Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns

Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns er skrá yfir ásigkomulag jarða og hag landsmanna á Íslandi sem gerð var árin 1702-1714.

Friðrik 4. Danakonungur gaf út erindisbréf vorið 1702 til handa Árna Magnússyni og Páli Vídalín. Erindisbréfið var í 30 greinum og var þeim falið að gera úttekt á öllum bújörðum landsins en jafnframt að hafa eftirlit með öllum opinberum eigum og kanna hvort of miklar kvaðir væru lagðar á bændur. Skyldu þeir meðal annars skrá dýrleika (verðmat) jarðanna, landskuld, kúgildatölu og kvaðir á hverri jörð, auk hlunninda sem þeim fylgdu, og skrá nákvæmlega fjölda búpenings á hverri jörð. Einnig áttu þeir að sjá til þess að gert yrði manntal á öllu landinu og ýmis fleiri verkefni voru þeim falin.

Þeir Árni og Páll hófu störf þegar sumarið 1702, ferðuðust um landið og hófu skráninguna í Dalasýslu. Upphaflega stóð til að láta hvern bónda fyrir sig skrá upplýsingar um jörð sína en það gekk ekki upp, enda margir illa eða ekki skrifandi, og varð úr að bændum og jarðeigendum var stefnt saman á ákveðna staði þar sem Árni og Páll spurðu þá spjörunum úr. Verkið tók mörg ár, enda ekki hægt að vinna það nema á sumrin og ýmislegt varð til að tefja, svo sem Stórabóla 1707, og lauk því ekki fyrr en á árunum 1712-1714. Manntalið var aftur á móti tekið árið 1703.

Jarðalýsingarnar voru svo fluttar til Kaupmannahafnar og varðveittar þar, nema hvað lýsingar jarða úr Múla- og Skaftafellssýslum brunnu í eldinum í Kaupmannahöfn 1728. Jarðabókin var svo gefin út á árunum 1913-1943 og er ómetanleg og raunar einstök heimild um jarðir og búskap um allt land. Hið íslenska fræðafélag í Kaupmannahöfn gaf Jarðabókina út.