Changzhou

héraðsborg í suðurhluta Jiangsu-héraðs í Kína

Changzhou (kínverska:常州; rómönskun: Chángzhōu; stundum stytt í Chang) er héraðsborg í suðurhluta Jiangsu-héraðs í Alþýðulýðveldinu Kína. Til forna var hún þekkt sem Yanling, Lanling eða Jinling.

Changzhou
常州市
Héraðsborg
Miðborg Changzhou í Jiangsu-héraði Kína. Árið 2020 bjuggu í borginni 5,3 milljónir manna.
Miðborg Changzhou í Jiangsu-héraði Kína. Árið 2020 bjuggu í borginni 5,3 milljónir manna.
Changzhou er staðsett í Kína
Changzhou
Changzhou
Kort er sýnir staðsetningu Changzhou borgar í Jiangsu-héraði í Kína.
Hnit: 31°48′40″N 119°58′26″A / 31.811°N 119.974°A / 31.811; 119.974
LandFáni Kína Kína
HéraðJiangsu
Stjórnarfar
 • FlokksritariChen Jinhu (陈金虎)[2]
 • BorgarstjóriSheng Lei (盛蕾)
Flatarmál
 • Samtals4.384,58 km2
Mannfjöldi
 (2020)
 • Samtals5.278.121[1]
TímabeltiUTC+8
Póstnúmer
213000, 213100 (þéttbýliskjarninn)
213200, 213300 (annars staðar)
Svæðisnúmer0519
Vefsíðachangzhou.gov.cn

Changzhou situr á suðurbakka Jangtse-fljóts og liggur í suðri að Taiu vatni. Hún er mitt á milli Sjanghæ og Nanjing og á mörk að bæði Suzhou borg og Wuxi borg.

Changzhou hefur í gegnum söguna verið verslunarmiðstöð og söfnunarmiðstöð fyrir landbúnaðarafurðir, sem fluttar voru á skipgengum skurðum til norðurs og síðar til Sjanghæ. Í dag er borgin mikilvæg miðstöð iðnaðar og viðskipta sem tengist sterkt Sjanghæ atvinnusvæðinu. Hún er staðsett í miðju hins fjölmenna og þróaða Jangtse óshólmasvæðis í Kína sem nær frá Sjanghæ og til norðvesturs.

Changzhou sem nær yfir alls 4.372 ferkílómetra land, hefur lögsögu yfir 5 hverfum og einni borg á sýslustigi.[3] Árið 2020 bjuggu á stórborgarsvæði Changzhou um 5,3 milljónir manna.[4]

 
Elsti hluti Changzhou. Borgin er mikil vatnaborg með þéttriðið net skurða og vatnaleiða.
 
Fölblá stytta af sitjandi Guanyin, gyðju miskunnar. Gerð úr Jingdezhen-postulíni á tímum Suður-Songveldisins. Geymd í Sögusafni Changzhou.
 
Tianning hverfi er nefnt eftir Tianning-hofi búddista sem var byggt á árum Tangveldisins (627-655). Árið 2005 var pagóða byggð í stíl Tang-og Songveldanna. Pagóðan er 13 hæðir og 153.79 metra há. Hún er hæst allra 4,000 búddista pagóða í Kína.[5][6]
 
„Vísinda-og menntaborg Changzhou“ í Wujin hverfi, er alhliða vísinda- og nýsköpunargarður háskólamenntunar, hátækni, rannnsókna- og vísinda, sem klasastarfs frumkvöðlafyrirtækja.[7]

Elstu forleifar borgarinnar eru leifar múrveggja, í núverandi Wujin-hverfi. Þeir voru byggðir fyrir meira en 3.000 árum við upphaf Vestur-Zhouveldisins. Fyrsta ritaða heimild um þéttbýli þar sem Changzhou stendur nú, er stjórnsýslusetur (herumdæmi) stofnað árið 221  f.Kr. við upphaf Qinveldisins (221–206 f.Kr.). Það varð áfram svo á tímum Hanveldisins (206 f.Kr.–220 e.Kr.) og eftir árið 129 e.Kr., fór staðurinn undir stjórnsýslu Wu. Þéttbýlið varð fyrst sjálfstæð stjórnsýslueining undir Vestur Jinveldinu árið 280–290 e.Kr. þegar það varð stjórnarsetur nefnt Biling, en síðar Jinling árið 304. [8]

Árið 589 fékk staðurinn núverandi nafn, Chang-hérað, sem þýðir „hið venjulega hérað“.[9] Það var á tímum Suiveldisins (581–618).

