Fjarðabyggð

Sveitarfélag á Mið-Austurlandi

Fjarðabyggð er sveitarfélag á Mið-Austurlandi. Það varð til 7. júní 1998 við sameiningu Neskaupstaðar, Eskifjarðarkaupstaðar og Reyðarfjarðarhrepps. 8. október 2005 var samþykkt í kosningum að sameina Fjarðabyggð, Mjóafjarðarhrepp, Austurbyggð og Fáskrúðsfjarðarhrepp undir merkjum Fjarðabyggðar og tók sú sameining gildi 9. júní 2006 í kjölfar sveitarstjórnarkosninganna 2006. Í júní 2018 var síðan samþykkt sameining Fjarðabyggðar og Breiðdalshrepps.

Fjarðabyggð
Reyðarfjörður
Reyðarfjörður
Skjaldarmerki Fjarðabyggðar
Staðsetning Fjarðabyggðar
Staðsetning Fjarðabyggðar
Hnit: 65°2′0″N 14°13′0″V / 65.03333°N 14.21667°V / 65.03333; -14.21667
LandÍsland
KjördæmiNorðausturkjördæmi
Þéttbýliskjarnar
Stjórnarfar
 • BæjarstjóriJóna Árný Þórðardóttir
Flatarmál
 • Samtals1.615 km2
 • Sæti21. sæti
Mannfjöldi
 (2023)
 • Samtals5.262
 • Sæti10. sæti
 • Þéttleiki3,26/km2
Póstnúmer
715, 730, 735, 740, 750, 755, 760
Sveitarfélagsnúmer7300
Vefsíðafjardabyggd.is

Bæjarkjarnar sveitarfélagsins eru sjö talsins og jafnan kenndir við firðina eða víkurnar sem þeir standa við. Það er þó ekki einhlítt. Neskaupstaður í Norðfirði er fjölmennasta byggðin, með um 1.500 íbúa, en minnst er Brekkuþorp í Mjóafirði með 15 íbúa. Á Eskifirði eru íbúar um 1.000 talsins og tæplega 1.300 búa á Reyðarfirði. Á Fáskrúðsfirði eru íbúar um 700, um 200 manns búa á Stöðvarfirði og í Breiðdal búa einnig um 200 manns.

Fjarðabyggð byggir á sterkum grunni hvað atvinnu- og verðmætasköpun varðar. Gjöful fiskimið eru undan ströndum Austfjarða og er útgerð og vinnsla sjávarafurða ein af meginstoðum atvinnulífsins ásamt álframleiðslu og tengdum þjónustugreinum. Verslun og þjónusta gegna einnig mikilvægu hlutverki og hefur ferðaþjónusta vaxið hratt á undanförnum árum. Þá jókst mikilvægi landbúnaðar í Fjarðabyggð árið 2018 með sameiningu sveitarfélagsins við landbúnaðarhéraðið Breiðdal.

Saga breyta

Á því svæði sem nú myndar Fjarðabyggð voru níu sveitarfélög árið 1987. Fyrr á öldum voru þau aðeins fimm, en þegar þéttbýli fór að myndast við ströndina, með aukinni útgerð um og uppúr aldamótunum 1900 og sérstaklega með tilkomu vélbáta skömmu síðar, urðu til sérstök sveitarfélög utan um þau flest, nánast landlaus, og líklega að kröfu betri bænda í eldri sveitarfélögunum. Þannig var, sem dæmi Reyðarfjarðarhreppi hinum forna skipt upp í þrjá hreppa, Helgustaðahrepp, Eskifjarðarhrepp og Reyðarfjarðarhrepp árið 1907. Undir loka 20. aldar snérist þessi þróun hins vegar við, þá lögðu menn allt kapp á að sameina sveitarfélög á svæðinu og reyna þannig að efla þau.

Núverandi Fjarðabyggð er til orðin eftir langt sameiningarferli sem hófst árið 1988 þegar Helgustaðahreppur var lagður undir Eskifjarðarkaupstað og lauk í júní 2018.

Fyrir árið 1988 voru eftirtalin sveitarfélög á því svæði sem nú er Fjarðabyggð talið að norðan: Mjóafjarðarhreppur, Norðfjarðarhreppur, Neskaupstaður, Helgustaðahreppur, Eskifjarðarkaupstaður, Reyðarfjarðarhreppur, Fáskrúðsfjarðarhreppur, Búðahreppur, Stöðvarhreppur og Breiðdalshreppur.

Árið 1998 varð fyrsta sameining sveitarfélaga á þessu svæði þegar Eskifjarðarkaupstaður, Neskaupstaður og Reyðarfjarðarhreppur sameinuðust formlega, að undangengnum íbúakosningu. Úr varð að nefna hið nýja sveitarfélag Fjarðabyggð. Fjarðabyggð varð þar með stærsta sveitarfélag á Austurlandi og voru íbúar þess um 3.300 talsins.

