Herdís Þorvaldsdóttir

Herdís Þorvaldsdóttir (15. október 1923 - 1. apríl 2013) var íslensk leikkona. Hún lék fjölda hlutverka bæði á leiksviði og í kvikmyndum.

Fjölskylda

breyta

Herdís fæddist í Hafnarfirði en foreldrar hennar voru hjónin Þorvaldur Tómas Bjarnason (1895-1932) bóksali í Hafnarfirði og María Víðis Jónsdóttir (1895-1982). Faðir Herdísar lést þegar hún var 9 ára gömul og stóð móðir hennar þá ein eftir með 5 börn.

Eiginmaður Herdísar var Gunnlaugur Þórðarson (1919-1998) hæstaréttarlögmaður og eignuðust þau fjögur börn, Hrafn kvikmyndaleikstjóra, Þorvald stærðfræðing, Snædísi lögfræðing og Tinnu leikkonu og fyrrum leikhússtjóra.

Leikferill

breyta

Herdís lærði fyrst leiklist hjá Lárusi Pálssyni og Haraldi Björnssyni en árið 1945 hélt hún til London og nam við The Royal Aca­demy of Dramatic Art (RADA).

Leikferill Herdísar hófst er hún var níu ára gömul í Gúttó í Hafnarfirði og 17 ára gömul lék hún í fyrsta sinn hjá Leikfélagi Reykjavíkur. Þegar Þjóðleikhúsið tók til starfa árið 1950 lék Herdís Snæfríði Íslandssól í Íslandsklukkunni, sem var ein af opnunarsýningum leikhússins. Upp frá því starfaði Herdís við Þjóðleikhúsið til dauðadags en hún stóð á sviði þess í síðasta sinn aðeins viku fyrir andlát sitt, þá 89 ára gömul, er hún fór með hlutverk í verkinu Karma fyrir fugla.

Herdís fór með fjöl­mörg aðal­hlut­verk í Þjóðleikhúsinu til dæmis titil­hlut­verkið í Önnu Christie, Lóu í Silf­ur­tungl­inu, Geirþrúði drottn­ingu í Hamlet, frú Smith í Sköll­óttu söng­kon­unni, Maggí í Eft­ir synda­fallið, titil­hlut­verkið í Candidu og frök­en Mar­gréti í sam­nefnd­um ein­leik. Herdís lék einnig í fjölda útvarps- og sjónvarpsleikrita og einnig í fjölmörgum kvikmyndum og meðal annars fékk hún Edduverðlaunin 2002 fyrir leik sinn í kvikmyndinni Hafið. Hún hlaut riddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu árið 1969, heiðursverðlaun Leiklistarsambands Íslands Grímuna árið 2007 og heiðursverðlaun Menningarverðlauna DV árið 2010.

Náttúruvernd

breyta

Her­dís var mik­ill nátt­úru­unn­andi og baráttumanneskja fyr­ir gróður­vernd á Íslandi. Hún stofnaði og var formaður nátt­úru­vernd­ar­sam­tak­anna Lífs og lands og ritaði á þriðja hundruð blaðagreina um umhverfismál og fjármagnaði úr eigin vasa og framleiddi heimildamynd um lausagöngu búfjár á Íslandi, Fjallkonan hrópar á vægð en myndin var sýnd í Ríkissjónvarpinu árið 2012.[1] Þremur árum eftir lát Herdísar var afhjúpaður minnisvarði til minningar um framlag hennar til náttúruverndar. Minnisvarðinn er í reit Skógræktarfélags Reykjavíkur í Heiðmörk. [2]

Tilvísanir

breyta
  1. Mbl.is, „Herdís Þorvaldsdóttir er látin“ (skoðað 3. ágúst 2019)
  2. Skogarbondi.is, „Minnisvarði um Herdísi Þorvaldsdóttur“ (skoðað 3. ágúst 2019)

Tenglar

breyta

Umfjöllun um Herdísi Þorvaldsdóttur á Glatkistunni