Jón Þorláksson á Bægisá

Íslenskur prestur og þýðandi

Jón Þorláksson á Bægisá (fæddur í Selárdal í Arnarfirði 13. desember 1744 - dáinn 21. október 1819) var prestur, kröftugt skáld og einn mikilvirkasti þýðandi 18. aldar. Hann var einn af boðberum upplýsingarinnar á Íslandi. Tímarit þýðenda á Íslandi heitir Jón á Bægisá í höfuðið á honum.

Bægisárkirkja .í Möðruvallaprestakalli í Eyjafjarðarprófastsdæmi. Timburhús reist 1858.

Jón ólst að nokkru upp í Fljótshlíðinni. Hann var settur í Skálholtsskóla og útskrifaðist þaðan 1763 með góðum vitnisburði. Næstu ár var hann í þjónustu Magnúsar Gíslasonar amtmanns og síðan Ólafs Stephensens amtmanns, tengdasonar Magnúsar. Árið 1768 vígðist Jón til Saurbæjarþinga í Dalasýslu en varð að láta af prestskap vegna barneignar með Jórunni Brynjólfsdóttur í Fagradal og fór allt á sömu leið er hann fékk aftur prestsembætti. Þessu næst fór Jón að vinna hjá Hrappseyjarprentsmiðju sem stofnuð var 1773. Þýddi hann þá kvæði eftir norska skáldið Kristian Tullin og voru þau gefin út, ásamt nokkrum frumortum kvæðum hans, í Hrappsey 1774. Sama ár kvæntist Jón Margréti, dóttur Boga Benediktssonar í Hrappsey og hófu þau búskap í Galtardal.

Árið 1788 fékk Jón að vígjast til Bægisár í Öxnadal í Hólabiskupsdæmi. Margrét, kona Jóns, og Guðrún, dóttir hans, urðu eftir í Galtardal og bjó Margrét þar til dauðadags 1808. Jón bjó á Bægisá til æviloka 1819 og þar vann hann sín merkustu bókmenntastörf. Þar þýddi hann Tilraun um manninn (e. An Essay on Man) eftir enska skáldið Alexander Pope og Paradísarmissi (e. Paradise Lost) eftir enska skáldið John Milton. Þá þýddi hann einnig Messíasardrápu (þ. Der Messias) eftir þýska skáldið Friedrich Gottlieb Klopstock. Jón orti og mikið sjálfur og var margt af því í léttum dúr.

Heimild breyta

  • Sýnisbók íslenskra bókmennta frá 1550 til 1900, Kristján Eiríksson tók saman, Reykjavík 2003.

Tenglar breyta

Greinar í tímaritum


 
Á Wikiheimild er að finna texta sem tengist