Árið 2006 var haldið áfram á braut sameiningar en þá sameinuðust Fjarðabyggð, Austurbyggð, Mjóafjarðarhreppur og Fáskrúðsfjarðarhreppur undir nafni Fjarðabyggðar. Nokkru áður, árið 2003, höfðu Búðahreppur og Stöðvahreppur sameinast í sveitarfélagið Austurbyggð Það var svo að lokum í júní 2018 að Breiðdalshreppur og Fjarðabyggð sameinuðust. Að þeirri sameiningu lokinni eru íbúar Fjarðabyggðar orðnir rúmlega 5000 og sveitarfélagið eitt það víðfeðmasta á landinu.

Efnahagslíf breyta

Sjávarútvegur, fiskvinnsla og stóriðja er aðalatvinnuvegur í Fjarðabyggð og þar eru þrjú af stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins, Síldarvinnslan h/f , Eskja h/f.og Loðnuvinnslan h/f auk álvers Alcoa-Fjarðaáls. Nokkur landbúnaður er í sveitarfélaginu, einkum í Breiðdal, Norðfjarðarsveit og Fáskrúðsfirði. Þá er álver Alcoa - Fjarðaáls staðsett á Reyðarfirði. Hafnarsjóður Fjarðabyggðar er í flokki öflugustu hafnarsjóða á landinu enda kemur óvíða meiri fiskafli á land en í Fjarðabyggð. Á árinu 2005 var landað um 400 þúsund tonnum af fiski í höfnum Fjarðarbyggðar og um 530 þúsund tonn af öðrum vörum fóru um þær. Við tilkomu álvers Alcoa Fjarðaáls jukust umsvif hafnarsjóðs verulega.

Þjónusta breyta

Í Fjarðabyggð er öflug og fjölbreytt þjónusta. Meðal þjónustustofnana má nefna Fjórðungssjúkrahús Austurlands, Verkmenntaskóla Austurlands, útibú Vegagerðar ríkisins, Lögreglustjórann á Austurlandi, Skólaskrifstofu Austurlands, Náttúrustofu Austurlands, Heilbrigðiseftirlit Austurlands og útibú Rannsóknarstofnunar fiskiðnaðarins. Öflugir grunnskólar, tónlistarskólar, leikskólar og æskulýðsmiðstöðvar eru einnig starfræktar í flestum byggðarkjörnunum. Þjónustugjöld skólakerfisins eru með þeim lægstu á landinu.

Samhliða þessu er menningar- og félagslíf í miklum blóma ásamt kröftugu íþrótta- og æskulýðsstarfi. Verslun dafnar vel svo og rekstur hótela, gistihúsa og veitingahúsa. Dagvöru- og lágverðsverslanir, handverksbakari, bankar, lyfjaverslanir og sérverslanir ýmiss konar eru í Fjarðabyggð, svo að nokkur dæmi séu nefnd ásamt fjölda aðila í iðntengdum þjónustugreinum. Nokkur landbúnaður er í sveitarfélaginu, einkum í Breiðdal, Norðfjarðarsveit og Fáskrúðsfirði.

Náttúra breyta

Í Fjarðabyggð eru tveir friðlýstir fólkvangar. Fólkvangurinn í Neskaupstað, við rætur Nípunnar, var fyrsti friðlýsti fólkvangur landsins og tók friðlýsingin gildi árið 1972. Hólmanes, milli Eskifjarðar og Reyðarfjarðar, er friðlýst sem fólkvangur og að hluta sem friðland. Í fólkvöngunum er mikil náttúrufegurð sem og í sveitarfélaginu öllu og Gerpissvæðið milli Norðfjarðar og Reyðarfjarðar er að verða eitt af vinsælustu gönguleiðarsvæðum landsins og hafa félagar í Ferðafélagi Fjarðamanna stikað þar fjölmargar gönguleiðir, eins og víða annars staðar í sveitarfélaginu, og gert það þannig aðgengilegt ferðamönnum.

Í nágrenni bæjarins Helgustaða við norðanverðan Reyðarfjörð eru einhverjar kunnustu silfurbergsnámur í heimi. Þar var silfurberg grafið úr jörðu frá því á 17. öld og fram á fyrri hluta 20. aldar. Helgustaðanáman er nú friðlýst sem náttúruvætti og eru nú uppi áætlanir af hálfu sveitarfélagsins og Náttúrustofu Austurlands um að opna hana að nýju svo hægt sé að njóta þessa sérstæða náttúrufyrirbæris.

Ein af perlum Fjarðabyggðar er skíðasvæðið á Oddsskarði en þar eru tvær lyftur hvor upp af annarri samtals um 1200 m. langar. Neðri lyftan hefst í 513 metra hæð og þegar komið er upp á topp, í 840 metra hæð yfir sjávarmáli, blasir við ægifagurt útsýni yfir Reyðarfjörð og norður í Norðfjörð. Einnig er á svæðinu barnalyfta og glæsilegur skíðaskáli með veitingaaðstöðu.

Aðra perlu má svo finna rétt innan við þorpið í Breiðdal. Þar er Meleyri, 3 km löng strönd, þar sem hægt er að njóta nálægðar við hafið og náttúruna.

Tenglar breyta