Hafnartorg
Hafnartorg er húsaþyrping við gömlu höfnina í Kvosinni í miðborg Reykjavíkur. Hafnartorg afmarkast af Geirsgötu til norðurs, Lækjargötu til austurs, Tryggvagötu til suðurs og Tollhúsinu til vesturs. Á jarðhæð húsanna eru verslanir og veitingastaðir, en skrifstofur og 76 lúxusíbúðir á hæðunum fyrir ofan.[1] Fyrstu verslanirnar voru opnaðar árið 2018. Meðal fyrstu fyrirtækja sem voru opnuð þar voru Fréttablaðið og H&M. Mikla athygli vakti þegar úrsmíðaverkstæði Michelsen flutti árið 2019 á Hafnartorg frá Laugavegi þar sem verslunin hafði verið í 80 ár.[2] Eins vakti athygli þegar Hið íslenzka reðasafn flutti þangað frá Hlemmi árið 2020. Í ágúst árið 2022 var mathöllin Hafnartorg Gallery opnuð við Geirsgötu, gegnt Hafnartorgi.
Hafnartorg skiptist í sjö byggingar. Heildarstærð bygginganna er 23.350 fm.[3] Milli húsanna eru göngugötur, Reykjastræti og Kolagata, og milli þeirra og Tollhússins er göngugatan Steinbryggja þar sem sjá má hluta af gömlu steinbryggjunni í Reykjavík sem hafði varðveist undir landfyllingu. Reykjastræti nær raunar allt frá tónlistarhúsinu Hörpu að Lækjartorgi.
Skipulag og framkvæmdir
breytaFramkvæmdin var umdeild frá upphafi. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fyrrum forsætisráðherra kallaði Hafnartorg „mesta skipulagsslys í miðbæ Reykjavíkur“ og reyndi að fá útliti húsanna breytt.[1]
Á lóðinni þar sem Hafnartorg er var áður stórt bílaplan. Gröftur á lóðinni hófst snemma árs 2015 en í ljós kom að gamall hafnargarður lægi undir bílaplaninu. Hann var um það bil 70 m langur og vel varðveittur. Þann 11. september 2015 skyndifriðlýsti Minjastofnun hafnargarðinn. Sex vikum seinna var hann friðlýstur í heild sinni af settum forsætisráðherra. Loks var tekin ákvörðun um að fjarlægja garðinn og nota hluta af honum í nýbygginguna.[4]
Vegna legu nýju húsanna þurfti að breyta gatnamótum Geirsgötu og Lækjargötu í svokölluð T-gatnamót. Framkvæmdir á gatnamótunum hófust í mars 2017 og voru þau opnuð fyrir umferð í nóvember sama ár.[5]
Heimildir
breyta- ↑ 1,0 1,1 „Hafnartorg breytir ásýnd miðbæjarins“, RÚV, 15. apríl 2018.
- ↑ Stefán Ó. Jónsson (4. febrúar 2019). „Tími Michelsen á Laugavegi liðinn“. Vísir.is.
- ↑ „Skrifstofur — Hafnartorg“. Sótt 27. ágúst 2018.
- ↑ „Hafnargarðurinn: Um hvað var deilt?“, Vísir, 11. nóvember 2015.
- ↑ „Geirsgata/Kalkofnsvegur breyting gatnamóta“. Sótt 26. ágúst 2018.