Forngrískar bókmenntir
Grískar bókmenntir eiga sér langa sögu. Fyrstu grísku bókmenntirnar voru kviður Hómers, Ilíonskviða og Ódysseifskviða, samdar á síðari hluta 8. aldar f.Kr. en ritaðar niður í Aþenu á 6. öld f.Kr. Síðan á 8. öld f.Kr. eiga grískar bókmenntir sér langa samfellda sögu, jafnt í bundnu máli sem óbundnu. Sennilega er tímabilið fram að hellenískum tíma árið 323 f.Kr. þó frjóasta skeið grískra bókmennta en þá höfðu Grikkir fundið upp flest þau bókmenntaform sem þeir unnu með. Grikkir hófu leikritun og rituðu bæði harmleiki og gamanleiki, þeir rituðu um fortíð sína jafnt sem samtíð og heimspeki og hvers kyns fræði jafnt og skáldaðar sögur. Einungis lítill hluti er varðveittur af því sem Grikkir skrifuðu í fornöld.
Helstu tímabil forngrískra bókmennta
breytaForngrískar bókmenntir eru bókmenntir Forngrikkja frá upphafi til loka fornaldar. Oftast er átt við klassískar bókmenntir en kristnar bókmenntir eru undanskildar.[1]
Snemmgrískar bókmenntir
breytaSnemmgrískar bókmenntir eru bókmenntir snemmgrísks tíma, þ.e. frá 8. öld f.Kr. fram að klassískum tíma um 480 f.Kr. Elstu varðveittu bókmenntir Grikkja eru kviður Hómers, Ilíonskviða og Ódysseifskviða. Talið er að kviður Hómers hafi verið samdar undir lok 8. aldar f.Kr.[2] en þær byggðu á munnlegum kveðskap sem hafði tíðkast lengi.[3] Ekki er vitað hvenær þær voru fyrst ritaðar. Kviður Hómers eru söguljóð (eða epískur kveðskapur) en þær urðu bókmenntalegur bakgrunnur allra grískra bókmennta.
Annað meginskáld þessa tímabils var Hesíódos. Enda þótt kvæði hans, Goðakyn og Verk og dagar, hafi sama bragform og skáldamál og kviður Hómers er viðfangsefni þeirra þó annað; þau eru gjarnan talin eins konar uppfræðuslukvæði. Kvæði Hesíódosar eru talin hafa verið samin undir lok 8. aldar f.Kr. Í fornöld var gjarnan litið svo á að Hómer og Hesíódos hafi verið samtímamenn.
Á snemmgrískum tíma voru einnig samin lýrísk kvæði undir ýmsum bragarháttum. Þetta voru kvæði sem voru gjarnan sungin við undirleik lýru eða annarra hljóðfæra. Lýrískur kveðskapur gegndi margvíslegu félagslegu hlutverki: hann gat til dæmis verið afþreying á samdrykkjum eða vettvangur fjölmiðlunar á opinberum hátíðum, þar sem pólitískri hugmyndafræði var komið á framfæri. Meðal helstu höfunda snemmgrísks lýrísks kveðskapar voru Arkílokkos, Alkajos, Saffó, Alkman, Hippónax, Fókylídes, Mímnermos, Íbykos, Semonídes frá Amorgos, Símonídes frá Keos, Stesikkoros, Týrtajos og Sólon.
Grísk leikritun varð einnig til á snemmgrískum tíma en hún átti eftir að blómstra á klassískum tíma.
Klassískar grískar bókmenntir
breytaÁ klassískum tíma blómstruðu ýmis bókmenntaform, svo sem lýrískur og elegískur kveðskapur, leikritun, bæði harmleikir og skopleikir, hjarðkveðskapur, sagnaritun, mælskulist og heimspeki. Eftir því sem á leið mynduðust ákveðnar venjur, til að mynda er vörðuðu mállýskur í ákveðnum bókmenntagreinum. Þannig myndaðist sú hefð að kórljóð í aþenskum harmleikjum væru á dórísku en ekki attísku.
Mikilvægustu lýrísku skáldin á þessum tíma voru Pindaros og Bakkýlídes en mikilvægustu harmleikjaskáldin voru Æskýlos, Sófókles og Evripídes en mörg önnur skáld sömdu harmleiki, sem voru afar vinsælir í Aþenu, svo sem Agaþon. Varðveittir eru 25 harmleikir í heilu lagi en auk þess eru varðveitt fjölmörg brot úr öðrum harmleikjum.
Venjan er að skipta sögu skopleikja í þrjú tímabil en þau eru gamli skopleikurinn (5. öld f.Kr.), miðskopleikurinn (400 – 323 f.Kr.) og nýi skopleikurinn (323 – 263 f.Kr.)[4] Aristófanes er eina varðveitta skopleikjaskáldið sem samdi skopleiki á tímum gamla skopleiksins svonefnda. Alls eru varðveittir ellefu skopleikir eftir Aristófanes en auk þess eru varðveitt fjölmörg brot úr skopleikjum eftir aðra höfunda, þar á meðal Menandros, sem var talinn bestur þeirra sem sömdu á tíma nýja skopleiksins.
