Gissur Ólafur Erlingsson
Gissur Ólafur Erlingsson (21. mars 1909 – 18. maí 2013) var löggiltur dómtúlkur og skjalaþýðandi. Hann var elstur íslenskra karlmanna er hann lést, 104 ára að aldri. Gissur fæddist í Brúnavík við Borgarfjörð eystra. Foreldrar hans voru Erlingur Filippusson grasalæknir frá Kálfafellskoti í Fljótshverfi í Vestur-Skaftafellssýslu og Kristín Jónsdóttir frá Gilsárvöllum í Borgarfirði eystra.
Gissur lauk stúdentsprófi frá MR árið 1928 og stundaði um tíma nám í læknisfræði við Háskóla Íslands. Hann lauk prófi frá Loftskeytaskólanum 1941 og var löggiltur dómtúlkur og skjalaþýðandi. Gissur stundaði m.a. sjómennsku á yngri árum og var loftskeytamaður á togurum og farskipum á stríðsárunum. Hann var stöðvarstjóri endurvarpsstöðvar RÚV á Eiðum 1952-65, stöðvarstjóri Pósts og síma í Neskaupstað 1965-70 og á Siglufirði 1970-72. Hann var umdæmisstjóri Pósts og síma á Seyðisfirði 1972-77 en fluttist þá til Akureyrar og var í hlutastarfi hjá Bæjarfógeta. Hann var eftir það búsettur á Siglufirði, þá á Selfossi, í Garðabæ og síðast í Reykjavík.
Hann þýddi nokkur leikrit og smásögur til flutnings í útvarpi og auk þess hátt á annað hundrað bækur, bæði skáldrit og fræðibækur. Einnig stundaði hann skjalaþýðingar að nokkru marki. Gissur var virkur í Rótaryhreyfingunni og var umdæmisstjóri hennar á Íslandi 1975-76. Hann var stofnfélagi í golfklúbbum Vestmanneyja (1938), Neskaupstaðar (1965) og Siglufjarðar (1970).
Gissur kvæntist Mjallhvíti Margréti Jóhannsdóttur 12. september 1931. Hún var fædd 22. október 1911 en lést árið 1972. Þau skildu. Hann kvæntist síðari eiginkonu sinni, Valgerði Magnúsínu Óskarsdóttur, 16. september 1944. Hún var fædd 2. desember 1917 en lést árið 2006. Gissur eignaðist sex börn með fyrri konu sinni og eitt með þeirri síðari. Afkomendur hans eru nú nærri 150.