Ferdinand Buisson (20. desember 1841 – 16. febrúar 1932) var franskur heimspekingur, kennslufræðingur og stjórnmálamaður. Hann var einn af stofnendum franska Mannréttindabandalagsins og sat sem forseti þess frá 1914 til 1926. Frá 1902 til 1906 var hann jafnframt forseti franska Menntunarbandalagsins. Árið 1927 hlaut hann friðarverðlaun Nóbels ásamt Þjóðverjanum Ludwig Quidde. Buisson var skipuleggjandi grunnmenntunar í Frakklandi frá 1879 til 1896. Árið 1905 var hann jafnframt formaður nefndar sem falið var að semja lög um aðskilnað ríkis og kirkju. Buisson fann upp hugtakið laïcité sem hefur jafnan verið notað um veraldarhyggju í Frakklandi.

Ferdinand Buisson
Fæddur20. desember 1841
Dáinn16. febrúar 1932 (90 ára)
ÞjóðerniFranskur
MenntunFaculté des lettres de Paris
StörfStjórnmálamaður, heimspekingur, kennari
FlokkurLýðveldissósíalistaflokkurinn
TrúKalvínismi
Verðlaun Friðarverðlaun Nóbels (1927)

Æviágrip

breyta

Æska og uppvöxtur

breyta

Ferdinand Buisson fæddist þann 20. desember árið 1841 og var kominn úr mótmælendafjölskyldu. Faðir hans var búrgúndi að nafni Pierre Buisson sem vann sem héraðsdómari og síðar rannsóknardómari. Fimmtíu og tveggja ára hafði Pierre kvænst hinni 29 ára gömlu Adèle Aurélie de Ribeaucourt, dóttur vefara frá Picardie.[1]

Ferdinand Buisson gekk í Condorcet-gagnfræðiskólann í París. Hann var felldur í almennu framhaldsnámi, mögulega vegna stjórnmálaskoðana sinna, og bjó sig undir nám í heimspeki samhliða því sem hann vann sem kennari.[2] Hann lenti í öðru sæti í heimspekikeppni árið 1868.[3]

Stjórnmálaferill

breyta

Buisson var fylgjandi frjálslyndum túlkunum á mótmælendatrú. Hann fór í sjálfskipaða útlegð frá Frakklandi á árum síðara franska keisaraveldisins frá 1866 til 1870 þar sem hann neitaði að sverja nýju stjórninni hollustueið. Buisson gerðist prófessor við Háskólann í Neuchâtel.[4] Árið 1867 sótti Buisson þrjú heimsþing Friðar- og frelsisbandalagsins (fr. Ligue de la paix et de la liberté), friðarsamtaka sem reyndu að koma í veg fyrir stríð milli Frakklands og Prússlands. Buisson flutti ræðu á síðasta þingi samtakanna í Lausanne árið 1869.[5] Á sama tíma reyndi hann að stofna til frjálslyndrar mótmælendakirkju í Frakklandi og fékk til liðs við sig prestana Jules Steeg og Félix Pécaut.

Buisson sneri heim til Frakklands eftir stofnun þriðja franska lýðveldisins og hóf virka þátttöku í stjórnmála- og samfélagslífi 17. hverfisins í París. Í desember árið 1870 varð Buisson stjórnandi munaðarleysingjahælis í 17. hverfinu. Hælið var hið fyrsta sem rekið var á veraldlegan máta og varð síðar þekkt sem munaðarleysingjahæli Signu.[5] Buisson varð umsjónarmaður í grunnmenntamálum frá 1872 til 1886.[6]

Buisson afþakkaði kennarastöðu í heimspeki þar sem hann vildi geta starfað í þágu fátækra barna. Vegna tengsla sinna við menntamálaráðherrann Jules Simon var Buisson útnefndur í stjórn menntastofnana Parísar. Simon var hins vegar þvingaður til að afturkalla útnefningu Buissons vegna harðra mótmæla kaþólska flokksins og íhaldssamra mótmælenda. Buisson var falið að safna saman í eitt ritverk upplýsingum um menntunaraðferðir víðs vegar úr heimi. Vegna áhyggja af afdrifum barnanna úr munaðarleysingjahælinu hafði Buisson samband við mannvininn Joseph Gabriel Prévost og lét flytja börnin á munaðarleysingjahæli sem hann hafði stofnað í Cempuis. Árið 1880 útnefndi Buisson Paul Robin umsjónarmann yfir hælinu.[5]

Frá 1879 til 1896 fól Jules Ferry, eftirmaður Jules Simons, Buisson umsjón yfir grunnskólamenntun. Árið 1890 varð Buisson prófessor í kennslufræði við Sorbonne-háskóla. Réttritun var á þessum tíma helsta áhersluefnið í frönsku kennsluskránni en Ferry og Buisson, sem unnu saman að því að endurbæta menntakerfið frá árinu 1880, reyndu að draga úr áherslunni á réttritun og leggja hennar í stað áherslu á líflegri og gagnvirkari frönskukennslu. Buisson reyndi að koma á umbótum í franskri réttritunarkennslu en var fyrir vikið sakaður um að draga réttritun niður á lægra stig.[7]

