Íslandsklukkan er söguleg skáldsaga eftir Halldór Laxness. Hún kom út í þremur hlutum á árunum 1943-1946: Íslandsklukkan (1943), Hið ljósa man (1944) og Eldur í Kaupinhafn (1946).

Söguþráður breyta

Fyrsti hluti sögunnar segir frá Jóni Hreggviðssyni, bónda á Rein, og baráttu hans við yfirvöld. Jón er dæmdur til dauða fyrir að drepa kóngsins böðul, Sigurð Snorrason, en sleppur úr haldi með hjálp Íslandssólarinnar Snæfríðar og flýr til Hollands og svo til Danmerkur þar sem hann ætlar sér að freista þess að ná tali af konungi og fá náðun.

Snæfríður Íslandssól, dóttir Eydalíns lögmanns (Snæfríður Björnsdóttir Eydalín), er í aðalhlutverki í öðrum hlutanum. Snæfríður er kynnt til sögunnar í fyrsta hlutanum þar sem hún ferðast um landið með Arnasi Arnæus og síðar þegar hún fær varðmann til að leysa Jón Hreggviðsson úr haldi á Alþingi. Í öðrum hlutanum er Snæfríður gift Magnúsi í Bræðratúngu, þrátt fyrir að hafa elskað Arnas.

Þriðji hlutinn fjallar svo um Arnas Arnæus og örlög bókasafns hans í Kaupinhafn. Arnas giftist Snæfríði aldrei, heldur býr í Kaupinhafn með ríkri konu sem fjármagnar bókasöfnun hans.

Allar koma aðalpersónurnar við sögu í öllum hlutum sögunnar, en rauði þráðurinn er barátta Jóns Hreggviðssonar.

Vísanir í sögunni breyta

  • Snæfríður Íslandssól hefur gjarnan verið borin saman við Guðrúnu Ósvífursdóttur, söguhetju í Laxdælu. Þær eru báðar miklir skörungar og ummæli þeirra um lífsförunauta sína þykja svipuð.
  • „Heldur þann versta en þann næstbesta“ sagði Snæfríður Íslandssól þegar faðir hennar spurði hana 17 ára gamla hvers vegna hún vildi ekki Dómkirkjuprestinn.
  • „Þeim var ég verst er ég unni mest“ sagði Guðrún Ósvífursdóttir þegar Bolli sonur hennar spurði hana hvern eiginmanna hennar hún hefði elskað mest.

Fyrirmyndir og sögulegur bakgrunnur breyta

Þegar sagan kom út var viðvörun til lesenda aftan á fyrsta bindinu sem var svo ítrekuð í síðari bindum verksins:

Höfundur vill láta þess getið að bókin er ekki „sagnfræðileg skáldsaga“, heldur lúta persónur hennar, atburðir og stíll einvörðúngu lögmálum verksins sjálfs.

Þrátt fyrir þetta er ljóst að rætur sögunnar liggja djúpt í þjóðfélagsveruleika sögutímans.

Sögupersónurnar eiga sér margar fyrirmyndir í raunveruleika sögutímans. Þar má nefna:

  • Jón Hreggviðsson - Jón Hreggviðsson, bóndi á Fellsöxl í Skilmannahreppi, síðar á Efri-Reyni í Akranesshreppi.
  • Snæfríður Íslandssól - Þórdís Jónsdóttir, systir Sigríðar konu Jóns Vídalíns biskups í Skálholti, og eiginkona Magnúsar Sigurðssonar í Bræðratungu er sú persóna sögutímans sem auðveldast er að tengja Snæfríði við. Fyrirmyndir hennar eru þó fleiri, t.d. Guðrún Ósvífursdóttir og Scarlett O'hara, sögupersóna Á hverfanda hveli. Peter Hallberg bar hana saman við Marie Grubbe í sögu J. P. Jacobsens.
  • Arnas Arnæus - Árni Magnússon er hans helsta fyrirmynd, þó einnig virðist hafa verið tekið mið af afskiptum Skúla Magnússonar, landfógeta, af dönsku einokunarversluninni.
  • Jón Grindvicensis - Jón Ólafsson úr Grunnavík, skrifari Árna Magnússonar.
  • Magnús í Bræðratúngu - Magnús Sigurðsson í Bræðratungu.
  • Jón Marteinsson - Jón Torfason frá Flatey og Jón Marteinsson frá Hildisey. Einnig hefur Jón Eggertsson frá Ökrum í Skagafirði verið nefndur í þessu sambandi.
  • Metta kona Arnæusar - Mette Fischer kona Árna Magnússonar.
  • Hólmfastur Guðmundsson, maður sem var hýddur fyrir að selja fisk fyrir snærisspotta en röngum kaupmanni á tímum Einokunarverslunarinnar

Fleiri persónur sögunnar eiga sér fyrirmyndir í raunveruleikanum, t.d. allir þeir Íslandskaupmenn sem nefndir eru og ýmsar aðrar minni háttar persónur.

Halldór notar sér annála töluvert. Stundum nánast orðrétt, til dæmis lýsinguna á bruna Kaupinhafnar í fimmtánda kafla þriðja bindis, sem er tekin úr Hítardalsannál. Einnig nýtir hann sér annað aðsótt efni eftir föngum en samsamar það þó sögunni og fær því þannig nýja merkingu og nýtt hlutverk.

Heimildir breyta

  • Eiríkur Jónsson, 1981. Rætur Íslandsklukkunnar. Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík.

Tenglar breyta