Peter Foote
Peter Foote – (Peter G. Foote, fullu nafni Peter Godfrey Foote) – (26. maí 1924 – 29. september 2009) var enskur textafræðingur og prófessor í norrænum fræðum við University College London. Hann var um langt skeið fremsti fræðimaður Englendinga á sviði norrænna fræða.
Æviágrip
breytaPeter Foote fæddist og ólst upp í Swanage í Dorset, næst yngstur fimm bræðra. Faðir hans var slátrari og tókst að koma yngstu sonum sínum til mennta. Peter hóf háskólanám 1942 við University College of the South-West í Exeter, en var kallaður í herinn 1943 og gegndi herþjónustu í Austurlöndum fjær til 1947. Hann tók þá aftur til við námið og lauk BA prófi í ensku og norrænum fræðum við University College London 1948. Fékk þá norskan styrk og var í Háskólanum í Osló 1948–1949 undir handarjaðri Anne Holtsmark. Tók síðan aftur upp þráðinn í University College London.
Árið 1950 varð hann aðstoðarkennari í forníslensku við skandinavísku deildina, sem þá var innan enskudeildarinnar. Frami hans var skjótur, hann var fyrst lektor, síðan dósent og varð loks prófessor í norrænum fræðum 1963, uns hann lét af störfum 1983. Hann varð forseti nýstofnaðrar norrænudeildar skólans 1963 og byggði hana upp af miklum dugnaði og framsýni, svo að hún varð fremst í sinni röð á Bretlandseyjum.
Peter Foote var einn af fremstu fræðimönnum á sínu sviði og liggja eftir hann fjölmargar bækur og greinar um íslenskar fornbókmenntir. Úrval þeirra birtist í tveimur afmælisritum, sjá hér neðar. Hann sá um tvær útgáfur Jóns sögu helga, 2003, fyrir Hið íslenska fornritafélag og Árnasafn í Kaupmannahöfn. Hann annaðist þýðingu Grágásar á ensku, í félagi við Andrew Dennis og Richard Perkins. Hann vann mikið með öðrum fræðimönnum, með því að semja inngangsritgerðir, þýða texta eða semja skrár. Þekktasta verk hans mun þó vera bókin The Viking Achievement (1970), sem hann samdi með fornleifafræðingnum David M. Wilson. Hann hafði afburðaþekkingu á evrópskum miðaldafræðum, og taldi slíkt nauðsynlegan bakgrunn við rannsóknir á íslenskum fornbókmenntum. Hann var læs á margar tungur, bæði nútímamál og hin klassísku fornmál. Hann lagði áherslu á skýra framsetningu og var sjálfur mjög ritfær maður.
Peter Foote starfaði mikið innan Víkingafélagsins í London (Viking Society for Northern Research) frá 1952, var ritari og tvisvar forseti félagsins 1974–1976 og 1990–1992, og ritstjóri tímaritsins, Saga-Book, 1952–1976.
Hann var heiðursfélagi Hins íslenska Bókmenntafélags og var þrisvar sæmdur Fálkaorðunni. Hann var heiðursdoktor við Háskóla Íslands (28. febrúar 1987), og við Uppsalaháskóla, og var félagsmaður í mörgum vísindafélögum.
Peter Foote átti nána samleið með Stofnun Árna Magnússonar og systurstofnun hennar í Kaupmannahöfn. Hann hafði frábær tök á íslensku, átti hér marga vini og var hér stundum kallaður Pétur Fótur.
Kona Peters Foote var Eleanor McCaig (d. 2006), hjúkrunarkona sem hann kynntist í herþjónustunni. Þau giftust 1951 og eignuðust þrjú börn, Alison, Judith og Davis.
Helstu rit
breyta- The Pseudo-Turpin chronicle in Iceland. A contribution to the study of the Karlamagnús saga. London 1959, 10+59 s. — London Medieval Studies, Monograph 4.
- On the Saga of the Faroe Islanders. An inaugural lecture delivered at University College, London, 12 November 1964, London 1965, 24 s.
