Tiberius Claudius Caesar Augustus Germanicus (1. ágúst 10 f.Kr. – 13. október 54), áður Tiberius Claudius Drusus Nero Germanicus en þekktastur sem Claudius (stundum skrifað Kládíus[1]), var fjórði rómverski keisarinn af julísku-claudísku ættinni. Hann ríkti frá 24. janúar 41 til dauðadags árið 54. Claudius fæddist í Lugdunum í Gallíu (í dag Lyon í Frakklandi). Foreldrar hans voru Drusus og Antonia Minor. Claudíus var fyrsti rómverski keisarinn sem fæddist utan Ítalíu.

Claudíus
Rómverskur keisari
Valdatími 41 – 54

Fæddur:

1. ágúst 10 f.Kr
Fæðingarstaður Lugdunum (Lyon)

Dáinn:

13. október 54
Dánarstaður Róm
Forveri Calígúla
Eftirmaður Neró
Maki/makar Plautia Urgulanilla,
Aelia Paetina,
Messalina,
Agrippina yngri
Börn Claudius Drusus,
Claudia Antonia,
Claudia Octavia,
Britannicus,
Neró (ættleiddur)
Faðir Nero Claudius Drusus
Móðir Antonia yngri
Fæðingarnafn Tiberius Claudius Drusus
Keisaranafn Tiberius Claudius Caesar Augustus Germanicus
Ætt Julíska-claudíska ættin

Claudíus þótti ekki líklegur til að verða keisari. Sagt var að hann væri fatlaður og fjölskylda hans hafði nánast útilokað hann úr opinberu lífi þar til hann gegndi embætti ræðismanns ásamt frænda sínum Calígúla árið 37. Fötlunin kann að hafa bjargað honum frá örlögum margra annarra rómverskra yfirstéttarmanna þegar Tíberíus og Calígúla ríktu og létu taka marga af lífi sem þeir töldu ógna sér. Þegar Calígúla hafði verið ráðinn af dögum hyllti lífvörður keisarans hann sem keisara en þá var hann síðasti fullorðni karlmaðurinn í sinni ætt. Þrátt fyrir reynsluleysi í stjórnmálum reyndist Claudíus vera hæfur stjórnandi og mikill framkvæmdamaður. Á valdatíma hans stækkaði Rómaveldi allnokkuð og lögðu Rómverjar m.a. undir sig Bretland. Claudíus var áhugasamur um lög og lagasetningu, hann dæmdi í opinberum réttarhöldum og felldi allt að 20 dóma á dag. Aftur á móti þótti hann ekki sterkur stjórnandi, einkum af yfirstéttinni. Claudíus neyddist til að vera sífellt á verði um völd sín og leiddi það til dauða margra rómverskra öldungaráðsmanna. Claudíus átti ekki sjö dagana sæla í einkalífi sínu og var á endanum myrtur af þeim sem stóðu honum næst. Orðspor hans beið hnekki af þessum sökum meðal fornra höfunda. Sagnfræðingar nú á dögum hafa mun meira álit á Claudíusi.

Fjölskylda og æska

breyta

Claudius fæddist Tiberius Claudius Drusus 1. ágúst, 10 f.Kr. í Lugdunum, Gallíu, á sama degi var altari tileinkað Ágústusi. Hann var þriðja barn Neros Claudiusar Drususar og Antoniu Minor sem lifði, eldri börnin voru Germanicus og Livilla. Antonia kann að hafa alið tvö önnur börn en þau létust ung.

Afi hans og amma í móðurætt voru Marcus Antonius og Octavia Minor, systir Ágústusar. Afi hans og amma í föðurætt voru Livia, þriðja kona Ágústusar, og Tiberius Claudius Nero. Á valdatíma sínum kom Claudíus af stað sögusögnum um að Drusus, faðir hans, hefði í raun verið óskilgetinn sonur Ágústusar.

Árið 9 f.Kr. lést Drusus óvænt, hugsanlega af slysförum. Claudíus var þá alinn upp af móður sinni, sem giftist ekki aftur. Þegar einkenni Claudíusar urðu ljós versnaði samband hans við fjölskylduna. Antonia sagði hann vera skrímsli og notaði hann sem mælistiku á heimsku. Hún virðist hafa látið Liviu, ömmu drengsins, um hann um nokkurra ára skeið.[2] Livia var engu ljúfari við drenginn og sendi honum margsinnis stutt skammarbréf. Fyrrverandi asnahirði var falið að sjá um drenginn[3] til að beita hann aga, enda talið að ástand hans stafaði af leti og skorti á viljastyrk. Þegar hann varð táningur dró hins vegar úr einkennum hans og fjölskylda hans fór að taka eftir áhuga hans á lærdómi. Árið 7 var sagnaritarinn Lívíus ráðinn sem kennari hans í sagnfræði ásamt Sulpiciusi Flavusi. Claudíus varði miklum tíma með þeim síðarnefnda og með heimspekingnum Aþenodorosi. Ágústus mun hafa verið hissa á skýrleika Claudíusar í ræðumennsku. [4] Vonir um framtíð hans jukust.