Eftir 609, þegar gerð suðurhluta Miklaskurðar lauk, varð staðurinn að síkishöfn og umskipunarhöfn fyrir korn á svæðinu.[8] Það hlutverk hefur haldið æ síðan. Dreifbýlissýslurnar umhverfis Changzhou eru þekktar fyrir framleiðslu á hrísgrjónum, tei, silki, bambus og ávöxtum, auk fiskeldis.[9]

Undir lok Suiveldisins var staðurinn höfuðborg hins skammlífa konungsríkis Li Zitong (619 - 620) sem var bæld niður árið 621.

Á þeim tíma í kínverskri sögu sem kennd er við ættarveldin fimm (907–960) var þéttbýlið fyrst hluti Wu konungsríkisins og síðar Suður- Tangveldisins, og það hélt áfram að dafna.[8]

Á valdatíma Songveldisins (960–1279) og Júanveldisins (1279–1368) var staðurinn rík og blómleg viðskiptamiðstöð.

Eftir 1368 var þéttbýlið um tíma endurnefnt Changchun-hérað, en varð síðan yfirhérað nefnt Changzhou, sem laut stjórnun Nanjing.

Árið 1912 var héraðinu breytt í sýslu í nokkur ár og fékk það þá nafnið Wujin, en það var áfram þekkt í daglegu tali sem Changzhou. Borgin hefur því haldið nafninu í 14 aldir.

Hefðbundið hlutverk Changzhou hefur í aldir verið verslunarmiðstöð, einkum söfnunarmiðstöð fyrir landbúnaðarafurðir, sem var fluttar voru um skurði til norðurs og síðar til Sjanghæ. Bómullartextíliðnaður var fyrst þróaður í borginni á öðrum áratug síðustu aldar og bómullarverksmiðjur voru settar á laggirnar seint á þriðja áratugnum, þegar árásir japanska hersins á Sjanghæ ráku mörg kínversk fyrirtæki til að flytja starfsemi sína.[10]

Borgin hefur frá síðustu öld verið textílmiðstöð, sú mikilvægasta í Jiangsu héraði. Að auki hafa verið byggðar upp í borginni stórar matvælavinnslustöðvar, mjölvinnslur, og fyrirtæki í hrísgrjóna- og olíupressun.

Eftir 1949 þróaðist borgin einnig sem miðstöð iðnaðar. Qishuyan, um 10 kílómetrum suðaustur af Changzhou, er ein stærsta lestar- og bifreiðaverksmiðja Kína. Að auki er í Changzhou framleiðsla dísilvéla, rafala, spennubreyta og landbúnaðar- og textílvéla, sem og ýmissa hátæknivara.[8]

Á tímum „stóra stökksins“ í Kína (1958–60) var einnig reist í borginni mikil stálverksmiðja.

Eftir 1920 var byrjað að byggja bómullarverksmiðjur í Changzhou. Bómullariðnaðurinn fékk uppörvun seint á þriðja áratugnum þegar fyrirtæki fóru að flytja brott frá Sjanghæ vegna hernáms Japana. Ólíkt mörgum kínverskum borgum hélt Changzhou áfram að dafna jafnvel á umróti menningarbyltingarinnar 1966–76.

Mikliskurður, sem fyrst var grafinn undir lok svokallaðs „Vor- og hausttímabils“ í sögu Kína (770–476 f.Kr.) og síðan lengdur tvisvar á valdatíma Suiveldisins og Júanveldisins, liggur í gegnum Changzhou.

Frá árinu 1908 hefur Changzhou verið tengd járnbrautum til Sjanghæ og Nanjing; að auki liggur aðalhraðbraut Peking-Sjanghæ í gegnum borgina.

Landafræði

breyta
 
Horft yfir Tianning hverfi Changzhou.

