Eisaku Satō
Eisaku Satō (佐藤 榮作 Satō Eisaku, 27. mars 1901 – 3. júní 1975) var japanskur stjórnmálamaður sem var forsætisráðherra Japans frá 1964 til 1972. Satō sat þriðja lengst allra japanskra forsætisráðherra og átti næstlengstu samfelldu forsætisráðherratíð í sögu Japans.
Eisaku Satō | |
---|---|
佐藤 榮作 | |
Forsætisráðherra Japans | |
Í embætti 9. nóvember 1964 – 7. júlí 1972 | |
Þjóðhöfðingi | Hirohito |
Forveri | Hayato Ikeda |
Eftirmaður | Kakuei Tanaka |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 27. mars 1901 Tabuse, Yamaguchi Japan |
Látinn | 3. júní 1975 (74 ára) Tókýó, Japan |
Stjórnmálaflokkur | Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn |
Maki | Hiroko Satō (g. 1926) |
Börn | 2 |
Háskóli | Keisaralegi háskólinn í Tókýó |
Starf | Stjórnmálamaður |
Verðlaun | Friðarverðlaun Nóbels (1974) |
Undirskrift |
Satō gekk á japanska þingið árið 1949 sem meðlimur Frjálslynda flokksins. Hann reis smám saman til metorða í japönskum stjórnmálum, gengdi ýmsum ríkisstjórnarstöðum og hafði umsjón með skipulagningu sumarólympíuleikanna 1964 í Tókýó. Árið 1964 tók hann við af Hayato Ikeda sem forsætisráðherra Japans og varð fyrsti forsætisráðherra landsins sem fæddist á 20. öldinni.
Á forsætisráðherratíð Satō var mikill hagvöxtur í Japan. Á stjórnartíð hans tóku Japanir formlega við stjórn fylkisins Okinawa frá Bandaríkjamönnum, sem höfðu haldið uppi hernámi þar frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar. Satō samþykkti aðild Japans að samningnum um að dreifa ekki kjarnavopnum og hlaut fyrir það friðarverðlaun Nóbels árið 1974.
Æviágrip
breytaSatō fæddist í Tabuse í fylkinu Yamaguchi þann 27. mars árið 1901 og nam þýska lögfræði við Keisaralega háskólann í Tókýó. Árið 1923 tók hann embættismannapróf og hóf störf í japönsku stjórnsýslunni sem embættismaður í járnbrautaráðuneytinu. Hann var framkvæmdastjóri járnbrautastofu Osaka frá 1944 til 1946 og vararáðherra samgöngumála frá 1947 til 1948.[1]
Satō gekk á japanska þingið árið 1949 sem meðlimur Frjálslynda flokksins. Hann var póstmála- og fjarskiptaráðherra frá 1951 til 1952 og síðan byggingarmálaráðherra frá 1952 til 1953 og aðalráðuneytisstjóri í stjórn Shigeru Yoshida forsætisráðherra frá 1953 til 1954.
Eftir að Frjálslyndi flokkurinn sameinaðist Lýðræðisflokknum í Frjálslynda lýðræðisflokkinn árið 1955 varð Satō formaður framkvæmdaráðs nýja flokksins frá desember 1957 til júní 1958. Hann varð fjármálaráðherra í ríkisstjórnum Nobusuke Kishi (bróður síns) og Hayato Ikeda.
Frá júlí 1961 til júlí 1962 var Satō ráðherra milliríkjaverslunar- og iðnaðarmála. Frá 1963 til 1964 var hann í senn stjórnandi þróunarstofnunar og vísinda- og tæknistofnunar á Hokkaidō. Honum var jafnframt falið að skipuleggja sumarólympíuleikanna 1964 í Tókýó.
