Carlo Ginzburg (fæddur í Tórínó 1939) er ítalskur sagnfræðingur og frumkvöðull á sviði einsögu. Þekktastar eru rannsóknir hans á alþýðumenningu og þjóðtrú við upphaf nýaldar, á 16. og 17. öld. Rannsóknir hans á skjölum rannsóknarréttarins vörpuðu nýju ljósi á nornafárið og tengsl þess við alþýðuhefðir í sveitum Evrópu. Rannsóknir hans miðast oft við óvenjulega (og þar með ódæmigerða) einstaklinga, þorpssamfélög eða litla hópa fólks, andstætt félagssögunni sem reynir að varpa ljósi á líf alþýðufólks fyrri tíma með aðferðum félagsfræðinnar og rannsóknum á stórum heildum.

Ginzburg er sonur ritstjórans og menningarvitans Leone Ginzburg og rithöfundarins Nataliu Ginzburg. Hann lærði við háskólann í Písa og kenndi síðan sagnfræði við Bologna-háskóla, og háskólana Harvard, Yale og Princeton. 1998 fékk hann rannsóknarstöðu við Kaliforníuháskóla í Los Angeles. Meðal þekktustu rita hans eru I benandanti (Einaudi, 1966) og Storia notturna: Una decifrazione del Sabba (Einaudi, 1989), sem varpa nýju ljósi á nornafárið í Evrópu, og Il formaggio e i vermi (Einaudi, 1976) sem talið er marka upphafið að einsögunni sem sérstakri stefnu innan sagnfræði.