Árið 1898 tók Buisson beina afstöðu með Alfred Dreyfus í Dreyfus-málinu. Hann tók síðan þátt í stofnun franska Mannréttindabandalagsins og var forseti þess frá 1914 til 1926. Buisson var jafnframt meðlimur í frönsku Frímúrarareglunni.[8][9]

Buisson sat á franska þinginu fyrir Signukjördæmi frá 1902 til 1914 og var ötull talsmaður skyldubundinnar verkmenntunar og kosningaréttar kvenna. Buisson var formaður franska Menntunarbandalagsins frá 1902 til 1906 og hafði umsjón með samningu laga um veraldarhyggju. Árið 1905 varð hann forseti þingnefndar sem samdi lög um aðskilnað ríkis og kirkju í Frakklandi.

Þegar fyrri heimsstyrjöldin braust út árið 1914 tók Buisson þátt í „heilaga bandalaginu“ (fr. Union sacrée), sem var samningur sem franskir vinstrimenn gerðu um að styðja ríkisstjórnina og kalla ekki til verkfalla á meðan á stríðinu stæði.[6] Buisson sat aftur á þingi árin 1919 til 1924 og vann að því að koma á sáttum milli Frakka og Þjóðverja, sér í lagi eftir hernám Ruhr-héraðsins árið 1923. Frá upphafi var Buisson stuðningsmaður Þjóðabandalagsins og hélt fundi ásamt þýskum friðarsinnum í París og Berlín.[9] Buisson hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 1927 ásamt þýska prófessornum Ludwig Quidde fyrir sáttatilraunir þeirra milli þjóða sinna. Buisson tileinkaði verðlaunin starfsfólki franskra almenningsskóla.

Kennslufræðiorðabók Buissons

breyta

Ferdinand Buisson var aðalhöfundur kennslufræðiorðabókarinnar Dictionnaire de pédagogie et d'instruction primaire, en með honum unnu að henni rúmlega 350 samstarfsmenn, einna helst James Guillaume sem var aðalritstjóri hennar. Fyrsta útgáfa bókarinnar kom út hjá bókafélaginu Hachette frá 1882 til 1887. Bókin var endurútgefin árið 1911.[10] Buisson samdi nokkrar greinar í bókinni, meðal annars um veraldarhyggju, innsæi og bænar. Orðabókin var talin „biblía“ veraldar- og lýðveldissinnaðra skóla í Frakklandi og sumir töldu hana í reynd hafa sett á fót veraldleg trúarbrögð til að koma í stað kristninnar. Buisson hélt því fram að hann hefði einfaldlega haldið eftir siðgæðisboðskapi kristninnar.

Tilvísanir

breyta
  1. Isabelle Havelange; Françoise Huguet; Bernadette Lebedeff (1986). Les inspecteurs généraux de l'Instruction publique. ENS Éditions. bls. 204.
  2. Jean-Marie Mayeur; Patrick Cabanel; André Encrevé (2015). „Buisson, Ferdinand Édouard“. Dictionnaire biographique des protestants français de 1787 à nos jours, tome 1 : A-C (franska). Paris: Éditions de Paris Max Chaleil. bls. 510-511. Dictionnaire biographique des protestants français de 1787 à nos jours.
  3. André Chervel (mars 2015). „Les agrégés de l'enseignement secondaire. Répertoire 1809-1960“. Sótt 14. apríl 2020.
  4. Anne Cendre (2011). Promenades protestantes à Paris. Labor et Fides. bls. 257.
  5. 5,0 5,1 5,2 Martine Brunet, « L'unité d'une vie », in Ferdinand Buisson, souvenirs et autres écrits, Théolib, 2011, bls. 119-170.
  6. 6,0 6,1 Philippe Aubert (1. janúar 2017). „Le père de l'école laïque“. Évangile et Liberté (franska). Sótt 14. janúar 2019.
  7. André Chervel, L'Orthographe en crise à l'école, Retz, 2008, bls. 49 et suivantes.
  8. Michel Gaudart de Soulages; Hubert Lamant (1995). Dictionnaire des francs-maçons français (franska).
  9. 9,0 9,1 Christian Bernard (23. október 2010). „Pertinence et actualité de l'œuvre de Ferdinand Buisson“. institut-jacquescartier.fr (français). Afrit af upprunalegu geymt þann 8. ágúst 2020. Sótt 14. apríl 2020.
  10. Cette version contient un article favorable aux syndicats d'instituteurs, quatre ans après la révocation de Marius Nègre par Clemenceau, et alors même que le Syndicat national des instituteurs ne sera constitué qu'en 1920 et reconnu de facto par le gouvernement qu’en 1924. La rédaction de cet article a été confiée à Émile Glay, alors secrétaire adjoint de la Fédération nationale des amicales d'instituteurs et futur secrétaire général adjoint du Syndicat national des instituteurs, présenté comme « disciple » de Ferdinand Buisson.