nefnd eftir Kolbeini Sigmundarsyni frá Kolbeinsdal í Skagafirði sem frá er sagt í Svarfdæla sögu. Hann er sagður hafa brotið skip sitt við Kolbeinsey og farist þar ásamt mönnum sínum.
Litlar heimildir eru um eldsumbrot á Kolbeinseyjarsvæðinu. Annálabrot frá Skálholti segja þó eftirfarandi árið 1372: "Sást úr Fljótum, og enn víðara annars staðar fyrir norðan land, nýkomið upp land út af Grímsey til útnorðurs". Talið er að í þessu gosi hafi myndast skammlíf eyja suður af Kolbeinsey. Nú er þar grunnsævi sem sjómenn þekkja undir nafninu Hóll.
Kolbeinseyjarhryggur er eldvirkur neðansjávarhryggur sem kenndur er við eyna. Hann er hluti af Miðatlantshafshryggnum og teygir sig langt norður í Íshaf.
Kolbeinsey var lýst þannig í Náttúrufræðingnum 1933:
- Kolbeinsey mætti eins vel nefnast sker, eins og ey, því að hún er aðeins talin 300 m á lengd og 30-60 m á breidd, og liggur frá ANA-VNV; en í kringum hana eru nokkur smásker, einkum að N og V, þar sem þau ná 600-700 m út frá henni. Undirlendi er lítið, en best að lenda að SA, enda er þar hreinast. Eyjan er öll úr gosgrjóti (basalti), dökk að sjá, nema þar sem fuglinn „málar" hana gráa. Í hana miðja er breitt, en grunnt skarð og getur hún, ef birta fellur þannig á hana, líkst borgarísjaka eða hafskipi undir fullum seglum. Gróður er enginn. Fuglamergðin kvað hafa verið mikil áður, svartfugl, fýll, máfar og ef til vill haftyrðill, og fuglinn svo spakur, að hann mátti taka með höndunum. Nú er mér sagt, að fuglinn sé hættur að verpa þar (vegna eggjaráns útlendinga?). - Selum og hvölum er sennilega mikið af í kringum eyna á stundum og ísrek mikið, þá tíma ársins, sem hafísinn er á ferðinni, enda er eyjan að jafnaði í útjaðri ísbreiðunnar. [1]
Tengt efni
breytaHeimildir
breyta- Árni Hjartarson. „Ferð Hvanndalabræðra til Kolbeinseyjar“. Náttúrufræðingurinn. 73 (1-2) (2005): 31-37.
Tilvísanir
breytaTenglar
breyta- Árni Hjartarson, Fróðleikur um Kolbeinsey á vef ÍSOR.
- Kolbeinsey að hverfa
- Is the most northern part of Iceland still there? eftir Tom Scott á YouTube