Urrari (Fræðiheiti :Eutrigla gurnardus) er grunn- og botnfiskur úr ættkvísl fiska af urraraætt og er eina þekkta tegundin af ættkvíslinni Eutrigla. Hann þrífst á sand, -leir og grýttum botni og aðallega á 20 - 165 metra dýpi en getur farið dýpra eða allt niður á 300 metra dýpi. Á miðunum við Ísland hefur hann mælst lengstur 48 cm en hann á að geta náð 60 cm stærð. Urrarar geta orðið allt að 6 - 7 ára.[1]

Urrari

Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríki (Animalia)
Fylking: Seildýr (Chordata)
Flokkur: Geisluggar (Actinopterygii)
Ættbálkur: Brynvangar (Scorpaeniformes)
Ætt: Urraraætt (Triglidae)
Ættkvísl: Eutrigla
Fraser-Brunner, 1938
Tegund:
E. gurnardus

Tvínefni
Eutrigla gurnardus
(Linnaeus, 1758)

Nafngift breyta

Urrari hefur einnig verið kallaður knurri og kurrari. Nafn sitt fær urrarinn af hinu urrandi hljóði sem hann getur gefið frá sér með aðstoð sundmagans. Hljóðið framkvæmir hann til þess að hjálpa við að ná sér í æti. Smærri fiskarnir geta framkvæmt meira hljóð en þeir sem stærri eru.[2]

Líkamsbygging breyta

Urrari er sívalur á bol, hæstur á mótum hauss og bols og fer smámjókkandi þaðan og aftur eftir. Haus er í meðallagi stór, hár og hallar frá enni niður á snjáldur. Kjaftur er af meðalstærð, nær aftur á móts við augu. Efri skoltur teygist fram fyrir þann neðri. Tennur eru smáar á skoltum og plógbeini. Augu hans eru stór. Haus er vel brynvarinn en á vangabeini eru tveir broddar eða gaddarog einn stór á tálknaloksbeini. Rákarbeinin ná yfir alla kinn og fram á snjáldur og mynda með ytri beinum haussins brynju um hausinn. Bolur er stuttur, stirtla lengri og all sterkleg. Bakuggar eru tveir og vel aðskildir og er sá fremri styttri og hærri. Raufaruggi er næstum jafnstór aftari bakugga, andspænis honum og ein í lögun. Sporður er stór og grunnsýldur. Eyruggar eru stórir og þrír neðstu geislarnir geisli eru sundurlausir. Kviðuggar eru langir og mjóir og lengri á hængum en hrygnum. Á bol og stirtlu er smágert hreistur en á baki er röð broddóttra beinkartna. Rák er greinileg sett beinörðum. Ytri kynjamunur er m.a. fólginn í því að meira bil er á milli augna á hængum en hrygnum.[3]

Heimkynni breyta

Heimkynni urrara eru í Miðjarðarhafi, Svartahafi og norðaustanverðu Atlantshafi, frá Marokkó og Madeira norður um Biskajaflóa til Bretlandseyja og í Norðursjó, Skagerak og Kattegat, við Noreg, Færeyjar og Ísland.[4]

Lífshættir breyta

Hann getur ferðast um hafsbotninn á eyruggunum en syndir einnig rösklega upp um sjó. Urrari nærist á alls konar krabbadýrum, eins og rækju, humar og kuðungakrabba, auk burstaormum, slöngustjörnum og fleiri skrápdýrum einnig eru smáfiskar, ýmis konar síli og flatfiskar ofarlega á hans matseðli .[5]

Veiðar breyta

Við Ísland veiðist urrari aðallega í hlýja sjónum á grunnunum skammt undan suðaustur- og suðurströndinni allt frá Hvalbaksgrunni og vestur fyrir Reykjanes og inn í Faxaflóa þar sem honum virðist hafa fjölgað á síðustu árum. Hans hefur einnig orðið vart í Kolluál þar sem einn veiddist á 262 metra dýpi í ágúst árið 1995. Flækingsfiskar hafa stöku sinnum veiðst norðan aðal útbreiðslusvæðisins við Ísland, til dæmis við Flatey á Breiðafirði, í mynni Arnarfjarðar, í Ísafjarðardjúpi, á Skjálfanda, í Öxarfirði, Finnafirði og Norðfjarðarflóa. Árið 1998 fengust 6 fiskar að stærðinni 31-39 cm á 220 m dýpi við Reykjaneshrygg.[6]

Æxlun breyta

Hrygning fer fram á 25 - 50 metra dýpi í mars til apríl og maí á Íslandsmiðum. Hængar með miklum sviljum hafa veiðst í miðjum mars og hrygnur með lausum hrognum í lok apríl. Sunnar í álfunni hrygnir hann í apríl til ágúst og þar verða hængar kynþroska um 18 cm langir og þriggja ára en hrygnur um 24 cm og fjögurra ára. Egg eru sviflæg, 200 - 300 þúsund, 3 - 4 mm í þvermál. Seiðin eru einnig sviflæg þar til þau leita til botns um 3 cm löng. Svifseiði hafa fundist hér við suðurströndina í júlí en botnseiði hafa ekki fundist ennþá.

Nytjar breyta

Nytsemi er engin hér á landi enda veiðist lítið af honum á Íslandsmiðum þótt nokkur slæðingur komi sem meðafli í humarvörpur. Þar sem hann veiðist meira eins og við Bretlandseyjar er hann stundum nýttur og þykir ekki slæmur matfiskur. Hér við land veiðist hann mest í humar og botnvörpu, dragnót eða rækjuvörpu. Á árum áður þegar Belgar stunduðu veiðar við Íslandsstrendur lönduðu þeir stundum urraraafla en mesti skráði aflinn þá var árið 1957 og nam aflinn þá 35 tonn.[7]

Tilvísanir breyta

 
Wikiorðabókin er með skilgreiningu á orðinu
 
Wikilífverur eru með efni sem tengist
  1. Gunnar Jónsson, Jónbjörn Pálsson (2006) Íslenskir Fiskar: bls 226-227 Reykjavík: Vaka Helgafell
  2. Amorim, M. C. P.; Hawkins, A. D. (2005). "Ontogeny of acoustic and feeding behaviour in the grey gurnard, Eutrigla gurnardus". Ethology 111 (3): 255–269
  3. Gunnar Jónsson, Jónbjörn Pálsson (2006) Íslenskir Fiskar: bls 226-227 Reykjavík: Vaka Helgafell
  4. „Distribution“ (PDF). Sótt 25.10.2014 2014.
  5. Gunnar Jónsson, Jónbjörn Pálsson (2006) Íslenskir Fiskar: bls 226-227 Reykjavík: Vaka Helgafell
  6. Gunnar Jónsson, Jónbjörn Pálsson (2006) Íslenskir Fiskar: bls 226-227 Reykjavík: Vaka Helgafell
  7. Gunnar Jónsson, Jónbjörn Pálsson (2006) Íslenskir Fiskar: bls 226-227 Reykjavík: Vaka Helgafell

Heimildir breyta