Einar Pálsson
Einar Pálsson (10. nóvember 1925 – 30. október 1996) fræðimaður og fyrrverandi skólastjóri Málaskólans Mímis er kunnastur fyrir kenningar sínar um rætur íslenskrar menningar. Hann fæddist í Reykjavík, hlaut cand. phil.-gráðu 1946 og B.A. gráðu í ensku og dönsku 1957 frá Háskóla Íslands. Hann útskrifaðist frá The Royal Academy of Dramatic Art í London árið 1948. Hann hlaut riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir rannsóknir sínar á íslenskum fornbókmenntum. Hann setti fram kenningar sínar árið 1969 og þróaði þær áfram í samtals 11 bókum á íslensku og þremur á ensku.
Kenningar
breytaKenningar hans má flokka í fernt:
Goðsagnakenningin: Goðsagnauppruni Íslendingasagna
breytaÍslenskar fornsagnir eru að verulegu leyti goðsagnir að uppruna. Söguhetjurnar eru persónugervingar hugtaka úr goðsögnum, s.s. frjósemi, réttlætis, tíma, dauða og höfuðskepnanna (frumefnanna) fjögurra. Einar færði rök fyrir því að mörg atriði í fornsögunum yrðu skiljanleg ef goðsagnir Miðjarðarhafsþjóða og Kelta væru hafðar til hliðsjónar. Hann tók Njálu sérstakleg fyrir og taldi að t.d. Kári tengdist tíma og lofti, Njáll frjósemi, sköpun og vatni, Skarphéðinn eldi, réttlæti og dauða, Höskuldur tengdist sáðkorni og frjósemi, Gunnar á Hlíðarenda tengdist sól, Mörður jörð og Bergþóra Hel. Goðsagnir þær sem skína í gegnum fornsögurnar eru hluti af árstíðabundinni frjósemisdýrkun Freys og Freyju, sem voru náskyld svipuðum goðmögnum við Miðjarðarhafið, einkum Ósíris og Ísis. Þessar frjósemitengdu goðsagnir voru, að mati Einars, tengdar vissum landsvæðum á Íslandi, og hluti af því að gera landið byggilegt í augum heiðinna landnámsmanna. Með tímanum runnu þessar svæðisbundnu goðsagnir saman við sagnir af raunverulegum persónum og urðu efniviður Íslendingasagna. Íslendingasögurnar eru þannig sprottnar upp úr því sem kalla mætti trúarlegt landslag eða goðsagnalandslag.
Allegóríukenningin: Íslendingasögur sem allegóríur
breytaSumir sagnaritarar virðast hafa mótað goðsagnaarfinn í allegórískar sögur. Njála, til dæmis, varð yfirgripsmikil allegóría um Kristnitökuna. Njálsbrenna markaði aldaskil milli heiðni (og keltneskrar kristni) og rómverskrar kristni. Kári, vindurinn og tíminn, sem lifði brennuna líkt og fuglinn Fönix varð persónugervingur heilags anda. Höfuðtilgangur með allegóríunni var að kristna hið heiðna trúarlega landslag. Hrafnkels saga er líka allegóría en markmið hennar er meira siðræns eðlis.
Mælingakenningin: Útmæling goðsagnalandslags
breytaAð því gefnu að goðsagnakenningin sé rétt, má álykta að goðsagnasvæðin, sem að ofan er getið (sögusvið Íslendingasagna), eigi að endurspegla himneska reglu og vera jafnframt tímakvarði. Einfaldasta leiðin til þess er að hugsa sér miðju og taka þaðan mið af stjarnfræðilega marktækum punktum á sjóndeildarhring, s.s. höfuðáttum og sólarupprás og sólarlagi um sólstöður. Kennileiti á jörðu niðri sem tengjast þessum stefnum fá þannig goðfræðilega merkingu. Einar gerði ekki aðeins ráð fyrir goðsagnalandslagi af þessu tagi, heldur áleit að stærð þess hefði verið nákvæmlega skilgreind og útmæld. Hann áleit að fornmenn hefðu hugsað sér það sem hring sem endurspeglaði sjóndeildarhring og himinhring (dýrahringinn). Þvermál hringsins skipti máli og átti að hafa verið 216.000 fet (um 64 km). Mælingakenning Einars var tilraun hans til að sameina (a) það sem vitað er um norræna heiðni; (b) það sem álykta má af sambærilegum heimildum um forn trúarbrögð indó-evrópskra manna; (c) það sem vitað er um stjarnfræðikunnáttu fornþjóða og (d) þá innsýn í norræna goðafræði sem fæst með því að horfa á Íslendingasögurnar sem goðsagnir.