Héraðsborgin Changzhou er staðsett í suðurhluta Jiangsu-héraðs í Kína. Hún situr á suðurbakka Jangtse-fljóts og liggur í suðri að Tai vatni. Hún er mitt á milli Sjanghæ og Nanjing og er nágranni borganna Suzhou og Wuxi.

Borgin á mörk að héraðshöfuðborginni Nanjing í suðvestri, Zhenjiang í norðvestri, Taizhou-borg í norðaustri, Wuxi í austri og suðri og Zhejiang-héraði í vestri og Xuancheng borg Anhui-héraðs í suðvestri.

Borgin hefur Yili - fjöll í suðvesturhlutanum.

Borgin er mikil vatnaborg með tvö vörn Tiao og Ge, auk þéttriðins nets skurða og vatnaleiða. Í gegnum borgina rennur Peking-Hangzhou hluti Miklaskurðar, Wuyi skurður, Taige skurður, Jingxi fljótið og Suðurskurður. Á síðustu áratugum hafa byggingarframkvæmdir gengið á Furong-vatn, Yang-vatn og Linjin-vatn þannig að þau hafa smá saman minnkað og horfið.

Lýðfræði

breyta

Árið 2020 þegar síðasta manntal var gert í Kína, var íbúafjöldi borgarkjarna Changzhou 4.303.673 en íbúafjöldi undir lögsögu borgarinnar var 5.304.061.

Stjórnsýsla

breyta

Changzhou borg hefur lögsögu yfir 5 hverfum og einni undirborg á sýslustigi. Að auki hefur Changzhou einnig stofnað eftirfarandi fimm iðnþróunarsvæði sem lúta sérstakri stjórnsýslu borgarinnar: Þjóðarhátækniiðngarður Changzhou (Xinbei hverfi); Þjóðarhátækniiðngarður Wujin; Changzhou efnahagsþróunarsvæðið; Qiao bærinn og Yaoguan bærinn sem eru báðir í Wujin hverfi, en undir stjórn Changzhou).[11]

 
Stjórnsýsluskipting Changzhou-borgar í hverfi og undirborg
Stjórnsýsla Changzhou[12]
Undirskipting Kínverska Fólksfjöldi 2020 Stærð (km2)
Miðborg
Tianning hverfi 天宁区 668.906 155
Zhonglou hverfi 钟楼区 658.537 133
Hverfi
Xinbei hverfi 新北区 832.499 509
Wujin hverfi 武进区 1.697.380 1.065
Jintan hverfi 金坛区 585.081 976
Undirborgir
Liyang borg 溧阳市 785.092 1.535
Alls: 5,278,121 4.372

Veðurfar

breyta
 
Frá Tianning hverfi Changzhou.

Changzhou hefur fjögurra árstíða rakt heittemprað loftslag undir áhrifum monsúnvinda, með heitum, rökum sumrum og svölum, skýjuðum vetrum. Sumrin og veturnir eru langir en vorin og haustin stutt. Meðal árstíða er veturinn lengstur, síðan sumarið, þá vorið, en haustið er stysti tíminn. Veturnir eru almennt kaldir, sumrin heit, en vorin og haustin mild.

Vegna mikilla áhrifa monsúnvinda hækkar og lækkar úrkoma og hiti samhliða. Á veturna, þegar hitastigið er lágt, er minni úrkoma; á vorin hækkar hitinn og úrkoman eykst smám saman; á sumrin verður hitinn mestur og úrkoman mikil og fellibylur líklegir; á haustin lækkar hitinn og úrkoman minnkar líka verulega.

Sólskinsstundir á árinu 2011 voru 1940,2 klukkustundir.[13]

Það þykir gott að heimsækja Changzhou á miðju vori og snemma hausts, þá er miðlungs hiti og úrkoma minni.[14]

Veðurfar í Changzhou borg á árunum 1971–2000
Mánuður Jan. Feb. Mar. Apr. Maí Jún. Júl. Ágú. Sep. Okt. Nóv. Des. Árið
Meðalhiti (°C) 7,1 8,6 12,9 19,6 25,1 28,3 31,8 31,6 27,1 22,2 16,0 10,0 20,0
Meðalúrkoma (mm) 44,6 53,7 89,2 81,2 102,4 189,3 171,7 116,1 92,2 68,7 52,7 29,6 1.091,4
Heimild: Kínverska veðurstofan 2012[15]

Menntamál

breyta
 
Ein kennslubygginga Changzhou háskóla.
 