Forsætisráðherra
breytaSatō tók við af Ikeda eftir að hinn síðarnefndi sagði af sér af heilsufarsástæðum. Ríkisstjórn Satō varð langlífari en algengt var í Japan og á seinni hluta sjöunda áratugarins var Satō talinn nær einráður innan japönsku ríkisstjórnarinnar. Hann var vinsæll forsætisráðherra vegna hagvaxtarins sem Japan naut á þessum tíma en utanríkisstefna hans, sem fól í sér milligöngu á milli hagsmuna Bandaríkjanna og Kína, var þó umdeild. Öfgavæðing meðal japanskra stúdenta leiddi til þess að fjölmörg mótmæli voru haldin gegn Satō, öryggissáttmála stjórnar Japans við Bandaríkin og þögulan stuðning stjórnar hans við hernaðaraðgerðir Bandaríkjanna í Víetnam. Mótmælin leiddu til meiriháttar uppþota sem urðu árið 1969 til þess að Satō lét loka Háskólanum í Tókýó í ár.[2]
Eftir þrjú kjörtímabil sem forsætisráðherra ákvað Satō að bjóða sig ekki fram á ný. Áætlaður eftirmaður hans, Takeo Fukuda, vann stuðning fylgismanna Satō í næstu þingkosningum, en hinn vinsæli verslunar- og iðnaðarráðherra, Kakuei Tanaka, var hins vegar kjörinn forsætisráðherra.
Samskipti við Kína og Taívan
breytaSatō er síðasti forsætisráðherra Japans sem hefur heimsótt Taívan á embættistíð sinni. Árið 1965 féllst Satō á að veita Taívönum lán upp á 150 milljónir Bandaríkjadala. Árið 1969 lýsti Satō því yfir að varnir Taívans væru nauðsynlegur liður í öryggi Japans. Satō fylgdi Bandaríkjunum í flestum málum en var þó mjög mótfallinn heimsókn Nixons Bandaríkjaforseta til Kína árið 1972.[3] Satō var einnig afar andsnúinn inngöngu Alþýðulýðveldisins Kína í Sameinuðu þjóðirnar árið 1971.
Kjarnorkumál
breytaÞann 11. desember árið 1967 kynnti Satō til sögunnar þrjár meginreglur í kjarnorkumálum: þær að Japan myndi hvorki framleiða, eiga né öðlast kjarnorkuvopn. Á forsætisráðherratíð hans viðurkenndi Japan samninginn bann við útbreiðslu kjarnavopna. Japanska þingið samþykkti ályktun sem innleiddi meginreglur sáttmálans formlega árið 1971. Satō hlaut friðarverðlaun Nóbels fyrir stuðning sinn við sáttmálann árið 1974.
Nýlegar rannsóknir hafa þó sýnt fram á að á bak við tjöldin var Satō reiðubúinn til að samþykkja áætlanir Bandaríkjamanna um að koma fyrir kjarnorkuvopnum á japanskri grundu. Í desember árið 2008 birti japanska stjórnin leyniskjöl sem sýndu fram á að í heimsókn til Bandaríkjanna í janúar 1965 ræddi Satō við bandaríska embættismenn um möguleikann á því að beita kjarnorkuvopnum gegn Alþýðulýðveldinu Kína.[4] Í desember árið 2009 greindi sonur Satō frá því að faðir hans hefði í nóvember árið 1969 fallist á það í samtali við Richard Nixon Bandaríkjaforseta að leyfa Bandaríkjamönnum að koma fyrir kjarnorkuflaugum í Okinawa eftir að fylkinu væri skilað til japanskrar stjórnar.[5]
Endurheimt Okinawa
breytaBandaríkjaher hafði haldið uppi hernámi í japanska fylkinu Okinawa frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar. Satō bað Lyndon B. Johnson Bandaríkjaforseta opinberlega um að skila Okinawa til Japana í heimsókn til Bandaríkjanna í janúar 1965. Í ágúst sama ár varð Satō fyrsti japanski forsætisráðherrann frá stríðslokum til að heimsækja Okinawa.
