Tryggvi Magnússon (6. júní 1900 - 7. september 1960) teiknari fæddist að Bæ í Steingrímsfirði á Ströndum. Hann lauk prófi frá Gagnfræðaskólanum á Akureyri árið 1919 og stundaði því næst nám í Kaupmannahöfn í tvö ár og fór svo til New York í League of Art og var þar 1921–1922 við nám í andlitsmyndagerð. Hann stundaði svo nám í málaralist í Dresden á árunum 1922–1923 og fluttist að námi loknu til Reykjavíkur. Tryggvi var einn af stofnendum Félags íslenskra teiknara.

Stundum er sagt að Tryggvi Magnússon hafi verið fyrsti teiknarinn sem hafði atvinnu af listgrein sinni. Tryggvi myndskreytti m.a. jólasveinakvæði Jóhannesar úr Kötlum, teiknaði íslensku fornmannaspilin, drög að öllum sýslumerkjunum fyrir Alþingishátíðina 1930 og skjaldarmerkið íslenska. Hann var um árabil aðalteiknarinn í skopritið Spegilinn og var einna þekktastur fyrir skopmyndir sínar.

Myndlistarkonan Þórdís Tryggvadóttir er dóttir Tryggva Magnússonar.

Tenglar breyta

   Þetta æviágrip er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.