Minjastofnun Íslands er stjórnsýslustofnun undir mennta- og menningar­mála­ráðuneyti Íslands sem hefur yfirumsjón með verndun menningarminja, fornleifa, húsa og mannvirkja, á Íslandi. Hlutverk stofnunarinnar er skilgreint í lögum um menningarminjar nr. 80/2012 en við gildistöku þeirra í janúar 2013 voru Fornleifavernd ríkisins og Húsafriðarnefnd ríkisins sameinuð í Minjastofnun Íslands og hin fyrrnefndu lögð niður.[1] Forstöðumaður Minjastofnunar er dr. Kristín Huld Sigurðardóttir.[2]

Meginhlutverk Minjastofnunar er að tryggja eftir föngum varðveislu menningarsögulegra minja í eigin umhverfi og auðvelda aðgang og kynni þjóðarinnar af þeim. Til menningarminja teljast ummerki um sögu þjóðarinnar svo sem fornminjar, menningarlandslag, kirkjugripir, minningarmörk, hús og önnur mannvirki, skip og bátar, listmunir og nytjahlutir[3].

Minjastofnun Íslands er með skrifstofur á sjö stöðum á landinu og starfa sérstakir minjaverðir, hver á sínu minjasvæði, á landsbyggðinni[4].

Minjastofnun Íslands til ráðgjafar eru tvær ráðgjafanefndir: húsafriðunarnefnd og fornminjanefnd. Á hverju minjasvæði eru starfrækt minjaráð sem "ætlað er að fjalla um menningarminjar, varðveislu þeirra og nýtingu í þágu samfélagsins"[5].

Tenglar breyta

Heimildir breyta

  1. „Um okkur – Minjastofnun“. Sótt 3. desember 2018.
  2. „Aðrir tengiliðir – Starfsmenn – Minjastofnun“. Sótt 3. desember 2018.
  3. „80/2012: Lög um menningarminjar“. Alþingi. Sótt 20. september 2019.
  4. „Starfsstöðvar“. Minjastofnun. Afrit af upprunalegu geymt þann 2. september 2019. Sótt 20. september 2019.
  5. „80/2012: Lög um menningarminjar“. Alþingi. Sótt 20. september 2019.
   Þessi stjórnmálagrein sem tengist Íslandi er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.