Þyngd hlutar er sá kraftur sem verkar á hlut af völdum þyngdarsviðs. Í daglegu tali eru hugtökin þyngd og massi oft notuð jöfnum höndum þótt í raun sé um tvö aðskilin fyrirbrigði að ræða. Það kemur þó yfirleitt ekki að sök þar sem þyngd hlutar er í réttu hlutfalli við massa hans þegar þyngdarsviðið breytist ekki. Auk þess eru einingar massa oft notaðar þegar rætt er um þyngd í daglegu tali (t.d. kílógrömm), svo þessi ónákvæmni veldur ekki vandkvæðum.

Fjaðurvog.

Málið verður hins vegar flóknara þegar þyngdarsviðið breytist. Ef 80 kg geimfari fer til tunglsins er massi hans óbreyttur - 80 kg. Þyngd hans (krafturinn sem tunglið togar í geimfarann með) er hins vegar orðin mun minni, eða sú sama og þyngd 13 kg hlutar hér á jörðinni.

Þess ber líka að geta að þyngdarsvið jarðarinnar er ekki nákvæmlega það sama alls staðar á yfirborði plánetunnar, svo hlutir hafa í raun örlítið mismunandi þyngd á mismunandi stöðum á jörðinni. Af þeim völdum er nauðsynlegt að stilla nákvæmar vogir fyrir þá staði sem þær eru á.

Þyngdarlögmálið skýrir þyngd með aðferðum sígildrar aflfræði, en afstæðiskenningin er skýring nútímaeðlisfræðinnar á þyngd með s.n. tímarúmi.

Einingar massa og þyngdar breyta

Einingarnar sem notaðar eru um massa og þyngd eru oft svipaðar eða þær sömu, eins og fram kemur að ofan, og er ástæðan sú að þegar þessar einingar voru valdar var mismunur þyngdar og massa ekki vel skilinn.

Þar sem þyngd er kraftur, eru einingar þyngdar (eins og vísindamenn nota þær), þær sömu og einingar krafts. SI-eining þyngdar er þess vegna njúton (N), sem einnig er hægt að tákna sem kg m/s2. SI-eining massa er kílógramm (kg). Þegar orðið kílógramm er notað um þyngd er átt við þann kraft sem verkar á eins kílógramms massa í staðalþyngdarsviði (sem er mjög svipað þyngdarsviði jarðarinnar við sjávarmál).

Mælingar á þyngd breyta

Þyngd (eða massa) hlutar má mæla á óbeinan hátt með vog sem notast við lóð. Þá er þyngd hlutarins borin saman við annan hlut með þekkta þyngd (eða massa). Þessi aðferð er óháð þyngdarsviði.

Með hefðbundum baðvogum er þyngd mæld með kraftnemum, sem nema kraftinn sem verkar á yfirborð vogarinnar. Þessar vogir skila mismunandi niðurstöðu eftir því í hve sterku þyngdarsviði þær eru, og því þarf að stilla þær ef ætlunin er að mæla með þeim massa (eins og oftast er raunin).

Hlutfallsleg þyngd hluta á ýmsum hnöttum breyta

Neðangreindur listi sýnir hlutfallslega þyngd hlutar með tiltekinn massa á reikistjörnunum, miðað við þyngd hans á jörðinni.

Merkúríus 0,378
Venus 0,907
Jörðin = 1
Tunglið 0,166
Mars 0,377
Júpíter 2,364
Satúrnus 1,064
Úranus 0,889
Neptúnus 1,125
   Þessi eðlisfræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.