- The Viking Achievement. The Society and Culture of early medieval Scandinavia, London 1970. — Með David M. Wilson, oft endurprentuð.
Nokkrar greinar
breyta- Latnesk þýðing eftir Árna Magnússon? Árbók Landsbókasafns Íslands 1953–1954. Rvík 1955:137–141. — Um latneska þýðingu á hluta af Jóns sögu helga, í handritinu NKS 1201 fol.
- Icelandic Sólarsteinn and the medieval background. Arv. Journal of Scandinavian folklore 12(1956): 26-40. — Endurprentað í Aurvandilstá.
- A note on the source of the Icelandic translation of the Pseudo-Turpin chronicle. Neophilologus 43, 1959:137–142.
- Bishop Jörundr Þorsteinsson and the relics of Guðmundr inn góði Arason. Studia centenialia in honorem Benedikt S. Þórarinsson, Rvík 1961:98–114.
- On the fragmentary text concerning st. Thomas Becket in Stock. perg. fol. nr. 2. Saga-Book 1961:403–450.
Útgáfur
breyta- Gunnlaugs saga ormstungu, London 1957. — Texti á íslensku og ensku. Peter Foote gaf út íslenska textann, samdi forspjall og skýringar, Randolph Quirk þýddi á ensku. Nelson's Icelandic Texts.
- Lives of Saints. Perg. fol. No. 2 in the Royal Library, Stockholm, Kbh. 1962. Early Icelandic Manuscripts in Facsimile, Vol 4. – Ljósprentun handrits.
- The saga of St. Peter the Apostle. Perg. 4to No. 19 in the Royal Library, Stockholm, Kbh. 1990. Early Icelandic Manuscripts in Facsimile, Vol 19. – Ljósprentun handrits.
- Olavus Magnus: History of the Northern Peoples, Rome 1555, 1–3, Hakluyt Society, London 1996–1998. — Peter Foote gaf út, Peter Fisher og Humphrey Higgens þýddu á ensku, skýringar eftir John Granlund.
- Biskupa sögur 1, Hið íslenska fornritafélag, Rvík 2003. — Peter Foote gaf út Jóns sögu helga, Sigurgeir Steingrímsson og Ólafur Halldórsson önnur rit bindisins. Fræðileg útgáfa fyrir almenning.
- Jóns saga Hólabiskups ens helga, Copenhagen 2003. — Editiones Arnamagnæanæ, Series A, Vol. 14. Textafræðileg útgáfa.
Þýðingar
breyta- Laws of early Iceland. The Codex Regius of Grágás, with material from other manuscripts 1–2, Winnipeg 1980 og 2000. University of Manitoba Icelandic Studies 3 og 5. — Með Andrew Dennis og Richard Perkins.
- Jónas Kristjánsson: Eddas and Sagas. Iceland's medieval Literature, Hið íslenska bókmenntafélag, Rvík 1988. — Íslenskur texti ritsins birtist í þremur hlutum í Sögu Íslands 2, 3 og 5.
Meðal fornritaþýðinga sem Peter Foote endurskoðaði og gaf út fyrir Everyman's Library, eru Heimskringla (1961), Laxdæla saga (1964) og Grettis saga (1965).
Einnig þýddi hann hið þekkta kynningarrit: Facts about Iceland á ensku, fyrst 1951.
Afmælisrit
breyta- Pétursskip, búið Peter Foote sextugum 26. maí 1984, Rvík 1984. — Greinar annarra fræðimanna.
- Aurvandilstá, Norse studies, Odense University Press, Odense 1984. — Úrval greina eftir Peter Foote, í tilefni sextugsafmælis.
- Fótarkefli rist Peter Foote 26.v.99, 1–2, London 1999. — Ritstjórar: Alison Finlay, Richard North og Svanhildur Óskarsdóttir.
- Kreddur. Select studies in early Icelandic law and literature, Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík 2004. — Úrval greina eftir Peter Foote, í tilefni áttræðisafmælis.
Heimildir
breyta- Minningargreinar í Morgunblaðinu, 18. október 2009.