Valdatími

breyta

Sagan segir að eftir að Calígúla var myrtur, hafi meðlimur úr lífvarðasveit hans rekist á Claudíus fyrir tilviljun og farið með hann í höfuðstöðvar lífvarðasveitarinnar, þar sem hann var hylltur sem keisari. Claudíus lét strax hefna fyrir dauða Calígúla; helsti samsærismaðurinn, Cassius Chaerea, var líflátinn og Julius Lupus, sem hafði drepið eiginkonu Calígúla og dóttur, var einnig drepinn. Aðrir sem tóku þátt í samsærinu voru látnir í friði. Claudíus tók örlög Calígúla sem viðvörun fyrir sjálfan sig og viðhafði miklar öryggisráðstafanir í kringum sig. Hann var alla tíð mjög hræddur um líf sitt og lét taka fjölda manns af lífi sem hann grunaði um að ætla að myrða hann. Eiginkona Claudíusar, Messalina, notfærði sér ótta Claudíusar og sannfærði hann um að láta drepa marga óvini hennar og keppinauta. Messalina var þriðja eiginkona Claudíusar og með henni átti hann soninn Britannicus. Hún varð hins vegar alræmd fyrir að eiga marga aðra elskhuga og gekk að lokum svo langt að hún giftist einum þeirra, þó hún væri enn gift Claudíusi. Claudíus óttaðist að hún væri að skipuleggja valdarán og hún og nýji eiginmaður hennar voru tekin af lífi.

Stækkun heimsveldisins

breyta

Árið 43 f.Kr. lét Claudius fjórar herdeildir hefja innrás í Britanniu (Bretland). Það sem Rómverjar höfðu helst að sækja til Bretlands voru auðlindir í jörðu (t.d. gull og silfur) og þrælar. Þegar herinn hafði náð fótfestu á suðaustur-horni Bretlands ferðaðist Claudius til eyjarinnar og stofnaði skattland með höfuðborg í Colchester. Aulus Plautius stjórnaði innrásinni og varð fyrsti landstjóri Rómverja í Britanniu en á meðal þeirra sem tóku þátt í innrásinni var Vespasíanus sem síðar varð keisari. Á valdatíma Claudiusar náðu Rómverjar völdum á suðausturhluta Bretlands, vestur að núverandi landamærum Wales og norður að Humber ánni. Claudius lét líka hertaka Mauretaniu (núverandi Marokkó) og setti nokkur leppríki undir beina stjórn Rómar, m.a. Thraciu og Judeu.

 
Brjóstmynd af Claudíusi úr bronsi

Heilsufar og persónueinkenni

breyta

Sagnaritarinn Suetonius lýsir útlitseinkennum Claudíusar í smáatriðum.[5] Hné hans voru veik og létu undan þunga hans og höfuð hans hristist. Hann stamaði og var óskýrmæltur. Hann slefaði þegar hann varð æstur. Stóumaðurinn Seneca segir í verki sínu Apocolocyntosis (Hinn goðumlíki Claudius tekinn í graskeratölu) að rödd Claudíusar væri ólík öllum landdýrum og hendur hans voru einnig veikburða.[6] Aftur á móti bar hann engin lýti og Suetonius greinir frá því að þegar hann var rólegur og sitjandi hafi hann virst hávaxinn, stæðilegur og virðulegur.[7] Þegar hann reiddist eða varð stressaður urðu einkenni hans verri. Sagnfræðingar eru á einu máli um að þetta hafi verið honum til framdráttar þegar hann tók við völdum.[8] Claudíus hélt því sjálfur fram að hann hefði ýkt einkenni sín til að bjarga lífi sínu.

