Bonar Law

Forsætisráðherra Bretlands (1858-1923)

Andrew Bonar Law (16. september 1858 – 30. október 1923), yfirleitt kallaður Bonar Law[1] var breskur stjórnmálamaður úr Íhaldsflokknum og forsætisráðherra Bretlands. Hann fæddist í bresku nýlendunni New Brunswick (sem nú er hluti af Kanada) og er því eini breski forsætisráðherrann sem fæddist ekki á Bretlandseyjum.[2]

Andrew Bonar Law
Forsætisráðherra Bretlands
Í embætti
19. október 1922 – 22. maí 1923
ÞjóðhöfðingiGeorg 5.
ForveriDavid Lloyd George
EftirmaðurStanley Baldwin
Persónulegar upplýsingar
Fæddur16. september 1858
Kingston, Nýja-Brúnsvík
Látinn30. október 1923 (65 ára) Kensington, London, England
StjórnmálaflokkurÍhaldsflokkurinn
MakiAnnie Robley
BörnJames, Isabel, Charles, Harrington, Richard, Catherine
StarfJárnkaupmaður, stjórnmálamaður
Undirskrift

Law var af skoskum uppruna og fluttist heim til Skotlands árið 1870. Hann hætti í skóla þegar hann var sextán ára til þess að vinna í járniðnaðinum og var orðinn auðugur maður þegar hann var þrjátíu ára. Hann gekk á breska þingið árið 1900, fremur seint á ævi sinni miðað við aðra áhrifamikla stjórnmálamenn. Hann varð aðstoðarráðherra í viðskiptaráðinu árið 1902. Law gekk til liðs við skuggaríkisstjórnina í stjórnarandstöðu eftir kosningar árið 1906. Árið 1911 gerðist hann ráðgjafi konungsins og bauð sig fram í formannsembætti Íhaldsflokksins. Þótt Law hefði aldrei gegnt embætti í ríkisstjórninni og þótt hann nyti minni stuðnings en Austen Chamberlain og Walter Long var hann kjörinn formaður þegar Long og Chamberlain drógu framboð sín til baka fremur en að valda klofningi innan flokksins.

Sem formaður Íhaldsflokksins og leiðtogi stjórnarandstöðunnar einbeitti Law sér að umbótum á innflutningssköttum og andstöðu við írska heimastjórn. Herferðir hans leiddu til þess að tilraunir Frjálslynda flokksins til að veita Írlandi heimastjórn drógust á langinn og voru að endingu lagðar til hliðar vegna fyrri heimsstyrjaldarinnar. Mótmæli hans snertu héröðin sex í Írlandi þar sem mótmælendur voru í meirihluta, sem áttu síðar eftir að verða Norður-Írland.

Law gekk fyrst í ríkisstjórn sem nýlendumálaráðherra í þjóðstjórn H. H. Asquith (maí 1915 – desember 1916). Þegar Asquith féll frá völdum neitaði Law að mynda ríkisstjórn og gerðist þess í stað fjármálaráðherra í ríkisstjórn Davids Lloyd George. Hann sagði af sér af heilsufarsástæðum snemma árs 1921. Eftir að Íhaldsmenn kusu að draga sig úr stjórnarsamstarfi við Frjálslynda flokkinn varð Law flokksformaður á ný og í þetta sinn einnig forsætisráðherra. Í nóvember 1922 unnu Íhaldsmenn hreinan meirihluta á þingi. Á forsætisráðherratíð hans sömdu Bretar við Bandaríkin vegna stríðslána sem þau höfðu veitt þeim. Law var þá alvarlega veikur af hálskrabbameini og sagði af sér í maí árið 1923 og lést síðar sama ár. Forsætisráðherratíð hans var sú stysta á 20. öld í Bretlandi (aðeins 211 dagar) og hann er því stundum kallaður „óþekkti forsætisráðherrann“.

Tilvísanir

breyta
  1. „Bonar Law - Definition, pictures, pronunciation and usage notes Oxford Advanced Learner's Dictionary at OxfordLearnersDictionaries.com“. Oxford University Press. Sótt 28. febrúar 2018.
  2. Hamilton, William Baillie (1996), Place names of Atlantic Canada, University of Toronto Press, bls. 123


Fyrirrennari:
David Lloyd George
Forsætisráðherra Bretlands
(1922 – 1923)
Eftirmaður:
Stanley Baldwin