Karl 9. Frakkakonungur
Karl 9. (27. júní 1550 – 30. maí 1574) var konungur Frakklands frá 5. desember 1560 til dauðadags. Frönsku trúarbragðastyrjaldirnar settu mark á ríkisstjórnarár Karls og þekktasti atburðurinn á stjórnartíð hans var Bartólómeusarvígin 1572.
| ||||
Karl 9.
| ||||
Ríkisár | 5. desember 1560 – 30. maí 1574 | |||
Skírnarnafn | Charles d'Orléans | |||
Fæddur | 27. júní 1550 | |||
Saint-Germain-en-Laye, Frakklandi | ||||
Dáinn | 30. maí 1574 (23 ára) | |||
Vincennes, Frakklandi | ||||
Gröf | Basilique Saint-Denis, Frakklandi | |||
Konungsfjölskyldan | ||||
Faðir | Hinrik 2. | |||
Móðir | Katrín af Medici | |||
Drottning | Elísabet af Austurríki | |||
Börn | 2 |
Bernska
breytaKarl, sem var útnefndur hertogi af Orléans við fæðingu, var þriðji sonur (annar í röð þeirra sem upp komust) Hinriks 2. Frakkakonungs og Katrínar af Medici. Faðir hans lést 1559 og rúmu ári síðar dó eldri bróðir hans, Frans 2., og varð Karl þá konungur, tíu ára að aldri. Móðir hans var útnefnd ríkisstjóri. Hún hafði ekki fengið að koma nálægt stjórn landsins á meðan maður hennar lifði en lét nú mjög til sín taka. Hún hafði mikil áhrif á son sinn fyrstu árin og raunar alla stjórnartíð hans.
Árið 1562 gaf Katrín út Saint-Germain-tilskipunina, þar sem húgenottar voru í fyrsta skipti formlega viðurkenndir og leyft að stunda trú sína á laun. Við þetta var þó mikil andstaða og upp úr þessu hófust Frönsku trúarbragðastyrjaldirnar sem stóðu með hléum til 1598.
Trúarbragðastyrjaldirnar
breytaÁtökin snerust ekki aðeins um trúarbrögð, þau voru um leið átök milli franskra aðalsætta. Margir aðalsmenn voru húgenottar en andstaða kaþólikka var leidd af mönnum af Guise-ætt. Katrín reyndi að miðla málum og halda friðinn. Eftir blóðug átök kom fjögurra ára vopnahlé og meðan á því stóð tók Karl konungur við stjórnartaumunum að nafninu til og ferðaðist með móður sinni um landið til að kynna sér ríki sitt. Átök hófust aftur 1567. Ýmis erlend ríki veittu fylkingunum lið; Hollendingar, Englendingar og konungsríkið Navarra studdu mótmælendur en Spánn, Toskana og páfaríkið kaþólikkana. Enn var gert vopnahlé 1570.
Hluti af vopnahléssamkomulaginu var að Hinrik, krónprins Navarra og einn af helstu leiðtogum húgenotta, skyldi giftast Margréti, systur Karls konungs. Brúðkaup þeirra var haldið 19. ágúst 1572 en þá var Hinrik orðinn konungur Navarra. Mikil veisluhöld voru í París vegna brúðkaupsins og komu þangað margir aðalsmenn úr röðum húgenotta, þar á meðal Gaspard de Coligny aðmíráll, helsti herforingi þeirra. París var rammkaþólsk borg og vera svo margra þekktra húgenotta í borginni skapaði spennu.
Bartólómeusarvígin
breyta22. ágúst varð Coligny fyrir skoti á götu í París og særðist alvarlega. Alls óvíst er hver stóð að baki tilræðinu en helst hafa verið nefnd hertoginn af Guise, hertoginn af Alba og Katrín af Medici, en sagt er að hún hafi haft áhyggjur af því hve mikil áhrif Coligny var farinn að hafa á konunginn.
Hvað sem því líður jókst spennan í borginni mjög við þetta og þótt Karl konungur hefði heimsótt Coligny á sjúkrabeð og lofað honum að hafa hendur í hári tilræðismannanna varð úr að mæðginin ákváðu í sameiningu að losa sig við þá leiðtoga húgenotta sem voru staddir í París. Það var gert og Hinrik hertogi af Guise leiddi sjálfur flokk sem drap Coligny (sem hertoginn taldi ábyrgan fyrir dauða föður síns, Frans hertoga af Guise) og fleiri en á eftir fylgdu skipuleg morð á mótmælendum í París, framin bæði af hermönnum og af múg sem fór um og myrti þá sem höndum var komið yfir. Borgarhliðunum var lokað til að fólk slyppi ekki út. Óeirðirnar breiddust síðan út um sveitirnar umhverfis París. Hinrik af Navarra slapp naumlega með hjálp konu sinnar.
Andlát Karls og erfingjar
breytaKarl konungur hafði samþykkt morðin mjög nauðugur og ofbauð það sem hann sá og heyrði af; hann sagðist heyra neyðaróp hinna myrtu stöðugt fyrir eyrunum og kenndi ýmist sjálfum sér eða móður sinni um. Hann hafði aldrei verið heilsuhraustur, var líklega með berkla, og vorið 1574 var hann farinn að hósta blóði. Hann dó 30. maí og var þá 24 ára.
Karl 9. giftist Elísabetu af Austurríki 26. nóvember 1570 og átti með henni eina dóttur sem dó sex ára að aldri. Þar sem konur gátu ekki erft frönsku krúnuna varð bróðir hans, Hinrik hertogi af Anjou, konungur. Karl átti líka óskilgetinn son, Karl hertoga af Angoulême.
Karl var mikill áhugamaður um veiðar og skrifaði bók um það efni, La Chasse Royale, sem þó var ekki gefin út fyrr en 1625 en þykir merk heimild.
Heimild
breyta- Fyrirmynd greinarinnar var „Charles IX of France“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 28. júní 2010.
Fyrirrennari: Frans 2 |
|
Eftirmaður: Hinrik 3. |