Grýlukvæði
Grýlukvæði eru kvæði flokkuð með barnagælum, þótt þau hafi einkum verið notuð til þess að hrella og/eða aga börn fyrr á öldum. Kvæðin gátu þannig falið í sér ákveðið uppeldisgildi, þótt þau hafi eflaust einnig falið í sér skemmtanagildi.[1] Í grýlukvæðunum er jólavætturin Grýla fyrirferðamest allra persóna ásamt Leppalúða, eiginmanni hennar, og jólasveinunum.
Einnig hafa varðveist kvæði um Skrögg og Dúðadurt en þeir eru taldir vera bræður jólasveinanna. Samkvæmt heimildum er Dúðadurtur albróðir þeirra en Skröggur hálfbróðir og „holukrakki" Leppalúða og Lúpu. Segir sagan að á meðan Grýla lá karlæg í veikindum í heilt ár hafi Leppalúði haldið framhjá henni með Lúpu og eignuðust þau saman soninn Skrögg.
Aldur grýlukvæða
breytaElstu heimildir þar sem Grýlu ber á góma eru íslensk skinnhandrit frá 13. öld og má helst nefna nafnaþulu í Eddu Snorra Sturlusonar en þar bregður Grýlunafninu fyrir sem eitt af tröllkvennaheitum.[2] Þá má nefna Grýluvísu sem sem varðveitt er í Íslendingasögu Sturlu Þórðarsonar en þá vísu kvað Oddaverjinn Loftur Pálsson rétt fyrir Breiðabólstaðarbardaga í Fljótshlíð gagnvart Birni Þorvaldssyni(hálfbróður Gissurar jarls) árið 1221. Vísa Lofts hljóðar svo:
- Hér fer Grýla í garð ofan
- og hefr á sér
- hala fimmtán.
Dæmi um grýlukvæði
breytaGrýlukvæði eftir óþekkta höfunda (Íslensk þjóðkvæði)
- Grýla á sér lítinn bát
- Grýla er að sönnu gömul herkerling
- Grýla kallar á börnin sín
- Grýla kemur og gægist um hól
- Grýla reið fyrir ofan garð
- Grýla reið með garði
- Hér er komin Grýla
- Hér fer Grýla í garð ofan
- Það á að gefa börnum brauð
Grýlukvæði eftir þekkta höfunda
- Dúðadurtskvæði (Hallgrímur Eldjárnsson)
- Ekki linnir ferðunum um Fljótsdalinn enn (Stefán frá Vallanesi)
- Grýla heitir grettin mær
- Grýla hét tröllkerling leið og ljót (Jóhannes úr Kötlum)
- Hér er komin hún Grýla (Eggert Ólafsson)
- Hlustið þið til hýr börn (Bjarni Gissurarson)
- Kom ég út og kerling leit ófrýna (Hallgrímur Jónsson Thorlacius)
- Skröggskvæði (Guðmundur Bergþórsson)