Flóaáveitan er kerfi áveituskurða sem liggja um Flóann allt frá Ölfusá í vestri að Þjórsá í austri. Þessir skurðir voru grafnir á árunum 1918 - 1927. Flóaáveitan var stórt mannvirki á sinni tíð, með henni var vatni úr Hvítá veitt til flæðiengja sem voru 12000 hektarar að stærð. Flóaáveitan var flokkur af áveitu sem kallast uppistöðuseytla. Í uppistöðuseytlum er vatn á stöðugri hreyfingu milli hólfa. Vatnið var um 10-40 sm á dýpt á áveitutímanum. Vatni var hleypt á áveiturnar í maí og látið standa fram í lok júní. Hvert áveituhólf var yfirleitt hvílt þriðja eða fjórða ár. [1]

Áhrif Flóaáveitu á atvinnulíf breyta

Flóaáveitan hafði mikið áhrif á atvinnulíf í Flóanum. Skurðirnir sem voru um 300 km voru að mestu grafnir með handafli og unnu bæði við það bændur á svæðinu og daglaunamenn í sjávarþorpunum Eyrarbakka og Stokkseyri. Mikil vegagerð hófst svo um Flóann upp úr 1928 sem miðaði að því að fært milli bæja þann hluta ársins sem áveituvatnið væri á. Í kjölfar þess að grasspretta jókst á svæðinu þá var ákveðið að stofna mjólkurbú og fékkst ríkisstyrkur fyrir 75 % óafturkræfu framlagi til að kosta mjólkurbúsbyggingu á Selfossi. Var síðan Mjólkurbú Flóamanna stofnsett 5. desember 1929.

Undirbúningur Flóaáveitu breyta

Áður fyrr hafði komið fyrir á vetrum, að flóð kom úr Hvítá og niður Brúnastaðaflatir og fór flóðið yfir alt láglendi Flóans og olli tjóni. Bændur höfðu því tekið sig saman og hlaðið varnargarða á suðurbakka árinnar. En sprettan var betri Flóanum eftir þessi flóð og var það þakkað áburðarefnum sem vatnið flytti með sér.

Um 40 árum áður en ráðist var í áveituna voru möguleikar á slíkri áveitu rannsakaðir að tilhlutan sýslunefnda í Árnessýslu og Rangárvallasýslu. Voru lengi skiptar skoðanir um hvort nota ætti til áveitunnar vatn úr Hvítá eða Þjórsá. Árið 1906 réði Búnaðarfélagið danskan verkfræðing Karl Thalbitzer til að mæla og gera áætlanir um verkið. Hann vann sumurin 1906 og 1910 að mælingum og komst að þeirri niðurstöðu að bezt mundi að taka Hvítá til áveitu á Flóann, en Þjórsá á Skeiðin og að landið í Flóanum sem vatn úr Hvítá gæti náðst yfir væri 169,5 km. Hann áætlaði vatnsmagn en það samsvarar því að áveitusvæðið í Flóanum fyltist með 0,32 m djúpu vatni á 32 sólarhringum og gert var ráð fyrir flóðveitu þannig að veitt væri vatni á svæðið í maí og júní. Árin 1914 og 1915 gerði Jón H. Ísleifsson verkfræðingur mælingar i Flóanum undir yfirumsjón Jóns Þorlákssonar. Þá var gerð ný áætlun um áveituna og var miðað við að tala vatn úr Hvítá á Brúnastaðaflötum og gera þar flóðgátt úr steinsteypu. Landsstjórnin skipaði 16. febrúar 1916 nefnd til þess að rannsaka Flóaáveitumálið og var Jón Þorláksson landsverkfræðingur formaður nefndarinnar. Nefnið skilaði skýrslu um málið.

Áveiturnar á Skeið og í Flóa, heimskreppa og breytt búskapartækni breyta

Flóaáveita var ein af þremur áveitum sem reistar voru. Fyrsta og minnsta áveitan var áveitan á Miklavatnsmýri í Flóa. Hún var gerð á vegum ríkisins. Mælt var fyrir henni árið 1910 en framkvæmdir voru 1912-1913 og voru undir stjórn Jóns Þorlákssonar. Næst kom Skeiðaáveitan. Hún var unnin á árunum 1917-1923. Flóaáveitan sjálf var svo gerð 1922-1928. Flóaáveitan var risastór framkvæmd á sínum tíma, áveitulandið varð yfir 16 þúsund hektarar en í kringum 1920 er talið að öll tún landsins hafi ekki verið nema 22 þúsund hektarar. Gert var ráð fyrir að áveiturnar gæfu af sér 8 þúsund kýrfóður en mjólkurkýr í landinu voru fyrir áveituna um 17 þúsund. Keypt var skurðgrafa 1919 og var hún notuð bæði við Skeiða- og Flóaáveituna. Þegar heimskreppan skall á hrundi verð á búsafurðum bænda og og tekjur þeirra drógust saman og margir lentu í greiðsluerfiðleikum. Stórum hluta af skuldum bænda við ríkið vegna áveituframkvæmda var létt af bændum og samið um að þeir skyldu greiða um það bil þriðjung af skuld vegna áveituframkvæmdanna og skyldi það greiðast á 30 árum og vera vaxtalaust. Þessar afborganir urðu ennþá minni vegna verðbólgu eftirstríðsáranna. Áveiturnar voru aldrei teknar í notkun að fullu. Erfitt var að ná vatni í Miklavatnsmýraráveituna og var hún tengt Flóaáveitunni. Skeiðaáveita var vatnslítil fyrstu árin en var þá lagfærð. Hluti af áveitulandinu nýttist ekki því bændur reistu ekki skurði og garða eins og áætlað var. Fjárfestingarkostnaður vegna áveitnanna lenti nær alfarið á ríkinu en í þær var ráðist miðað við þá áætlun að þær skiluðu arði og ríkinu var ekki ætlað að greiða nema fjórðung af kostnaði. Á þessum tíma var heyja aflað með engjarækt og túnrækt. Eftir fyrri heimsstyrjöldina vex innflutningur á tilbúnum áburði og farið er að slétta tún með stórvirkum jarðvegstæturum (þúfnabönum) og þegar dráttarvélar breiðast út þá eykst túnrækt, í fyrstu aðallega á þurrlendi en þegar skurðgröfur og jarðýtur verða algengar þá er hægt að ræsa fram mýrar og auðvelt að gera áveitulöndin að túnum. Með því verður áveitutæknin úrelt leið til að afla heyja.[2]

Árið 2012 var opnaður vegarslóði að flóðgátt Flóaáveitunnar á Brúnastaðaflötum og var það til að minnast 85 ára afmælis áveitunnar.

Heimildir breyta

Tilvísanir breyta

  1. „Ragnheiður Gló Gylfadóttir, Stærsta framkvæmd Íslandssögunnar: Kortlagning á áveitum frá 20. öld í Flóa og á Skeiðum, Fornleifastofnun Íslands, 2020“ (PDF). Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 23. október 2022. Sótt 23. október 2022.
  2. Helgi Skúli Kjartansson, Áveiturnar miklu á Skeið og Flóa - Dæmi um umdeilanlega fjárfestingu, Skírnir 162. árg.,2. hefti (haust 1988), bls. 330-360.