Ljósáta (fræðiheiti: euphausia) er dýrasvif sem flokkast undir krabbafló. Hún lifir helst á sviflægum þörungum.

Ljósáta
Northern krill (Meganyctiphanes norvegica)
Northern krill (Meganyctiphanes norvegica)
Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríki (Animalia)
Fylking: Liðdýr (Arthropoda)
Undirfylking: Krabbadýr (Crustacea)
Flokkur: Malacostraca
Yfirættbálkur: Eucarida
Ættbálkur: Euphausiacea
Dana, 1852
Families and genera
Euphausiidae
Bentheuphausiidae

Útlit

breyta

Búk hennar er skipt í höfuð, frambol og afturbol, heil skel hylur höfuðið og frambolinn en afturbolurinn er liðskiptur og skiptist hann í sex liði og er sér skjöldur á hverjum lið. Undir frambolnum eru þunnir og langir fætur en undir afturbolnum eru stuttir og digrir fætur og eru raðir fóta sem liggja eftir búk dýrsins. Ljósátan er með áberandi greinótt tálkn neðan við skjalarröndina aftan til á frambolnum. Undir frambol og afturbol eru ljósfæri sem lýsa í myrkri og er af því sem ljósátan ber nafn sitt. Ljósátan er ljósgul á lit en er oft með rauðgulan frambol.

Lifnaðarhættir

breyta

Ljósátan heldur sig oftast í efstu lögum sjávar og er hún mikilvæg fæða margra dýrategunda og má þar nefna, sumar mörgæsategundir, fiska, smokkfiska og hvala og er hún ein lykilfæðutegund reiðarhvala (Balaenoperidae). Sumar tegundir ljósáta geta lifað allt að sex árum á meðan aðrar tegundir ná aðeins sex til átta mánuðum. Talið er að forfeður ljósátunnar hafi verið uppi fyrir um 130 milljónum ára. Suðurhafsljósátan (Euphausia superba) lifir í Suður-Íshafi og er undirstöðufæða fyrir margar tegundir stórhvala sem eru á hafsvæðinu við Suðurskautslandið að sumri til, selir og mörg önnur sjávardýr byggja líf sitt beint eða óbeint á þessu krabbadýri. Suðurhafsljósátan er alls ekki stórt dýr en af ljósátu að vera telst hún stór, hún er oftast um 6 cm á lengd og vegur um tvö grömm. Á sumrin þegar mest er af tegundinni er talið að heildarmagn hennar sé um 500 milljónir tonna eða um 250 billjón einstök dýr ef miðað er við tveggja gramma þyngd. Suðurhafsljósátan er því líklega ein einstaklingsríkasta dýrategundin sem lifir á jörðinni.

Mökunartími ljósáta er misjafn á milli tegunda og hitastigs sjáfar. Karlkyns ljósátan setur sæðis poka við op kynfæra kvenkyns ljósátanna, kvenkyns ljósátan getur borið nokkur þúsundir eggja í eggjastokkunum á sér og getur það vegið allt að einum þriðja af þunga dýrsins. Ljósátur geta eignast mörg afkvæmi með nokkurra daga millibili. Tvær misjafnar hrygningar aðferðir eru þekktar meðal ljósáta, önnur er að kvendýrið losar frjóvguð egg í vatnið þar sem þau sökkva oftast, dreifast um og þurfa að hugsa um sig sjálf. Hin er að kvendýrið ber utan á sér einkonar poka sem er fullur af frjóvguðum eggjum þangað til afkvæmin klekjast út. Myndin sýnir kvenkyns ljósátu sem ber frjóvguð eggin utan á sér.

Veiðar

breyta

Árlega er veitt um það bil 100 til 120 þúsund tonn af suðurhafsljósátunni en það er um einn fimmti af þeim kvóta sem leyft er að veiða af Náttúruverndarsamtökum Suðurskautshafsins (CCAMLR). Meðal helstu veiðiþjóða suðurhafsljósátu eru Suður-Kórea, Noregur, Japan og Rússland en einnig hafa Kínverjar, Pólverjar, Úkraína og Bandaríkin tekið þátt í því að veiða þetta dýr. Margar veiðiaðferðir hafa verið prófaðar og eru þær í stöðugri þróun.

Nytjar

breyta

Úr ljósátunni er aðallega unnið dýra og fiskafóður en einnig er unnið úr henni lýsi (omega3). Einnig er ljósátan notuð sem beita við sportveiðar og notuð í lyfjaiðnaðinum. Það er lítill en stækkandi markaður fyrir ljósátuolíu sem fæðubótarefni og er búið að birta tvær rannsóknir um ágæti hennar, tilraunirnar sýndu að hún lækkaði lípíð og minnkaði gigtar verki. Ljósátan er algeng á matarborðum í Japan og í Rússlandi en hún kallast okami á japönsku. Ljósátan er sölt á bragðið og er aðeins sterkari en rækjan en það þarf að pilla skelina af henni líkt og með rækjur en skelin er eitruð. Víða um heim á mikil þróunarvinna sér stað þar sem unnið er að því að bæta vinnsluaðferðir og auka aflaverðmæti. Navis er eitt af þeim fyrirtækjum sem ætlar sér að taka þátt í hönnun nýrra skipa til veiða þessa dýrs en það er staðsett hér á landi.

Heimildir

breyta
  • Fyrirmynd greinarinnar var að hluta til „Krill“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 13. nóvember 2012.
  • Fjaran og Hafið. (e.d.) Ljósáta (Euphausiacea) Geymt 4 mars 2016 í Wayback Machine . sótt 13.11.2012
  • „Sjávardýrið krill er ein helsta fæða mörgæsa. Hvert er íslenska nafn þessa sjávardýrs“. Vísindavefurinn. (Skoðað 8.4.2013).
  • Navis ehf Geymt 5 mars 2016 í Wayback Machine. (e.d.) Navis vinnur skýrslu um veiðar og vinnslu ljósátu (Krill) fyrir kínverskar útgerðir. Sótt 13.11.2012