Laxá á Ásum
Laxá á Ásum, stundum kölluð Neðri-Laxá, er bergvatnsá á Ásum í Austur-Húnavatnssýslu, um 14 km að lengd. Hún var lengi gjöfulasta og dýrasta laxveiðiá landsins þótt dregið hafi úr veiðinni á síðari árum. Áin fellur úr Laxárvatni en í það fellur aftur Fremri-Laxá úr Svínavatni. Laxá á Ásum rennur svo í Húnavatn, sem Vatnsdalsá fellur einnig í, og síðan um Húnaós í Húnaflóa.
Áin er fremur vatnslítil en í hana hefur oftast gengið mjög mikið af laxi og gat áin áður fyrr gefið gífurlega mikla veiði, allt að 1800 laxa á þriggja mánaða tímabili. Hefur jafnvel verið fullyrt að hún hafi verið besta laxveiðiá í heimi en á árunum fyrir 1990 var áin ofveidd og stofninn lét verulega á sjá. Þar er nú aðeins leyfð fluguveiði og er veiðin á uppleið að nýju. Margir heimsfrægir menn hafa í áranna rás veitt í Laxá og sumir koma ár eftir ár.
Laxá var virkjuð um 1930 til að afla rafmagns fyrir Blönduós og nærliggjandi sveitir og var þá gerð stífla sem myndaði uppistöðu (Laxárvatn). Þar var gerður laxastigi svo að laxinn kæmist áfram upp í Fremri-Laxá.
Tengill
breyta- Openstreetmap Laxá á Ásum