Á 20. öld voru afar skiptar skoðanir á ástandi Claudíusar. Á fyrri helmingi aldarinnar var lömunarveiki viðtekin skýring á ástandi hans. Robert Graves styðst við þessa skýringu í bókum sínum um Claudíus, sem komu fyrst út á 4. áratugnum. Lömunarveiki útskýrir þó ekki öll einkennin og því hefur verið giskað á að heilalömun hafi verið ástæðan, eins og Ernestine Leon hefur lýst veikinni.[9]

Fornir sagnaritarar lýsa Claudíusi sem rausnarlegum manni, manni sem sagði lélega brandara, hló óstjórnlega og snæddi hádegisverð með lágstéttarfólki.[10] Þeir draga einnig upp mynd af honum sem blóðþyrstum og grimmum manni, sem var auðveldlega reiddur til reiði (þótt Claudius viðurkenndi sjálfur síðasta persónueinkennið og baðst opinberlega afsökunar á skapofsa sínum).[11] Þeir töldu hann einnig of treystandi og að eiginkonur hans og leysingjar ráðskupust of auðveldlega með hann.[12] En á sama tíma draga þeir upp mynd af honum sem ofsóknaróðum og tilfinningalausum manni, leiðinlegum sem ætti auðvelt með að ruglast.[13] Varðveitt rit Claudiusar sjálfs benda til annars, að hann hafi verið gáfaður maður, vel lesinn og athugull og réttlátur stjórnandi. Claudíus er þess vegna hálfgerð ráðgáta. Síðan „Bréfið til Alexandríumanna“ fannst hefur mikið verið gert til að veita Claudíusi uppreisn æru og komast að sannleikanum.

Neðanmálsgreinar

breyta
  1. Tímarit.is
  2. Dio Hist. LX 2
  3. Suet. Claud. 2. Suet Claud. 4 gefur til kynna ástæðu þessa, sjá einnig Leon (1948).
  4. Suet. Claud. 4.
  5. Suet. Claud. 30.
  6. Seneca Apocolo. 5, 6.
  7. Suet. Claud. 30.
  8. Suet. Claud. 31.
  9. Leon (1948).
  10. Suet. Claud. 5, 21, 40; Dio Rom. Hist. LX 2, 5, 12, 31.
  11. Suet. Claud. 34, 38. Tacitus Ann. XII 20.
  12. Suet. Claud. 29. Dio Rom. Hist. LX 2, 8.
  13. Suet. Claud. 35, 36, 37, 39, 40. Dio Rom. Hist. LX 2, 3.

Heimildir

breyta
  • Baldwin, B. „Executions under Claudius: Seneca’s Ludus de Morte Claudii“, Phoenix 18 (1964).
  • Griffin, M. „Claudius in Tacitus“. Classical Quarterly 40 (1990): 482-501.
  • Levick, B.M., „Claudius: Antiquarian or Revolutionary?“, American Journal of Philology 99 (1978): 79-105.
  • Levick, Barbara. Claudius. (New Haven: Yale University Press, 1990).
  • Leon, E.F., „The Imbecillitas of the Emperor Claudius“, Transactions and Proceedings of the American Philological Association 79 (1948): 79-86.
  • McAlindon, D., „Claudius and the Senators“, American Journal of Philology 78 (1957): 279-286.
  • Major, A., „Was He Pushed or Did He Leap? Claudius' Ascent to Power“, Ancient History 22 (1992): 25-31.
  • Momigliano, Arnaldo, Claudius: the Emperor and His Achievement W.D. Hogarth (þýð.). (Cambridge: W. Heffer and Sons, 1934).
  • Oost, S.V., „The Career of M. Antonius Pallas“, American Journal of Philology 79 (1958): 113-139.
  • Ruth, Thomas De Coursey, The Problem of Claudius (Baltimore: Johns Hopkins Dissertations, 1916).
  • Ryan, F.X., „Some Observations on the Censorship of Claudius and Vitellius, AD 47-48“, American Journal of Philology 114 (1993): 611-618.
  • Scramuzza, Vincent, The Emperor Claudius (Cambridge, Mass.: Harvard University Press, 1940).
  • Stuart, M., „The Date of the Inscription of Claudius on the Arch of Ticinum“ American Journal of Archiology 40 (1936): 314-322.
  • Suhr, E.G., „A Portrait of Claudius“ American Journal of Archiology 59 (1955): 319-322.
  • Vessey, D.W.T.C., „Thoughts on Tacitus' Portrayal of Claudius“ American Journal of Philology 92 (1971): 385-409.

Tengt efni

breyta

Tenglar

breyta

Fornar heimildir (öll verkin eru á ensku):


Fyrirrennari:
Calígúla
Rómarkeisari
(41 – 54)
Eftirmaður:
Neró