Goðaveldiskenningin: Tengsl goðsagna og goðaveldis
breytaÍslenska goðaveldið í heiðni (930-1000) var hugsað sem endurspeglun himneskrar reglu. Þannig mátti líta á goðana 36 sem fulltrúa himinhrings, og til samans jafngiltu þeir konungi í goðfræðilegum skilningi. Einar taldi að goðarnir hefðu búið yfir hinni goðfræðilegu þekkingu sem fylgdi goðsagnalandslaginu. Einar gerði ennfremur ráð fyrir að germönsk heiðni hefði, líkt og önnur nálæg trúarbrögð, orðið fyrir áhrifum af speki pýþagóringa og platonista um að eðli heimsins, og þar með hins goðlæga hluta hans, væri fólgið í tölum og hlutföllum. Hann hélt því fram að þessi speki hefði legið að baki íslenska goðaveldinu og konungdæmum grannlandanna.
Einar Pálsson setti allar hugmyndir sínar fram sem fræðitilgátur, en flestar tilgátur hans eru enn óprófaðar af öðrum fræðimönnum. Ein mikilvægasta forspáin er sú sem leiðir af mælingakenningunni, að útmæld goðfræðileg hjól með fyrirfram gefnum vegalengdum muni finnast í öðrum löndum Evrópu. Einar var fyrstur til að setja fram þá hugmynd að norrænar fornsögur væru allegórískar. Nokkrar rannsóknir hafa verið gerðar á allegóríum í fornsögum síðan (Ciklamini 1984 í Sturlu þætti, Torfi Tulinius 2004 í Egils sögu og Árni Einarsson í Rauðúlfs þætti). Karl Gunnarsson (1995) og Einar Birgisson (2004), könnuðu staðsetningu bæja og annarra mannvirkja með hliðsjón af mælingakenningu Einars. Nýjar uppgötvanir í fornstjörnufræði hafa styrkt forsendur Einars Pálssonar um lærdómsiðkun fornra samfélaga.
Ritskrá
breytaBækur eftir Einar Pálsson um rætur íslenskrar menningar
Á íslensku
breyta- Baksvið Njálu, 1969. Mímir, Reykjavík.
- Trú og landnám, 1970. Mímir, Reykjavík.
- Tíminn og eldurinn, 1972. Mímir, Reykjavík.
- Steinkross, 1976. Mímir, Reykjavík.
- Rammislagur, 1978. Mímir, Reykjavík.
- Arfur Kelta, 1981. Mímir, Reykjavík.
- Hvolfþak himins, 1985. Mímir, Reykjavík.
- Stefið. Heiðinn siður og Hrafnkels saga,1988. Mímir, Reykjavík.
- Egils saga og úlfar tveir, 1990. Mímir, Reykjavík.
- Alþingi hið forna, 1991. Mímir, Reykjavík.
- Kristnitakan og kirkja Péturs í Skálaholti, 1995. Mímir, Reykjavík. ISBN 9979-9117-1-9
Bækur á ensku
breyta- The Sacred Triangle of Pagan Iceland, 1993. Mímir, Reykjavík. ISBN 9979-3-0528-2
- Evil and the Earth. The Symbolic Background of Mörðr Valgarðsson in Njáls Saga. A Study in Medieval Allegory, 1994. Mímir, Reykjavík. ISBN 9979-9117-0-0
- Allegory of Njáls Saga and its Basis in Pythagorean Thought, 1998. Mímir, Reykjavík. ISBN 9979-9117-2-7
Heimildir
breyta- Árni Einarsson. 1997. Saint Olaf’s dream house. A medieval cosmological allegory. Skáldskaparmál 4: 179-209, Stafaholt, Reykjavík.
- Árni Einarsson. 2001. The symbolic imagery of Hildegard of Bingen as a key to the allegorical Raudulfs thattr in Iceland. Erudiri Sapientia II: 377-400.
- Ciklamini, Marlene. 1984. „Veiled meaning and narrative modes in Sturlu thattr“. Arkiv för Nordisk Filologi 99: 139-150.
- Einar Gunnar Birgisson. 2004. Egyptian influence and sacred geometry in ancient and medieval Scandinavia. ISBN 9979-60-757-2
- Karl Gunnarsson. 1995. „Landnám í Húnaþingi“. Skírnir 169: 147-173.
- Torfi H. Tulinius. 2004. Skáldið í skriftinni: Snorri Sturluson og Egils saga. Íslensk menning, ritröð Reykjavíkurakademíunar og Hins íslenska bókmenntafélags.
Tenglar
breyta- Hugmyndafræðilegur grundvöllur hins íslenska goðveldis; grein í Lesbók Morgunblaðsins 1971
- Kári og móðurgyðjan mikla; grein í Lesbók Morgunblaðsins 1992
- Delfí og Þingvellir; grein í Lesbók Morgunblaðsins 1994
- Hamarinn við Friðmundará; grein í Lesbók Morgunblaðsins 1996
- Launsögn Stéttarinnar miklu í Westminster Abbey; grein í Lesbók Morgunblaðsins 1993
- Talan 60 og landnámið í Færeyjum; grein í Lesbók Morgunblaðsins 1994
- Eiríkur blóðöxi, Gunnhildur og sporðdrekinn; grein í Lesbók Morgunblaðsins 1995
- Einar Pálsson og Njála; grein í Morgunblaðinu 1982