Reykjavíkurhöfn
Reykjavíkurhöfn er höfn sem liggur út frá Kvosinni í miðborg Reykjavíkur í Reykjavíkinni utanverðri. Elsti hluti hennar, Ingólfsgarður, var reistur frá 1913 til 1915 og lokið var við gerð Örfiriseyjargarðs 1917. Síðan þá hefur höfnin þróast og breyst, meðal annars með miklum landfyllingum og dýpkunarframkvæmdum. Dýpi í höfninni er nær alls staðar yfir 7 metrar.
Höfnin skiptist í tvennt við Ægisgarð: vesturhöfn (Eyjargarður, Norðurgarður, Norðurbugt, Grandabakki, Grandabryggja, Bótarbryggja, Vesturbugt og Slippurinn í Reykjavík) og austurhöfn (Suðurbugt, Verbúðirnar, Grófarbakki, Miðbakki, Austurbakki, Faxagarður og Ingólfsgarður). Mest atvinnustarfsemi er í vesturhöfninni þar sem landað er á Grandagarði, en í austurhöfninni eru aðallega smábátar, skútur og skemmtiferðaskip auk þess sem Landhelgisgæsla Íslands og Hafrannsóknastofnun hafa verið með aðstöðu á Faxagarði. Uppskipun úr flutningaskipum sem áður var í Austurhöfninni fluttist öll í Sundahöfn eftir árið 1968, en eftir það var farið að kalla Reykjavíkurhöfn „gömlu“ höfnina.
Við Faxagarð og Ingólfsgarð í Austurhöfninni hafa lengi staðið miklar framkvæmdir þar sem tónlistar- og ráðstefnumiðstöðin Harpan hefur risið auk nýs hótels á vegum Marriott-hótelkeðjunnar og höfuðstöðva Landsbankans. Gert er ráð fyrir að íbúðablokkir rísi við Mýrargötu þar sem Daníelsslippur var áður. Þar hafa hvalaskoðunarbátar og aðrir ferðaþjónustubátar nú aðstöðu, auk smábátaútgerða, í Suðurbugt og Vesturbugt. Við Vesturbugt er Sjóminjasafnið í Reykjavík og aflaskipið Gullborg við stór bólverk úr timbri. Þar er líka safnaskipið Óðinn. Skólaskipið Sæbjörg var lengi við Austurbakka en flutti árið 2022 að Bótarbryggju á Grandagarði.
Saga
breytaÁður en höfnin var gerð var náttúruleg höfn og skipalægi austan við Örfirisey, en verslunarhús höfðu staðið á Hólminum vestan Örfiriseyjar. Skipalægið þótti ekki gott, sérstaklega þegar minni skútur tóku að landa fiski þar á 19. öld, vegna strauma og vegna þess hve opið það var fyrir norðlægum vindáttum. Kaupmenn í Reykjavík höfðu þá reist nokkrar trébryggjur í fjörunni, sem hófst norðan megin við Hafnarstræti, en engin þeirra hæfði fyrir skip vegna grynninga og selflytja varð aflann í land með smábátum.
Hafist var handa við hafnargerðina fyrst árið 1913 vegna ótta verslunareigenda í Kvosinni við áform um hafnir annað hvort í Nauthólsvík í landi Skildinganess (í lögsagnarumdæmi Seltjarnarness) eða í Viðey. Að auki hafði hin náttúrulega höfn austan Örfiriseyjar versnað við að grandinn sem lá út í eyna rofnaði 1902 svo að sjór gekk látlaust yfir. Ofsaveður 1910 þar sem mörg skip slitnuðu upp og skemmdust í hafnarlegunni átti einnig þátt í að þrýsta á um framkvæmdir.
