Leppalúði
Leppalúði er annar eða þriðji eiginmaður tröllkonunar Grýlu en ekki ber þjóðsögum saman um hve marga eiginmenn Grýla raunverulega átti þótt oftast séu þeir nefndir tveir.
Leppalúði er óskaplegt letiblóð og þótt þjóðsögur segi af veiðum þeirra á mönnum og börnum saman er mjög oft einnig minnst á hann bíðandi eftir að Grýla færi honum mat í helli þeirra í fjöllunum.
Foreldrar íslensku jólasveinanna
breytaÝjað er að því í þjóðsögum frá 19. öld að saman hafi þau átt hina alræmdu íslensku jólasveina sem koma til byggða um jólin. Fer þó af því tvennum sögum og frekar má ætla af öllum þeim Grýlukvæðum sem hafa varðveist og eru mun eldri en þær fáu sögur þar sem jólasveinarnir eru nefndir á nafn, að Grýla hafi átt þá áður en hún tók saman við Leppalúða ef hún á annaðborð var móðir þeirra.
Því í öllum elstu sögum af henni og kvæðum er ætíð þegar barna hennar er getið að Grýla hafi bara átt tuttugu börn og eru þau öll nafngreind, en á meðal þeirra eru jólasveinarnir ekki nefndir. Raunar er líklegt að sú saga að hún hafi verið móðir þeirra sé ekki eldri en frá 19. öld og þá einnig að Leppalúði hafi verið faðir þeirra.
Því fyrir þann tíma er jólasveinunum lýst með allt öðrum hætti en síðar varð. Áttu þeir að vera forynjur miklar sem komu róandi á skinnbátum strekktum að innan með beinum frá hálendi Grænlands og vera hinar mestu skaðræðisskepnur. Í þeim sögum er hvergi minnst einu orði á nokkur tengsl þeirra við Grýlu eða Leppalúða. Það eina sem þau áttu sameiginlegt var að þykja gott að borða fólk og þá helst börn.
Líklegast er talið að á upplýsingaöldinni 19., þegar álitið var að þjóðsögur hafi almennt ekki átt sér stað, að soðin hafi verið upp úr eldri sögum sú saga sem við þekkjum nú og myndin af jólasveinum dagsins í dag hafi verið milduð og ef til vill með hliðsjón af hinum dönsku Nissum að einhverju leyti.