Frúarkirkjan í Freiburg

Frúarkirkjan í Freiburg (Freiburger Münster eða Münster Unserer Lieben Frau) er helsta kennileiti borgarinnar Freiburg í Þýskalandi. Hún var 313 ár í byggingu og er af mörgum talin ein fegursta kirkja heims.

Frúarkirkjan er í miðborg Freiburg. Á myndinni er kirkjan með stillansa.
Ufsagrýla og dýrlingar

Saga Frúarkirkjunnar

breyta

Fyrirrennari Frúarkirkjunnar frá 12. öld var jafnframt fyrsta kirkja borgarinnar og reist af Konrad I og bróður hans Bertold III af Zähringer-ætt. Af þeirri kirkju eru bara til nokkrir hlutar af grunninum undir gólfi núverandi kirkju. Berthold vildi búa til veglegan greftrunarstað fyrir sig og jafnframt að gefa íbúum hinnar nýju borgar betri og veglegri kirkju. Því var hafist handa við að reisa nýja kirkju í kringum 1200 í síðrómönskum stíl og þjónaði kirkjan í Basel sem fyrirmynd. Í fyrsta áfanga var þverskipið reist og neðstu hlutar turnsins. 1230 hófst annar áfangi. Þá var aðalskipið reist og turninn hækkaður í gotneskum stíl. Turninn var í smíðum allt til 1330 og er eini kirkjuturn Þýskalands sem lokið var við að reisa á miðöldum í gotneskum stíl. Hann er 116 metra hár og var kirkjan þá hæsta bygging Þýskalands í 20 ár, eða þar til Maríukirkjan í Lübeck var fullgerð. Frúarkirkjan í Freiburg er enn með hæstu kirkjum heims. Alveg frá upphafi þótti kirkjan ákaflega fögur og hafa ýmsir lýst henni sem fegurstu kirkju heims. Annað einkenni kirkjunnar eru hinar mörgu ufsagrýlur (gargoyles), sem eru sjaldgæfar á gotneskum kirkjum. Eftir þetta var kórinn smíðaður í síðgotneskum stíl. Þá var hlé í u.þ.b. öld. 1510 var kirkjuþakið yfir kórnum smíðaður. Gamli kórinn var rifinn og nýr reistur og sameinaður við aðalskipið. 1513 fór vígsla kórsins fram og markar það enda á byggingarframkvæmdum. Smíðin hafði því tekið 313 ár alls, með hléum. Seinna á 16. öld fékk kirkjan svo fagran forsal í endurreisnarstíl. 1851 var klukka sett í turninn. Klukkunni hefur ekki verið viðhaldið eins og skyldi. Hún gengur að vísu, en einn vísirinn er ekki lengur í lagi og hún er hætt að slá á heilu tímana. Í heimstyrjöldinni síðari varð Freiburg tvisvar fyrir loftárásum. Í fyrra sinnið voru skemmdir í borginni frekar litlar, enda um mistök þýskra flugvéla að ræða. Í síðara skiptið, 27. nóvember 1944, voru loftárásirnar mjög harðar. Áður en þær áttu sér stað var búið að fjarlægja gluggarúðurnar og setja aðrar ómerkari í þeirra stað. Einnig var búið að setja blýakkeri eða varnir á vissa hluta kirkjuþaksins og turnsins, til varnar sprengjum og sérstaklega höggbylgna og sprengjubrota. Það var reyndar algert kraftaverk að kirkjan sjálf varð ekki fyrir neinum sprengjum, eins og flest hús allt í kring. En höggbylgjur dundu á henni og brotnuðu þá allar rúður. Aðrar skemmdir voru í algeru lágmarki sökum forsjálni heimamanna. Eftir stríð voru blývarnirnar teknar niður og upphaflegu rúðurnar aftur settar í. Þannig varðveittist kirkjan í miðaldaformi sínu, ein af fáum miðaldakirkjum Þýskalands í stórborg.

Um heitið

breyta

Í þýsku tungumáli kallaðist Münster upphaflega klausturkirkja (komið af monasteria = klaustur). En síðla á miðöldum var einnig farið að kalla nokkrar stórar og merkar kirkjur þessu heiti, þrátt fyrir að þær hafi aldrei tilheyrt klaustri. Þetta á ekki bara við um kirkjur í þýskumælandi löndum, heldur einnig kirkjur í öðrum löndum, s.s. Englandi (Minster). Frúarkirkjan í Freiburg er í þessum hópi, þ.e. hún hefur aldrei verið í tengslum við klaustur.

Ýmsar upplýsingar

breyta
  • Lengd: 127 metrar
  • Breidd: 30 metrar
  • Hæð: 116 metrar
  • Hæð sem hægt að komast í að innan: 70 metrar
  • Fjöldi kirkjuklukkna: 19
  • Þyngd stærstu kirkjuklukkunnar: 6,8 t

Listaverk

breyta
 
Líndúkurinn er stærsti altarisdúkur Evrópu
 
Einn af gluggunum í Frúarkirkjunni

Háaltarið

breyta

Eitt stærsta listaverk kirkjunnar er háaltarið. Það var gert 1512-1516 og málað af Hans Holbein yngri. Myndin sýnir fjögur atriði úr ævi Maríu og Jesú. Í kring eru postularnir tólf (Páll í stað Júdasar). Einkennandi fyrir háaltarið er að það er einnig málað á bakhlið. Það sýnir Jesú á krossinum. Bakhliðina er eingöngu hægt að sjá í opinberri leiðsögn um kirkjuna.

Líndúkur

breyta

Kirkjan á líndúk sem notaður er til að hylja háaltarið á föstutimanum fyrir páska. Dúkurinn var gerður 1612 og er stærsti altarisdúkur Evrópu sem enn er til. Hann er 1014x1225 cm stór (þ.e. rúmlega 10x12 m) og vegur rúmlega 1 tonn. Honum er lyft með nokkrum stálvírum og er hann látinn hanga fyrir framan háaltarið til að hylja það meðan fastað er. Dúkurinn sýnir krossfestingu Jesú.

Gluggarnir

breyta

Gluggar kirkjunnar eru frá öllum þeim tímum sem kirkjan var í byggingu. Þeir elstu er frá 1220. Í hákórnum er gluggar sem Maximilian keisari gaf kirkjunni í kringum aldamótin 1500. Á seinni öldum voru nokkrar gamlar rúður fjarlægðar þar sem þær þóttu of dimmar, þ.e. þær hleyptu ekki nógu miklu ljósi inn. Af þeim sökum eru mörg listaverk glötuð. Í heimstyrjöldinni síðari voru allar rúðurnar fjarlægðar og geymdar á öruggari stað, en aðrar ómerkari settar í staðinn. Í loftárásum eyðilögðu höggbylgjur frá sprengingum alla glugga í kirkjunni. Eftir stríð var því hægt að setja upphaflegu rúðurnar inn á ný. Gluggarnir í kirkjunni hafa því mikið sögulegt gildi. Eftir stríð var nokkrum gluggum bætt við.

Heimildir

breyta

Fyrirmynd greinarinnar var „Freiburger Münster“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt janúar 2010.