Ufsagrýla (eða vatnskarl [1]) er stytta sem skagar fram af veggbrúnum bygginga, teygir sig út undan þakskeggi eða brjóstriði turna, og er algengt skreyti í gotneskri byggingarlist. Ekki er óalgengt að ufsagrýlur séu þannig útbúnar að þær hleypi rigningarvatni út um munn sér eða nasir og nefnast þá oftast vatnskarlar. Þær eru ósjaldan aðeins höfuðmyndir, en geta þó einnig verið styttur í heilu lagi. Útlit þeirra er mjög fjölbreytt, en algengt útlit ufsagrýlu er ævintýralegt sambland manns og skrímslis.

Ufsagrýla á Dornoch-dómkirkju í Skotlandi.
Ufsagrýla á dómkirkjunni í Notre dame

Vatnskarlar, ufsagrýlur með vatnsrennu í gegnum sig, voru gerðar í þeim tilgangi að koma rigningarvatni, sem safnast saman á þaki bygginga í hæfilega fjarlægð frá veggjum byggingana svo að það rynni ekki niður múrveggina og ylli skemmdum. Að baki ufsagrýlunum var þá trog svo að regnvatnið kæmist gegnum þær. Oftast leiddu trogin vatnið í gegnum opinn munn styttunnar. Því fleiri vatnskarlar sem voru á byggingunni, því minni líkur voru á varanlegum skemmdum utan á henni vegna rigningar. Á 18. öld hófu arkitektar að setja venjuleg frárennsli á byggingar frekar en ufsagrýlur. Ástæðan fyrir því var sú að fólki fannst margar þeirra óhugnalegar og sumar þeirra voru svo þungar að þær brotnuðu af og ollu tjóni.

Talið er að elstu ufsagrýlurnar frá miðöldum finnist á Dómkirkjunni í Laon í Frakklandi, frá um árunum 1200-1220. Sjá má ufsagrýlur á mörgum kirkjum sem byggðar voru á miðöldum og er útlit þeirra fjölbreytt. Sumar hverjar eru í líki dýra eða manna en sumar í skrímslalíki. Byggingar sem hafa eftirtektarverðar ufsagrýlur utan á sér og standa enn þann dag í dag eru meðal annars Notre Dame í Frakklandi, Friðarturninn í Ottowa, dómkirkjan í Zagreb í Króatíu og ráðhúsið í Ypres í Belgíu.

Egyptar-, Grikkir-, Etrúar og Rómverjar til forna byggðu ufsagrýlur í líki dýra utan á byggingar sínar og notuðu sem vatnsfrárennsli. Ufsagrýlur Forn-Egypta voru fábreyttar og voru oftast í líki ljóns eða ljónshöfuðs. Á 12. öld fór gerð ufsagrýla að breiðast til annara hluta Evrópu. Um þær mundir fjölgaði fólki í Kaþólsku kirkjunni, og þá var mikilvægt að búa til myndir og styttur sem sýndu grunnþætti trúarinnar, þar sem flestir íbúar Evrópu voru ólæsir á þeim tíma.

Tilvísanir breyta

  1. Orðabók háskólans
   Þessi byggingarlistgrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.