Ísabella af Valois

Ísabella af Valois (9. nóvember 138913. september 1409) var drottning Englands frá 1396 til 1400, seinni kona Ríkharðs 2. Seinna giftist hún Karli hertoga af Orléans, frænda sínum, og dó af barnsförum 19 ára að aldri.

Brúðkaup hinnar sex ára gömlu Ísabellu og Ríkharðs 2. konungs.

Ísabella var dóttir Karls 6. Frakkakonungs og Ísabellu af Bæjaralandi, og systir Karls 7. Frakkakonungs. Hún var tæplega sjö ára að aldri þegar hún giftist Ríkharði 2. Englandskonungi, 31. október 1396, en fyrri kona hans, Anna af Bæheimi, hafði látist tveimur árum áður. Ríkharður var að verða þrítugur og hjónabandið átti að tryggja frið milli Frakklands og Englands en þetta var í miðju Hundrað ára stríðinu. Að sjálfsögðu var ekki um eiginlegt hjónaband að ræða vegna æsku drottningarinnar ungu en þau Ríkharður virðat hafa átt góð samskipti og virt hvort annað mikils.

Í maí 1399 hélt Ríkharður í herför til Írlands. Á meðan notaði Hinrik Bolingbroke frændi hans, sem hafði verið gerður útlægur, tækifærið, kom heim til Englands og safnaði um sig liði. Konungurinn var óvinsæll og andstæðingar hans flykktust til Hinriks. Þegar Ríkharður sneri aftur frá Írlandi 24. júlí sá hann sitt óvænna og 19. ágúst gafst hann upp fyrir Hinrik og hét að segja af sér ef hann fengi að halda lífi. Hann var hafður í haldi í Lundúnaturni og sagði af sér 29. september. Þann 13. október var Hinrik kjörinn konungur. Eftir það er óljóst um örlög Ríkharðs en hann er talinn hafa verið myrtur eða sveltur til dauða í febrúar árið 1400.

Þar með var Ísabella orðin ekkja, tíu ára gömul. Hinrik 4. skipaði henni að flytja úr Windsorkastala og taka sér aðsetur hjá biskupinum af Salisbury. Síðan ákvað hann að hún ætti að giftast elsta syni hans, Hinrik, sem þá var tólf ára. En þá setti Ísabella hnefann í borðið og neitaði. Á endanum gafst Hinrik konungur upp og leyfði henni að fara aftur til Frakklands. Tuttugu árum seinna giftist Hinrik 5. Katrínu af Valois, systur Ísabellu, en hún var ekki fædd þegar hér var komið sögu.

Ísabella giftist aftur 29. júní 1406 Karli hertoga af Orléans. Þau voru bræðrabörn og hann var aðeins ellefu ára en hún sextán. Þremur árum síðar dó Ísabella af barnsförum en barnið, dóttirin Jóhanna, lifði. Fimmtíu og þremur árum síðar fæddi þriðja kona Karls hertoga honum son sem varð seinna Loðvík 12. Frakkakonungur.

Heimildir

breyta