Á þessum tíma rituðu einnig merkustu sagnaritarar Fonrgrikkja. Heródótos frá Halikarnassos er gjarnan nefndur faðir forngrískrar sagnaritunar. Hann ritaði um sögu Persastríðanna á jónísku en er fram liðu stundir áttu flestar bókmenntir í lausu máli eftir að vera ritaðar á attísku, mállýsku Aþeninga. Sagnaritarinn Þúkýdídes frá Aþenu skrifaði samtímasögu um Pelópsskagastríðið. Hann þrengdi nokkuð viðfangsefni sagnaritunar svo að hún varð nánast eingöngu stjórnmál- og styrjaldarsaga.
Auk Heródótosar og Þúkýdídesar má nefna Xenofon en hann ritaði um lok Pelópsskagastríðsins í Grikklandssögu sinni. Tók hann upp þráðinn þar sem frásögn Þúkýdídesar lýkur (um 411 f.Kr.) en Þúkýdídesi entist ekki aldur til að ljúka sögu sinni.
Xenofon ritaði ekki eingöngu um Grikklandssögu heldur samdi hann einnig ýmis rit um heimspeki, svo sem Minningar um Sókrates. Heimspekin varð ein af höfuðgreinum grískra bókmennta í óbundnu máli. Þó höfðu heimspekingar á borð við Parmenídes og Empedókles áður sett fram heimspeki sína í bundnu máli. Merkasti ritsnillingur grískrar heimspeki var Platon en hann var einnig merkasti heimspekingur fornaldar ásamt nemanda sínum Aristótelesi.
Grísk mælskulist blómstraði á klassíska tímanum. Varðveittar eru fjölmargar ræður, bæði ræður sem fluttar voru á pólitískum vettvangi og ræður sem fluttar voru fyrir dómstólum auk sýningaræðna en þær voru einkum ætlaðar til skemmtunar. Helstu varðveittu ræðuhöfundarnir eru Antífon, Andókídes, Lýsías, Ísókrates, Ísajos, Æskínes, Lýkúrgos, Demosþenes, Hýpereides, Deinarkos og Demades.
Hellenískar bókmenntir
breytaHelstu forngrísku skáldin á hellenískum tíma voru Þeókrítos, Kallímakkos og Apolloníos frá Ródos. Þeókrítos var uppi um 310 til 250 f.Kr. Hann var upphafsmaður svonefnds hjarðkveðskapar, sem átti eftir að hafa mikil áhrif á aðrar bókmenntagreinar.
Á þessum tíma var Gamla testamentið þýtt á grísku en þýðingin er oftast nefn sjötíumanna þýðingin.
Merkasti sagnaritari þessa tímabils var Pólýbíos.
Rómverska tímabilið
breytaÁ þessum tíma blómstruðu ýmiss konar fræði, svo sem landafræði, heimspeki, sagnaritun. Merkustu sagnaritararnir voru Tímajos, Díodóros frá Sikiley, Díonýsíos of Halikarnassos, Appíanos og Arríanos. Einnig blómstraði ævisagnaritun; þar má nefna Plútarkos, sem ritaði ævisögur ýmissa stjórnmálamanna og herforingja, og Díogenes Laertíos sem ritaði ævisögur heimspekinga.
Meðal heimspekinga sem rituðu á þessum tíma má nefna Plútarkos, læknana Galenos og Sextos Empeirikos og nýplatonistann Plótínos.
Þá má nefna Lúkíanos sem var mesti stílsnillingur þessa tíma. Segja má að rit hans Sannar sögur hafi verið eins konar undanfari vísindaskáldsagna síðar meir.
Á þessum tíma var Nýja testamentið samið á forngrísku.
Neðanmálsgreinar
breyta- ↑ Sjá Dover (1997).
- ↑ Venjulega er Ilíonskviða talin hafa verið samin um 750-730 f.Kr. og Ódysseifskviða um 730-700 f.Kr.
- ↑ Um það er deilt hvort kviður Hómers hafi yfirleitt verið samdar af einu skáldi.
- ↑ Geir Þ. Þórarinsson. „Getið þið sagt mér frá grískum skopleikjum og skopleikjaskáldum?“. Vísindavefurinn 7.12.2007. http://visindavefur.is/?id=6947. (Skoðað 29.1.2010).
Heimildir
breyta- Dover, Kenneth, o.fl., Ancient Greek Literature, 2. útg. (Oxford: Oxford University Press, 1980/1997).
- Howatson, M.C. (ritstj.), The Oxford Companion to Classical Literature (Oxford: Oxford University Press, l989).
- Lesky, Albin, A History of Greek Literature, 2. útg., Cornelis de Heer og James Willis (þýð.) (Indianapolis: Hackett, 1966/1996).
- Saïd, Suzanne og Trédé, Monique, A Short History of Greek Literature (London: Routledge, 1999).
- Taplin, Oliver (ritstj.), Literature in the Greek World (Oxford: Oxford University Press, 2000).
- Whitmarsh, Tim, Ancient Greek Literature (Cambridge: Polity, 2004).
Tenglar
breyta- „Hver var Hómer og eru til einhverjar traustar heimildir um hann?“. Vísindavefurinn.
- „Um hvað fjalla Hómerskviður?“. Vísindavefurinn.
- „Getið þið sagt mér frá grískum harmleikjum og harmleikjaskáldunum?“. Vísindavefurinn.
- „Getið þið sagt mér frá grískum skopleikjum og skopleikjaskáldum?“. Vísindavefurinn.
- „Hvaða áhrif hafði grísk menning á hina rómversku?“. Vísindavefurinn.