Alþjóðaskóli Changzhou er einkarekinn framhaldsskóli í Xinbei hverfi. Þar eru þúsundir nemenda frá Kína sem og erlendum ríkjum.

Changzhou er mikil menntaborg og þar eru nokkrir sterkir háskólar. Þeirra á meðal eru:

  • Changzhou háskóli sem er byggður á sameiningu ýmissa háskóla- og rannsóknastofnana, á rætur sínar frá árinu 1978. Nemendur þar eru um 23.000.[16][17]
  • Hohai rannsóknarháskólinn (Changzhou háskólasvæðið) var stofnað árið 1995 og inniheldur tvo skóla, viðskiptaskóla og tölvu- og upplýsingatækniskóla.[18]
  • Changzhou tæknistofnunin er háskólastofnun með áherslu á verkfræði, vísindi, stjórnun hagfræði, bókmenntir, og menntun. nemendur þar eru um 14.000.[19]
  • Jiangsu háskóli vísinda og tækni er fjöltækniháskóli með sterka áherslu á upplýsingatækni.

Til að styðja við uppbyggingu vísinda og mennta hefur verið byggð upp „Vísinda-og menntaborg Changzhou“ í Wujin hverfi, en það er alhliða vísinda- og nýsköpunargarður háskólamenntun, hátækni, rannnsóknir- og vísindi, og klasastarf frumkvöðlafyrirtækja. Þar eru ýmsar háskóla- og rannsóknarstofnanir á sviði hátækni og frumkvöðlafyrirtæki.[20]

Changzhou þykir hafa gott grunnskólakerfi þar sem hátt hlutfall barna á skólaaldri eru skráð til skólagöngu. Framhaldsskólarnir hafa sterka áherslu á verkmenntir. Framhaldsskólarnir hafa einnig náð umtalsverðu útskriftarhlutfalli.[21]

Samgöngur

breyta
 
Norðurlestarstöð Changzhou var fullgerð 2011. Þar fer í gegn Peking–Sjanghæ háhraðalestin. Stöðin er tengd borgarlínukerfi (BRT).
 
Changshen hraðbrautin tengir borgirnar Changchun og iðnaðarborgina Shenzhen í Guangdong héraði í suðurhluta Kína.
 
Borgarlestarkerfi Changzhou er í mikilli uppbyggingu. Í dag eru í borginni tvær lestarlínur en verða alls sjö árið 2050.
 
Ein borgarlínustöðva (BRT) í Changzhou.
 
Brottfararsalur Changzhou Benniu alþjóðaflugvallarins.

Changzhou hefur gott samgöngukerfi á landi, vatni og lofti. Borgin býður skilvirkt net almenningssamgangna sem samanstendur af borgarlestum, strætisvögnum, borgarlínum (BRT), langferðabílum og leigubílum.[22]

Almenningssamgöngur eru ríkjandi ferðamáti meirihluta borgarbúa og ferðamanna.[23]

Vegakerfi

breyta

Vegasamgöngur borgarinnar byggja á sveitar-, héraðs- og þjóðvegum eða hraðbrautum, sem tengja borgina við öll hverfi og undirborg undir lögsögu hennar sem og nágrannaborgir. Þessar vegaæðar eru meðal annars:

  • Sjanghæ-Nanjing hraðbrautin sem liggur í gegnum norðurhluta borgarinnar. Það tekur rúma klukkustund að komast keyrandi til Sjanghæ (160 km.) eða Nanjing (110 km.).[24]
  • Þjóðarhraðbraut 312 er ein aðalbraut þjóðvegakerfisins sem tengir nærliggjandi borgir og sýslur. 312 hraðbrautin sem meira en 5.000 kílómetra að lengd, liggur þvert yfir Kína allt frá Sjanghæ austur til landamæra Kasakstan.
  • Yanjiang hraðbraut Jiangsu héraðs, tengist Ningchang hraðbrautinni í suðurhluta Changzhou.Hún tengist síðan inn á Sjanghæ -Wuhan hraðbrautina.
  • Ningchang hraðbrautin, sem er tengd Jangtse hraðbrautinni í suðurhluta Changzhou, er megintengingin við Nanjing borg, Sjanghæ og borgir meðfram Jangtse fljóti eins og Jiangyin, Zhangjiagang og Changshu.
  • Changshen hraðbrautin er hraðbraut sem tengir saman borgirnar Changchun við Shenzhen, í Guangdong héraði. Hraðbrautin mun ná til mjög margra borga norður af Changchun. Þegar uppbyggingu hennar lýkur mun brautin vera um 3.585 kílómetra.

Járnbrautir

breyta

Changzhou borg er mjög vel tengd lestarkerfi Austurhluta Kína. Changzhou stöðin sem er rétt sunnan við Yangtse-fljót, er staðsett við hina upprunalegu Peking-Sjanghæ járnbraut. Með lestinni eru tengingar við margar borgir Kína.[25]

Norðurlestarstöð Changzhou sem var fullgerð árið 2011, er staðsett í Xinbei hverfinu í norðurhluta Changzhou. Þar fer í gegn Peking–Sjanghæ háhraðalestin. Það tekur 4 klukkustundir og 51 mínútur að komast til Suðulestarstöðvar Peking og 40 mínútur að ná til Sjanghæ.

Tvær stöðvar í Changzhou borg tengjast einnig hinum annasömu Sjanghæ–Nanjing milliborgarlestum. Lestarferð til Nanjing tekur um 39 mínútur og um 58 mínútur til Sjanghæ.

Borgarlestir

breyta

Nýlegt borgarlestarkerfi Changzhou er í dag með tvær línur í rekstri sem ná yfir 54 kílómetra. Árið 2019 fóru um 10 milljónir farþegar. Metnaðarfull áform eru um uppbyggingu borgarlestarkerfisins. Árið 2050 mun kerfið ná alls yfir 330 kílómetra og telja 7 lestarlínur með 209 lestarstöðvum.

Strætisvagnar og hraðvagnakerfi

breyta

Changzhou hefur öflugt strætisvagnakerfi sem liggur til allra borgarhluta. Aðalstrætisvagnastöðin er við Norðurlestarstöð borgarinnar.

Til að draga enn úr umferðarþunga í borginni var árið 2008 opnað nýtt hraðvagnakerfi (borgarlínukerfi) (BRT) sem er 40 kílómetra hraðflutningakerfi strætisvagna. Í dag eru tvær slíkar borgarlínur reknar á sérætluðum akreinum fyrir þessa strætisvagna. Fyrirhuguð er mikil uppbygging þessa samgöngukerfis.[26]

Borgarhöfn

breyta

Changzhou er vatnaborg með net skurða og skipgengra vatnaleiða. Höfn borgarinnar við Jangtse fljót er ein af helstu höfnum fljótsins, sem síðan býður tengingar til hafs. Peking-Hangzhou skipaskurðurinn sem er hluti Miklaskurðar fer í gegnum borgina. Meira en milljón tonna farmflutninga fara um Changzhou höfn á ári.[27]

Flugsamgöngur

breyta

Alþjóðaflugvöllur Changzhou Benniu er meginflughöfn Changzhou borgar. Þar eru boðnar innlendar og alþjóðlegar tengingar. Flugvöllurinn er staðsettur um 18 kílómetra norðvestur af miðborg Changzhou. Á honum er ein flugstöð fyrir borgaralegt flug bæði innanlandsflug og alþjóðlegt. Árið 2019 afgreiddi flugvöllurinn um 4.1 milljónir farþega og um 33.000 tonn af farmi.

Tengt efni

breyta
 
Aðalbókasafn Changzhou-borgar.

Heimildir

breyta
  • Fyrirmynd greinarinnar var „Changzhou“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 7. ágúst 2022.
  • „Britannica: Changzhou“. The Editors of Encyclopaedia. 21. nóvember 2021. Sótt 7. ágúst 2022.

