52°22′31″N 4°53′02″A / 52.3753°N 4.884°A / 52.3753; 4.884

Hús Önnu Frank stendur við Prinsengracht 263

Hús Önnu Frank (Anne Frank huis) er verksmiðjuhúsið í Amsterdam þar sem fjölskylda Önnu Frank ásamt nokkrum einstaklingum földu sig í tvö ár fyrir nasistum 1942-44 í heimstyrjöldinni síðari, þar til þau uppgötvuðust og voru send í útrýmingarbúðir. 1960 var húsinu breytt í safn sem er gríðarlega vinsælt.

Hlutverk hússins

breyta

Húsið stendur við Prinsengracht 263 (gracht merkir síki). Það var reist 1635 og stendur framhliðin við síki. Framhliðin var hins vegar reist 1739. Húsið var lengi vel í einkaeigu sem íbúðarhús, en var svo breytt í iðnaðarhús. Þar voru framleiddar ýmsar iðnaðarvörur fram á 20. öld.

Frank fjölskyldan

breyta
 
Til að komast í fylgsni Frank fjölskyldunnar þurfti að fara á bak við þennan bókaskáp og ganga upp tröppur

Þjóðverjar hertóku Holland 10. maí 1940 og hófu brátt handa við að senda gyðinga úr landi. 1. desember 1940 flutti Otto Frank í húsið við Prinsengracht, en hann var eigandi fyrirtækjanna Opekta og Pectacon. Fyrirtækin hans voru starfrækt á jarðhæð, en á 2. hæð voru skrifstofur. Þegar nasistar hófu að safna gyðingum saman og senda úr landi, ákvað Otto Frank að útbúa leyniaðstöðu á 3. hæð hússins. Þar fór hann inn 1942, ásamt eiginkonu sinni og tveimur dætrum. Anna Frank var sú yngri, en Margot hét sú eldri. Auk þeirra leyndust þar fjórir aðrir gyðingar (van Pels fjölskyldan og Fritz Pfeffer). Þessar átta persónur deildu með sér um 50 m2 rými í tvö ár. Til að komast í rýmið á 3. hæð varð að fara á bak við bókaskáp og upp tröppur. Samstarfsmenn Otto Franks heimsóttu fólkið reglulega og færðu þeim mat og aðrar nauðsynjavörur.

Dagbók Önnu Frank

breyta
 
Stytta af Önnu Frank

Fólkið faldist í húsinu í tvö heil ár og fór aldrei út. Oftast sváfu þau á daginn, enda var enn unnið í verksmiðjunni. Á kvöldin var þeim færður matur. Ekki gátu þau kveikt á ljósum nema með því að setja vel fyrir glugga. Forðast þurfti allan hávaða. Yngri dóttir Ottos, Anna Frank, hélt dagbók um veru þeirra í fylgsninu, en þar er greinargóð lýsing á daglegu lífi þessa óvenjulega fólks. Síðasta færsla dagbókarinnar var 1. ágúst 1944. Aðeins þremur dögum síðar voru þau svikin. Eftir ábendingar ókunnugs aðila símleiðis ruddust Gestapo-menn inn í fylgsnið 4. ágúst og handtóku Önnu og öll hin. Þau voru send í útrýmingarbúðir hingað og þangað. Anna sjálf var send til Auschwitz, ásamt systur sinni, en síðar til Bergen-Belsen, þar sem báðar létust í mars 1945. Ritari Otto Franks, Miep Gies, sem fært hafði gyðingunum mat, fann dagbókarskrif Önnu og hélt þeim til haga í því skyni að skila þeim til Önnu þegar hún kæmi til baka. Það gerðist þó ekki, því Otto Frank var eini aðilinn í fylgsninu sem lifði helförina af. Hann ákvað að prenta dagbókina sem í dag hefur verið gefin út á 55 málum. Dagbókin er á heimsminjaskrá UNESCO.

Hús Önnu Frank

breyta

Skömmu eftir fyrstu útgáfu Dagbókar Önnu Frank hóf fólk að fara til Prinsengrachten til að virða fyrir sér húsið. 1955 var fyrirtækið selt og átti þá að rífa húsið, ásamt hliðarhúsunum. Þessu var ákaft mótmælt af fólki sem vildi halda húsinu til minningar um Önnu og fjölskyldu hennar. Til að koma í veg fyrir niðurrifið stilltu mótmælendur sér upp fyrir framan húsið og vörnuðu vélunum aðgangs. Samtímis var sett lögbann á niðurrifið. 1957 var Stofnun Önnu Frank sett á laggirnar, en hún safnaði fé til að kaupa húsið við Prinsengracht 263 og reyndar einnig 265. 1960 var svo safn stofnað í húsi Önnu Frank sem sýndi ýmislegt um hvernig nasistar eltu og þjáðu gyðinga. 1970 og 1999 var safnið stækkað. Safnið hefur verið innréttað eins og húsið var á tímum Önnu Frank. Þar má jafnvel sjá nokkra persónulega muni Önnu og fólksins sem faldi sig fyrir nasistum. Í dag er Hús Önnu Frank eitt mest sótta safn í Amsterdam, en árið 2007 komu rúmlega milljón manns í húsið.

Heimildir

breyta

Fyrirmynd greinarinnar var „Anne Frank huis“ á hollensku útgáfu Wikipedia. Sótt 27. september 2011.