Vatnsdalsá er á sem rennur um Vatnsdal í Austur-Húnavatnssýslu. Áin er dragá sem safnar í sig vatni af Haukagilsheiði og Grímstunguheiði og þar sem hún rennur niður í Vatnsdal í miklum gljúfrum eru í henni allmargir fossar. Efstur þeirra er Skínandi og neðar Kerafoss og Rjúkandi. Neðar í ánni eru Dalsfoss og Stekkjarfoss. Við hann er laxastigi. Aðrar ár og lækir renna í Vatnsdalsánna eins og til dæmis Tunguá, Álka og Kornsá.

Stekkjarfoss í Vatnsdalsá.

Vatnsdalsá er ein besta laxveiðiá landsins og þar er einnig mjög góð silungsveiði. Mikið er um stórlaxa í ánni en stangveiðar hófust þar 1936; áður var eingöngu stunduð netaveiði í ánni. Besti veiðistaðurinn er Hnausastrengur. Eingöngu er veitt á flugu í Vatnsdalsá.

Vatnsdalsá rennur í stöðuvatnið Flóðið, sem myndaðist við skriðuföll í Vatnsdal árið 1720, en áin sem úr því rennur nefnist Hnausakvísl.