Gunnar Hámundarson
Gunnar Hámundarson (10. öld) var stórbóndi og höfðingi á Hlíðarenda í Fljótshlíð. Hann var jafnan kenndur við bæinn og er fullt eins þekktur sem Gunnar á Hlíðarenda. Um hann er fjallað í fyrri hluta Njálu og alla þá atburði sem urðu til þess að hann var drepinn á Hlíðarenda í lok 10. aldar. Gunnar var sonur Hámundar Gunnarssonar og Rannveigar Sigfúsdóttur (skv. Njálu) eða Sigmundardóttur (skv. Landnámu) og er það talið réttara. Bræður Gunnars voru tveir og hétu þeir Kolskeggur og Hjörtur. Eina systur átti hann, sem Arngunnur hét og var hún kona Hróars Tungugoða sonarsonar Garðars er fann Ísland.
Gunnar var mikill bardagamaður og stóðst honum enginn snúning jafnvel þó að um ofurefli væri að ræða. Hann bar af öðrum mönnum um afl og líkamsburði að því er Njála segir og er sagt að hann hafi stokkið hæð sína í fullum herklæðum. Hann var afburða bogskytta og í návígi notaði hann atgeir, sem menn telja að hafi verið langt og breitt spjót sem bæði mátti höggva og leggja með.
Gunnar var mikill vinur Njáls á Bergþórshvoli og sótti til hans góð ráð. Njáll ráðlagði honum að vega ekki aftur í sama knérunn, það merkir að hann skyldi ekki vega mann af sömu ætt og einhver sem hann hefði vegið áður, því að það yrði hans bani. Eins og oftar reyndist Njáll sannspár í þessu, því að Gunnar var drepinn eftir að hann hafði vegið tvo af ættmönnum Gissurar hvíta og þeirra Mosfellinga.
Gunnar giftist Hallgerði Höskuldsdóttur frá Höskuldsstöðum í Laxárdal í Dalasýslu eftir að hann kom til baka úr sinni einu utanferð sem þó var um margt merk en hann dvaldist við hirð bæði Noregskonungs og Danakonungs og herjaði í austurveg þar sem kallað var Vindland en er í dag Eistland og Litháen. Hún er þekkt sem Hallgerður langbrók. Hann var þriðji maður hennar. Var um hana sagt að hún hefði ráðið báðum fyrri mönnum sínum bana, en það var þó alls ekki rétt nema varðandi þann fyrsta.
Hallgerður lét þræl ræna búið í Kirkjubæ eitt sinn er þröngt var í búi hjá þeim á Hlíðarenda og varð það upphaf atburða, sem að lokum leiddu til þess að mikill herflokkur undir forystu Gissurar hvíta fór að Gunnari og drápu þeir hann eftir frækilega vörn. Þegar bogastrengur Gunnars slitnaði bað hann Hallgerði að gefa sér lokk úr hári sínu, svo að hægt væri að snúa nýjan bogastreng úr honum. Þessu neitaði Hallgerður og kvaðst með því vilja launa honum kinnhestinn sem hann gaf henni forðum. Fyrir þetta hefur Hallgerði verið álasað um allar aldir en þó hefur sú kenning verið sett fram að Hallgerður hafi vitað sem var að lokkur úr mannshári gæti aldrei komið að gagni sem bogastrengur og því hafi slík nauðvörn verið óhugsandi hvort eð var[1]. Gunnar komst aldrei í tæri við kristni og hefur verið um fimmtugt er hann féll frá.
Gunnar og bræður hans, Kolskeggur og Hjörtur, börðust við Starkað Barkarson og hans menn við Knafahóla á Rangárvöllum. Leituðu þeir undan niður í nesið við Rangá eystri og vörðust þar. Vógu þeir þrír saman fjórtán menn Starkaðar en Hjörtur var einnig veginn þar og taldi mannfallið því alls fimmtán menn.
Tenglar
breytaNeðanmálsgreinar
breyta- ↑ Jón Böðvarsson í fyrirlestrum sínum um Njálu