Hinrik 2. Frakkakonungur

Hinrik 2. (31. mars 151910. júlí 1559) var konungur Frakklands frá 31. mars 1547 til dauðadags.

Skjaldarmerki Valois-ætt Konungur Frakklands
Valois-ætt
Hinrik 2. Frakkakonungur
Hinrik 2.
Ríkisár 31. mars 1547 – 10. júlí 1559
SkírnarnafnHenri d'Orléans
Fæddur31. mars 1519
 Château de Saint-Germain-en-Laye, Frakklandi
Dáinn10. júlí 1559 (40 ára)
 París, Frakklandi
GröfBasilique Saint-Denis, Frakklandi
Konungsfjölskyldan
Faðir Frans 1.
Móðir Claude af Bretagne
DrottningKatrín af Medici
Börn10; sjá lista

Hinrik var sonur Frans 1. Frakkakonungs og fyrri konu hans, Claude. Frans bróðir hans var ári eldri og var því ríkisarfi en hann dó átján ára að aldri 1536 og varð Hinrik þá krónprins og erfði jafnframt hertogadæmið Bretagne, sem bróðir hans fékk að erfðum eftir móður þeirra árið 1524. Þegar þeir bræður voru sjö og átta ára voru þeir sendir til Spánar sem gíslar í skiptum fyrir föður sinn, sem Karl Spánarkonungur hafði náð á sitt vald eftir orrustuna við Pavia. Þeir voru í haldi í Madrid í fjögur ár og var sagt að þeir hefðu aldrei beðið þess bætur.

Hjónaband breyta

Fjórtán ára að aldri gekk Hinrik að eiga jafnöldru sína, Katrínu af Medici. Hún var alin upp á vegum frænda síns, Klemens VII. páfa, sem hét að greiða háa fjárhæð í heimanmund með henni. Þau giftust 28. október 1533 og var sagt að Frans konungur hefði ekki yfirgefið svefnherbergi þeirra á brúðkaupsnóttina fyrr en hann var viss um að hjónabandið hefði verið fullkomnað. Katrín var í miklum metum við frönsku hirðina fyrsta hjónabandsárið en þegar Klemens páfi dó haustið 1534 og eftirmaður hans, Páll III., neitaði að greiða heimanmundinn, dró úr vinsældum hennar.

Tveimur árum síðar varð Hinrik krónprins þegar bróðir hans dó og þótti ýmsum þá hafa tekist illa til við val á framtíðardrottningu Frakklands þar sem hún var ekki konungborin, færði lítið í búið og virtist auk þess vera óbyrja en tíu ár liðu þar til hún ól fyrsta barn sitt. Hinrik átti aftur á móti fjölda hjákvenna og enginn vafi lék á frjósemi hans. Þekktust ástkvenna konungs var Díana af Poitiers, sem var tuttugu árum eldri en hann, hafði verið falið að kenna honum hirðsiði þegar hann var tólf ára og var vinkona hans og áhrifavaldur til dauðadags og ástmey frá 1538.

Ríkisár breyta

Hinrik varð konungur þegar faðir hans dó 1547. Hans er ekki síst minnst fyrir ofsóknir gegn húgenottum, en hann lét brenna marga þeirra á báli eða skera úr þeim tunguna fyrir guðlast. Hann kom líka á strangri ritskoðun.

Árið 1551 sagði Hinrik Karli 5. keisara stríð á hendur og hafði í hyggju að ná aftur undirtökum á Ítalíu og bæta stöðu Frakka gegn áhrifum Habsborgara í Evrópu. Hann gerði meðal annars bandalag við Suleiman 1. soldán um að vinna gegn ítökum Habsborgara á Miðjarðarhafi og verjast áhlaupum úr suðri. Þannig gat hann gat einbeitt sér að hernaði í Lorraine og Flæmingjalandi og svo aftur á Ítalíu. Árið 1558 drógust Englendingar inn i átökin og tókst Frökkum þá að ná borginni Calais, sem Englendingar höfðu haldið í tvær aldir. Hinrik neyddist þó til að ganga til friðarsamninga 1559 og afsala sér öllum kröfum til landa á Ítalíu.

Dauði breyta

 
Burtreiðarnar þar sem Hinrik 2. fékk banasárið.

Innifalið í samningunum var að Emmanúel Filibert hertogi af Savoja skyldi ganga að eiga Margréti systur Hinriks og fá aftur hertogadæmi sitt og Filippus 2. Spánarkonungur skyldi fá fjórtán ára dóttur Hinriks, Elísabetu og var hún þriðja kona hans. Elísabet hafði raunar verið trúlofuð Karli, syni Filippusar af fyrsta hjónabandi, en giftist föður hans í staðinn í júnílok 1559. Burtreiðar voru hluti af hátíðahöldunum og tók Hinrik 2. þátt í þeim, enda mikill íþrótta- og veiðimaður, en þar gerðist það slys að konungur fékk flís úr lensu í augað og upp úr því blóðeitrun sem dró hann til dauða. Þegar honum var ljóst hvert stefndi krafðist hann þess að Emmanúel Filibert gengi þegar að eiga Margréti, því hann óttaðist að hann stæði ekki við heit sitt ella. Þau giftust 10. júlí og konungur dó sama dag. Á banasænginni bað hann hvað eftir annað um að sent yrði eftir ástkonu sinni, Díönu af Poitiers, en Katrín drottning kom í veg fyrir það og sendi svo Díönu í útlegð.

Ári fyrir dauða sinn gifti Hinrik Frans, elsta son sinn, Maríu Skotadrottningu, sem alin var upp við frönsku hirðina. Með því hugðist hann ekki aðeins tryggja Frökkum tilkall til skosku krúnunnar, heldur einnig hugsanlega þeirrar ensku, því María stóð næst til erfða eftir systurnar Maríu Englandsdrottningu og Elísabetu. Það gekk þó ekki eftir því að þótt Frans 2. yrði konungur Frakklands eftir föður sinn lifði hann ekki nema árið og María sneri aftur heim til Skotlands.

Börn breyta

Börn Hinriks 2. og Katrínar af Medici voru:

  • Frans 2. (1544-1560), konungur Frakklands 1559-1560.
  • Elísabet (1545-1568), drottning Spánar, kona Filippusar 2.
  • Claude (1547-1575), hertogaynja af Lorraine, kona Karls 3. hertoga.
  • Karl 9. (1550-1574), konungur Frakklands 1560-1574.
  • Hinrik 3. (1551-1589), konungur Frakklands 1574-1589.
  • Margrét (1553-1589), drottning Frakklands og Navarra, kona Hinriks konungs Navarra, síðar Hinriks 4. Frakkakonungs.
  • Frans (1555-1584), hertogi af Anjou.

Þrjú börn í viðbót dóu í vöggu eða fæddust andvana.

Heimild breyta


Fyrirrennari:
Frans 1.
Konungur Frakklands
(15471559)
Eftirmaður:
Frans 2.