Tilvísanir

breyta
  1. „China: Jiāngsū (Prefectures, Cities, Districts and Counties) – Population Statistics, Charts and Map“. www.citypopulation.de. Sótt 21. júní 2023.
  2. „local leadership information“. Afrit af upprunalegu geymt þann 6. mars 2022. Sótt 7. mars 2022.
  3. Bulletin of the Seventh National Population Census of Jiangsu Province (18. maí 2021). „Seventh National Population Census of the People's Republic of China“. Jiangsu Provincial Bureau of Statistics. Sótt 9. ágús 2022.
  4. „Borgir Kína eftir fólksfjölda“, Wikipedia, frjálsa alfræðiritið, 15. ágúst 2022, sótt 16. ágúst 2022[óvirkur tengill]
  5. General Office and Foreign Affairs Office of Changzhou Municipal People’s Government. „Attractions Card“. Changzhou Municipal People’s Government. Sótt 10. ágúst 2022.
  6. „天宁寺 (常州)“, 维基百科,自由的百科全书 (kínverska), 3. febrúar 2022, sótt 12. ágúst 2022
  7. „常州科教城“, 维基百科,自由的百科全书 (kínverska), 24. júní 2022, sótt 12. ágúst 2022
  8. 8,0 8,1 8,2 8,3 The Editors of Encyclopaedia (21. 2021). „Britannica: Changzhou“. The Editors of Encyclopaedia. Sótt 7. ágúst 2022.
  9. 9,0 9,1 „Changzhou“, Wikipedia (enska), 29. júlí 2022, sótt 11. ágúst 2022
  10. „常州市“, 维基百科,自由的百科全书 (kínverska), 24. júní 2022, sótt 11. ágúst 2022
  11. „常州市“, 维基百科,自由的百科全书 (kínverska), 24. júní 2022, sótt 10. ágúst 2022
  12. „常州市“, 维基百科,自由的百科全书 (kínverska), 24. júní 2022, sótt 10. ágúst 2022
  13. 大汉网络 (1. apríl 2012). „江苏省气象局网站“. Jsmb.gov.cn. Afrit af upprunalegu geymt þann 11. desember 2018. Sótt 14. ágúst 2017.
  14. Travel China Guide (11. júní 2020). „Changzhou Weather“. Travel China Guide. Sótt 9. ágúst 2022.
  15. „常州市“, 维基百科,自由的百科全书 (kínverska), 24. júní 2022, sótt 11. ágúst 2022
  16. „FACTS“. eng.cczu.edu.cn. Afrit af upprunalegu geymt þann 17. ágúst 2022. Sótt 13. ágúst 2022.
  17. „常州大学“, 维基百科,自由的百科全书 (kínverska), 24. júní 2022, sótt 13. ágúst 2022
  18. „河海大学“, 维基百科,自由的百科全书 (kínverska), 1. júlí 2022, sótt 13. ágúst 2022
  19. „常州工学院“, 维基百科,自由的百科全书 (kínverska), 24. júní 2022, sótt 13. ágúst 2022
  20. „常州科教城“, 维基百科,自由的百科全书 (kínverska), 24. júní 2022, sótt 13. ágúst 2022
  21. Jiangsu.net. „Changzhou: General Information: Education“. Jiangsu.net. Sótt 11. ágúst 2022.
  22. „常州市“, 维基百科,自由的百科全书 (kínverska), 24. júní 2022, sótt 13. ágúst 2022
  23. Jiangsu.NET. „Changzhou: Transportation and Tourism“. Jiangsu.NET. Sótt 10. ágúst 2022.
  24. „常州市“, 维基百科,自由的百科全书 (kínverska), 24. júní 2022, sótt 13. ágúst 2022
  25. „常州市“, 维基百科,自由的百科全书 (kínverska), 24. júní 2022, sótt 13. ágúst 2022
  26. „常州快速公交“, 维基百科,自由的百科全书 (kínverska), 30. júlí 2022, sótt 13. ágúst 2022
  27. „常州市“, 维基百科,自由的百科全书 (kínverska), 24. júní 2022, sótt 13. ágúst 2022