Atlantshafsþorskur

Atlantshafsþorskur (fræðiheiti: Gadus morhua) er vinsæll matfiskur af ættkvísl þorska (Gadus). Hann verður allt að tveir metrar á lengd, gulur á hliðina og hvítur á kvið. Hann lifir í grunnsævi frá fjöru að enda landgrunnsins við strendur Bandaríkjanna, Kanada, Grænlands og Íslands og við vesturströnd Evrópu, allt frá BiskajaflóaBarentshafi.

Atlantshafsþorskur
Atlantshafsþorskur
Atlantshafsþorskur
Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríki (Animalia)
Fylking: Seildýr (Chordata)
Flokkur: Geisluggar (Actinopterygii)
Ættbálkur: Þorskfiskar (Gadiformes)
Ætt: Þorskaætt (Gadidae)
Ættkvísl: Þorskur (Gadus)
Tegund:
Gadus morhua

Tvínefni
Gadus morhua
Linnaeus, 1758
Atlantshafsþorskur.

Þorskur er algengur allt í kringum Ísland. Hann er botnfiskur og er algengastur á 100-400 metra dýpi.

Lýsing breyta

 
Þorskur (Gadus morhua)
Þorskur hefur þrjá bakugga og tvo raufarugga‎

Þorskur er straumlínulaga fiskur, kjaftstór og með skeggþráð á höku. Fiskurinn notar skeggþráðinn til að leita að fæðu á sjávarbotni. Litur er breytilegur eftir aldri og umhverfi en oftast eru þorskar gulgráir á baki og hliðum með dökkum deplum. Ungir þorskar eru rauðleitir eða brúnir, þeir lifa gjarnan í þaraskógum og þessir litir falla vel inn í umhverfið þar. Eldri þorskar eru oft gulgráir með dökkum blettum að ofan og á hliðum og ljósari að neðan. Bakuggar þorsks eru þrír og raufaruggar tveir, eyruggar eru stórir og rákin er mjög greinileg.[1]

Heimkynni breyta

Þorskurinn lifir í Norður-Atlantshafi. Í eystri hluta hafsins er hann frá Svalbarða í Barentshafi og suður í Biskajaflóa, en í vestri við Grænland og frá Hudsonflóa og Baffinslandi suður til Hatterashöfða í Bandaríkjunum.[2] Ókynþroska smáfiskur er mest fyrir norðvestan, norðan og austan hérlendis, en stærri fiskur er frekar fyrir sunnan og suðvestan land.[3]

Lífshættir breyta

Þorskurinn er botnfiskur sem lifir frá nokkurra metra dýpi niður á 600 m eða dýpra. Algengastur er hann á 100-400 m dýpi, á sand- og leirbotni sem og hraun- og kóralbotni. Við suðurströndina verður þorskurinn fyrst kynþroska 3-5 ára en við norðurströndina 4-6 ára.[2] Hrygningin hefst venjulega síðari hluta mars hérlendis og er lokið í byrjun maí, aðallega á grunnum undan Suðurlandi frá Reykjanesi austur í Meðallandsbug. Hún fer fram á um 50-100 m dýpi miðsævis og getur fjöldi eggja verið frá hálfri milljón upp í 10-15 milljónir. Hrygna getur verið að hrygna í 6-8 vikur, í minni skömmtum með 2-3 daga millibili. Klak tekur 2-3 vikur og eru lirfur um 5 mm við klak. Þegar seiðin eru um 5-8 cm löng leita þær botns. Vöxturinn er mjög breytilegur eftir hafsvæðum. Undan Norður- og Austurlandi er algeng lengd í afla 55-70 cm og 1,5-3 kg á þyngd en á vetrarvertíð við Suðvesturland 70-90 cm og 3-7 kg á þyngd, en stærð hans eftir aldri fer mikið eftir ástandi loðnustofnsins við landið. Virðist hann þurfa að ná a.m.k. 50 cm lengd áður en hann verður kynþroska. Getur þorskurinn orðið hátt í tveir metrar á lengd og var sá elsti sem veiðst hefur við Íslandsstrendur 17 ára gamall.[3]

Fæða og óvinir breyta

Fæða hans er mjög margvísleg og fer eftir ýmsu. Smáfiskur étur mest hryggleysingja eins og ljósátu, marflær og rækju. Eftir það er loðnan langmikilvægust og einnig étur hann síli, en stærsti þorskurinn étur stærri fisktegundir eins og karfa, smáþorsk, kolmunna o.fl. Fyrir utan manninn er fullorðinn þorskur eftirsótt fæða af sel, hvölum og hákarli. Lirfur og seiðin verða gjarnan fyrir ásókn smáfiska og sjófugla. Innvortis hrjá hann m.a. hringormar, en útvortis eru smákrabbategundir sem geta valdið honum skaða.[3]

Nytsemi breyta

Þorskur er langmikilvægasta nytjategund Íslendinga. Verðmæti aflans eru um 35-40% þó hann sé aðeins um 10-15% af heildarafla. Hann veiðist helst í botntroll, á línu og í net en einnig á handfæri og í dragnót, um allt land en mest um vetrartímann. Á síðustu 30 árum hefur aflinn verið frá 160-470 þús. tonn á ári og var heildarafli Íslendinga 2007 187 þús. tonn.[4] Stærstur hluti þorsksins er saltaður, en svipað mikið er ísað um borð og unnið í landi. Einnig er hann ísfrystur eða fluttur ferskur með flugi. Helstu útflutningsmarkarðir eru Bretland og Spánn, þar næst Portúgal og Holland.[5]

Tilvísanir breyta

  1. Náttúrufræðistofa Kópavogs (2002). ÞORSKUR (Gadus morhua). Sótt 31. júlí 2009 frá Vef Náttúrufræðistofnun Kópavogs.
  2. 2,0 2,1 Hafrannsóknarstofnunin (e.d.). Helstu nytjastofnar: Þorskur. Sótt 27. apríl frá Vef Hafrannsóknarstofnuninnar.
  3. 3,0 3,1 3,2 Karl Gunnarsson, Gunnar Jónsson, & Ólafur Karvel Pálsson (1998). Sjávarnytjar. Reykjavík: Mál og menning.
  4. Þorsteinn Sigurðsson, & Guðmundur Þórðarson (2008). Ástand nytjastofna á Íslandsmiðum 2007/2008 - aflahorfur fiskveiðiárið 2008/2009, fjölrit nr. 138. Reykjavík: Hafrannsóknarstofnunin.
  5. Upplýsingaveita Sjávarútvegs- og Landbúnaðarráðuneytisins (2008). Cod - Processing and Markets. Sótt 30. apríl 2009 frá Icelandic Fisheries Geymt 10 maí 2015 í Wayback Machine.

Tengt efni breyta

   Þessi líffræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.