Ferdinand Lassalle (f. 11. apríl 1825 - d. 31. ágúst 1864) var prússneskur og þýskur sósíalisti sem var helst þekktur fyrir að vera aktivísti í þýskum stjórnmálum og fyrir kenningu sína um járnlög launa. Hann var lærður heimspekingur en var einnig fróður í öðrum greinum líkt og lögfræði, hagfræði og stjórnmálum. Eftir dauða Lassalle hefur honum minnst sem fyrsta manninum í Evrópu sem tókst að mynda stjórnmálaflokk byggðan á sósíalískum gildum.

Ferdinand Lassalle
Lassalle árið 1860.
Fæddur11. apríl 1825
Dáinn31. ágúst 1864 (39 ára)
ÞjóðerniÞýskur
MenntunHumboldt-háskólinn í Berlín
FlokkurAlmenna þýska verkamannafélagið
Undirskrift

Æviágrip breyta

Lassalle fæddist árið 1825 í Breslau, Slesíu (sem er í dag Wroclaw í Póllandi) og var hann af gyðingaættum. Lassalle breytti þó nafni sínu til að slíta sig frá gyðingatrúnni. Faðir hans var kaupmaður sem seldi silki og var það hans vilji að Lassalle fetaði í fótspor sín sem kaupmaður. Lassalle gekk í verslunarskóla í Leipzig en skipti svo yfir í Háskólann í Breslau og svo seinna meir yfir í Háskólann í Berlín. Þar útskrifaðist hann úr heimspeki árið 1845. [1]

Árið 1848 brast á þýska byltingin og fór Lassalle að hvetja íbúa Düsseldorf til átaka gegn ríkisvaldinu. Lassalle var þá handtekinn og afplánaði sex mánaða dóm í fangelsi ásamt því að vera bannaður frá Berlín. Hann fluttist til Rínarlanda þar sem hann kláraði að skrifa bók sína um heimspekinginn Herakleitos. [2]

Hann fékk leyfi til þess að flytja aftur til Berlínar og flutti þangað alfarið árið 1859 eftir að hafa búið í París um nokkurn tíma og hóf störf sem pólitískur fréttaritari.[2] Á þeim tíma kynntist hann Karl Marx og skiptust þeir oft á bréfum en vinasamband þeirrra dvínaði með tímanum. Lassalle var með aðra sýn en Marx á byltingunni gegn kapítalisma. Hann taldi að byltingar tímabilinu væri lokið og að nú væri eina vonin um árangur með laga- og þróunarlegum aðferðum.[1] Lassalle aðhylltist hugmyndinni um konunglegt velferðarríki. Hann vildi kosningarétt fyrir allar stéttir samfélagsins frekar en kosningaréttinn sem ríkti áður sem að var efri stéttinni í hag. Þannig vonaðist hann til, með því að koma verkalýðnum inn í stjórnmál og félagslíf, að samfélagið myndi fara úr borgararíki byggðu á einkaeign yfir í lýðræðislegt stjórnlagaríki.[3]

Árið 1864 lést Lassalle eftir skotsár sem hann hlaut í einvígi við prinsinn Iancu Racovita eftir að Lassalle skoraði hann á hólm vegna Helene von Dönniges, eftir að faðir hennar trúlofaði hana prinsinum vegna þess að hann tók Lassalle ekki í sátt. [3]

Almenna þýska verkamannafélagið breyta

Þann 23. maí árið 1863 stofnaði Lassalle, ásamt 12 fulltrúum verkamanna úr stærstu borgum og bæjum Þýskalands, Almenna þýska verkamannafélagið í Leipzig. Samtökin voru í raun pólitískur flokkur byggður á sósíalískum grunnhugmyndum og er titlaður sem fyrsti pólitískt-skipulagði verkamannaflokkur Evrópu.[4]

Stofnun flokksins kom til vegna þess að áðurnefndir fulltrúar skrifuðu opið bréf eftir að hafa kynnst sósíalískri hugmyndafræði í ferð sinni til London. Í bréfinu rituðu þeir um stöðu pólitíska og efnahagslega stöðu verkamannastéttarinnar. Lassalle var sérstaklega ánægður að sjá aðila predika hugmyndir sem teygðu sig lengra inn í sósíalisman en þær sem hann hafði talað fyrir almenningi. Lassalle var gerður að forseta flokksins við stofnun hans og sat í forseta stólnum þar til hann lést árið 1864.[5]

Flokkurinn hafði tvær megin áherslur. Almennur kosningaréttur annars vegar og ríkisstyrkt framleiðslu-samvinnufélög hins vegar. Flokkurinn talaði einnig fyrir því að hinn almenni verkamaður hefur engra hagsmuna að gæta með hinum frjálslynda þýska framfaraflokki sem leiddi til óvænts bandalags á milli Lassalle og Ottos von Bismarck. Bismarck sá hag af því að hafa verkafólkið á bakvið sig í baráttunni við frjálshyggjumenn.[6]

Árdagar verkamannaflokksins lituðust af átökum innan flokksins. Aðilar flokksins skiptust í tvær fylkingar, endurskoðunarsinna og rétttrúnaðar-marxista. Deilurnar spegluðust í deilumálum Lassalle og Marx. Endurskoðunarsinnar voru á þeirri skoðun að samfélags- og efnahagslegu réttlæti yrði aðeins framfylgt með laga- og þróunarlegum aðferðum. Marxistarnir töldu að kosningar og stofnanir geta ekki einar og sér knésett kapitalismann heldur þurfi valdabyltingu til.[4]

