Skildinganes var jörð í Reykjavík við Skerjafjörð sem heyrði undir lögsagnarumdæmi Seltjarnarness til ársins 1932. Á jörðinni liggja nú Reykjavíkurflugvöllur að stærstum hluta, Skerjafjarðarhverfi („Stóri-Skerjafjörður“ og „Litla-Skerjafirði“) auk Nauthólsvíkur. Jörðin náði þannig frá Sundskálavík, vestan við Suðurgötu, yfir hálfa VatnsmýrinaÖskjuhlíð. Gatan sem liggur í sveig eftir nesinu þar sem Skildinanesbæirnir stóðu heitir Skildinganes.

Kort sem sýnir örnefni í Reykjavík og nágrenni.

Elstu heimildir um jörðina eru bréf þar sem skólameistara í Skálholti eru lagðar jarðir til uppihalds 1553 og síðan bréf 1556 þar sem Knud Stensen hirðstjóri leggur jarðir Skálholtsstaðar á Álftanesi og Seltjarnarnesi undir konung. Skildinganesbæirnir voru við vesturströndina sunnan við Sundskálavík þar sem núna er hverfið Skerjafjörður og hétu Austurbærinn og Vesturbærinn (rifnir) og Reynistaður þar sunnan við (nú Skildinganes 15), en margar hjáleigur voru í landinu, meðal annars Nauthóll sem Nauthólsvík heitir eftir.

Rétt eftir aldamótin 1900 keyptu nokkrir menn hálfa jörðina og stofnuðu Hlutafélagið Höfn sem átti að standa að byggingu hafnaraðstöðu fyrir Reykjavík í Skerjafirðinum. 1913 hóf síðan félagið Harbours and Piers Association Ltd, sem meðal annars var í eigu Einars Benediktssonar, hafnarframkvæmdir við Nauthólsvík sem strax var hætt við. Fossafélagið Títan keypti síðan eignina af Harbours and Piers 1918 með það fyrir augum að reisa höfn, en stærstur hluti landareignar þess félags var síðar tekinn eignarnámi undir Reykjavíkurflugvöll.

Heimildir

breyta
  • Guðlaugur R. Guðmundsson, „Lýsing Skildinganesjarðar“, Landnám Ingólfs, Reykjavík, Félagið Ingólfur, 1983