Árið 1969 gerði Satō samning við Richard Nixon Bandaríkjaforseta um að Okinawa yrði fært undir stjórn Japana og kjarnorkuvopn fjarlægð úr fylkinu. Þessi samningur var umdeildur þar sem hann heimilaði Bandaríkjamönnum að viðhalda herstöðvum í Japan eftir að Okinawa var skilað til Japana.[6] Okinawa var formlega skilað til Japana þann 15. maí árið 1972. Með þeim fylgdi stjórn yfir Senkaku-eyjum, en Japanir hafa deilt við Kínverja um yfirráð yfir þeim æ síðan.
Milliríkjasambönd í Suðaustur-Asíu
breytaÁ stjórnartíð Satō tóku Japanir þátt í stofnun Þróunarbanka Asíu árið 1966 og héldu ráðherraráðstefnu um efnahagsþróun í Suðaustur-Asíu.[7] Þetta var fyrsta alþjóðaráðstefnan sem ríkisstjórn Japans átti frumkvæði að. Árið 1967 varð Satō jafnframt fyrsti japanski forsætisráðherrann til að heimsækja Singapúr. Hann studdi ríkisstjórn Suður-Víetnams að mestu í Víetnamstríðinu.
Seinni æviár
breytaSatō hlaut friðarverðlaun Nóbels ásamt Seán MacBride árið 1974. Hann hlaut verðlaunin fyrir að undirrita samninginn um bann við útbreiðslu kjarnavopna árið 1970 og sýna þannig fram á friðarvilja japönsku þjóðarinnar.[8] Satō var fyrsti Asíubúinn sem þáði friðarverðlaun Nóbels. (Árið 1973 hafði víetnamski stjórnmálamaðurinn Lê Đức Thọ unnið til verðlaunanna en hann hafði neitað þeim viðtöku.[9])
Dauði
breytaSatō fékk heilablóðfall á veitingastað þann 19. maí árið 1975 og féll í dá. Hann lést kl. 12:55 eftir miðnætti þann 3. júní á heilsugæslustöð Jikei-háskólans í Tókýó, þá 74 ára. Eftir opinbera jarðarför voru öskur hans grafnar í ættargrafreit hans í Tabuse.
Eftir dauða sinn var Satō sæmdur kraga japönsku Tryggðablómsorðunnar, æðstu viðurkenningu sem hægt er að veita í Japan.
Tilvísanir
breyta- ↑ „The Nobel Peace Prize 1974“ (enska). Nóbelsverðlaunin. Sótt 17. desember 2019.
- ↑ Feilier. Learning to Bow. Page 80
- ↑ MacMillan. Nixon and Mao: The Week that Changed the World
- ↑ „Editorial: The U.S. nuclear umbrella, past and future“. Afrit af upprunalegu geymt þann 19. janúar 2021. Sótt 18. desember 2019.
- ↑ „Document on secret Japan-U.S. nuclear pact kept by ex-PM Sato's family“. Afrit af upprunalegu geymt þann 17. október 2018. Sótt 18. desember 2019.
- ↑ Ambrose. The Rise to Globalism. bls. 235
- ↑ Hoshiro, Hiroyuki (7. maí 2007). „Postwar Japanese and Southeast Asian History - A New Viewpoint“. Research and Information Center for Asian Studies. Afrit af upprunalegu geymt þann 22 júlí 2012. Sótt 6. janúar 2013.
- ↑ „Eisaku Sato“. Nóbelsverðlaunin. Norska Nóbelsverðlaunanefndin. Sótt 18. desember 2019.
- ↑ Pace, Eric (14. október 1990). „Le Duc Tho, Top Hanoi Aide, Dies at 79“. The New York Times. Sótt 18. desember 2019.[óvirkur tengill]
Fyrirrennari: Hayato Ikeda |
|
Eftirmaður: Kakuei Tanaka |