Pólitískar ádeilur Lassalle og Marx héldu áfram eftir dauða Lassalle. Árið 1875 þegar verkamannaflokkurinn og SDAP voru að sameinast var rituð Gotha-stefnuskráin. Í henni mátti sjá hvernig Lassalle hafði haft áhrif á þýska sósíalista og var mikil áhersla lögð á almennan kosningarétt ásamt hinum ýmsu lögum er varða rétt verkamanna. Marx tengdist SDAP og Gotha-stefnuskráin hafði verið send honum til athugasemdar. Í staðinn fyrir endurgjöf skrifaði hann sýna eigin grein, Athugasemdir við Gotha-stefnuskrána, þar sem hann gagnrýndi áhrif Lassalle á hana og lýsti þeim sem neikvæðum. Stefnuskráin var þó að lokum samþykkt og flokkarnir tveir mynduðu saman hinn nýja SPD-flokk.[7]

Járnlög launa breyta

Lassalle sem kom fram með kenninguna um járnlög launanna um miðja nítjándu öld. Samkvæmt Lassalle þá geta laun ekki farið niður fyrir framfærsluviðmið vegna þess að án framfærslu þá getur verkalýðurinn ekki séð fyrir sér og fjölskyldu sinni, sem gerir það að verkum að hann getur ekki unnið né fjölgað sér. Samkeppni verkalýðsins um störf mun gera það að verkum að laun enda í þessu lágmarksstigi launa. [3]

Kenningin er þó í raun ekki ný af nálinni á þessum tíma heldur má rekja hana til mannfjöldakenningu Malthusar og lögmál Ricardo um rentu, en samkvæmt mannfjöldakenningu Malthus eykst mannfjöldi þegar laun eru yfir framfærsluviðmiðinu og minnkar þegar laun eru undir framfærsluviðmiðinu. Kenningin segir þá að í langtímajafnvægi kerfisins muni framboð vinnuafls rísa eða falla út frá því hversu marga starfsmann þarf til starfa á launum jöfnum framfærsluviðmiðinu. David Ricardo gagnrýndi þó mannfjöldakenningu Malthus, Ricardo sagði að hún myndi ekki rætast svo framarlega sem ný fjárfesting, tækniframfarir eða einhver annar þáttur myndi valda því að eftirspurn eftir vinnuafli eykst hraðar en íbúafjöldi, sem myndi leiða til hækkunar á bæði raunlaunum og íbúum. [8]

Ricardo gerði greinarmun á náttúrulegu verði laun og markaðsverði launa. Fyrir Ricardo var náttúrulegt verð vinnuafls kostnaður við að viðhalda verkamanninum. Hins vegar taldi Ricardo að markaðsverð launa gæti farið yfir náttúrulegt launastig varanlega vegna efnahagslegra tilhneiginga. Þrátt fyrir það að laun leiti yfirleitt í náttúrulegt stig, geta launin verið yfir því stigi ef aukning fjármagns er stöðugt yfir tíma og það hvetur til áframhaldandi mannfjölgunar. Ricardo hélt því einnig fram að náttúruleg laun væru ekki endilega einungis til að halda verkamanninum á lífi heldur fer það eftir venjum og siðum að hverju sinni. Náttúruleg laun eru ekki föst og stöðug, heldur breytast þau á milli tíma og landa og fara eftir því hvað telst til eðlilegrar lífsgæða.[8]

Lassalle bætti við svo kenninguna að einstaklingar geta ekki bætt kjör sín að sjálfsdáðun og að einungis með stofnun samvinnufélags með aðstoð ríkisvaldsins geta verkamenn bætt kjör sín. Vegna þess, var í fyrirrúmi að verkamenn myndu berjast fyrir völdum innan ríkisins til að gera haft raunveruleg áhrif og að stofnun verkalýðsfélaga væri einungis truflun frá hinu raunverulega markmiði.[3]

Tilvísanir breyta

  1. 1,0 1,1 „Ferdinand Lassalle | German political leader | Britannica“. www.britannica.com (enska). Sótt 8. október 2022.
  2. 2,0 2,1 William Harbutt Dawson (1888). German Socialism and Ferdinand Lassalle: A Biographical History of German Socialistic Movements ... (enska). Harvard University. S. Sonnenschein & co ., lim.: New York, C . Scribner's sons.
  3. 3,0 3,1 3,2 3,3 Huff, Lewis J. (1887). „Ferdinand Lassalle“. Political Science Quarterly. 2 (3): 414–439. doi:10.2307/2139183. ISSN 0032-3195.
  4. 4,0 4,1 „General German Workers' Association | political party, Germany | Britannica“. www.britannica.com (enska). Sótt 30. október 2022.
  5. „General German Workers' Association“, Wikipedia (enska), 22. febrúar 2022, sótt 30. október 2022
  6. „Ferdinand Lassalle“. www.hetwebsite.net. Sótt 30. október 2022.
  7. „Critique of the Gotha Programme“, Wikipedia (enska), 10. maí 2022, sótt 30. október 2022
  8. 8,0 8,1 „The Project Gutenberg eBook of Letters of Ricardo to Malthus, by James Bonar“. www.gutenberg.org. Sótt 30. október 2022.