Fyrstu framkvæmdirnar miðuðu að því að reisa Grandagarð og gera síðan brimgarð (Örfiriseyjargarður) til austurs frá Örfirisey. Frá austri (frá Batteríinu) var síðan reistur annar garður, Ingólfsgarður, sem kom til móts við hinn og afmarkaði þannig hafnarsvæðið. Tvær járnbrautir voru lagðar frá grjótnámu í Öskjuhlíð að höfninni til að flytja efni til hafnargerðarinnar. Önnur brautin lá að grandanum en hin að Batteríinu meðfram sjónum (sem varð síðar grunnur undir Skúlagötu). Fyrsti hluti hafnarinnar sem lokið var við var Ingólfsgarður og þar var gerð fyrsta bryggjan í Reykjavík sem úthafsskip gat lagst við. Bryggjan var kölluð Kolabryggja. Þegar Kolabakki var fylltur upp, varð að finna nýjan stað, þar sem möl og sand var að fá, en tiltækt fyllingarefni var þrotið í Skólavörðuholti og gryfjunni við Öskjuhlíð. Sunnarlega í Kringlumýrinni er sand- og malarborinn jökulruðningur þar sem landið hækkar lítils háttar, tæpan kílómetra austsuðaustur af Öskjuhlíðinni. Þangað var lagt spor frá austurálmu járnbrautarinnar (við bæinn Hlíð) og malarnám hafið með krananum CYCLOP. Uppfylling Kolabakka tók fremur langan tíma og var ekki lokið fyrr en á árinu 1922. Árið 1927 var Kolakraninn reistur á Ingólfsgarði til að flytja kol úr skipum sem lágu við Kolabryggju.
Uppskipun úr flutningaskipum var mest í Austurhöfninni þar sem voru kranar og önnur aðstaða til flutninga. Fljótlega eftir Síðari heimsstyrjöldina varð ljóst að sú aðstaða var of lítil. Árið 1960 hófust framkvæmdir við Sundahöfn sem opnaði fyrsta áfanga árið 1968. Eftir það fluttist öll flutningastarfsemi smátt og smátt þangað og Austurhöfnin varð viðleguhöfn, meðal annars fyrir Landhelgisgæsluna. Þann 17. febrúar 1968 var Kolakraninn rifinn.
Árið 1964 reisti Reykjavíkurhöfn Grandaskála á Grandabryggju í vesturhöfninni og leigði út sem vöruskemmu til flutningafyrirtækja. Faxaskáli, stór vöruskemma á Austurbakka, var reist af Eimskip milli 1968 og 1970, þar sem Salthúsið stóð áður. Hann var ein helsta vörugeymsla félagsins þar til nýjar byggingar voru reistar í Sundahöfn eftir 1980 og bryggjukantar þar lengdir. Faxaskáli var rifinn árið 2006 til að rýma fyrir byggingaframkvæmdum á Austurbakka.
Árið 1987 var sett niður flotbryggja við Ingólfsgarð fyrir Siglingafélag Reykjavíkur, Brokey sem hafði lengi sóst eftir aðstöðu í höfninni fyrir stærri seglskútur. Félagið kom sér upp aðstöðu í skemmum við Austurbugt árið 1994, en árið 2006 voru þau hús rifin til að rýma fyrir byggingu tónlistar- og ráðstefnuhúss. Siglingafélagið hefur síðan þá verið með aðstöðu á Ingólfsgarði.
Þann 1. desember árið 2005 var stofnað byggðasamlag um rekstur Reykjavíkurhafnar (með Sundahöfn), Grundartangahafnar, Akraneshafnar og Borgarneshafnar, undir nafninu Faxaflóahafnir. Reykjavíkurborg fer með um 76% eignarhlut í samlaginu.
Heimildir
breyta- „Reykjavíkurhöfn - lífæð borgarinnar“ (PDF). Borgarsögusafn. Sótt 5. nóvember 2006.
Tenglar
breyta- Vefur Faxaflóahafna
- Reykjavíkurhöfn - forsaga hafnargerðarinnar; grein í Lesbók Morgunblaðsins 1952
- Við Reykjavíkurhöfn fyrir stríð; grein í Lesbók Morgunblaðsins 1981
- Reykjavíkurhöfn; grein í Lesbók Morgunblaðsins 1946
- Buðu 75 milljónir í hlut Borgarbyggðar í Faxaflóahöfnum
- Reykjavíkurhöfn 50 ára (Þjóðviljinn, 260. tölublað (16.11.1967))
- Járnbrautin í Reykjavík 1913-1928; Saga 1973