Internetið

alþjóðlegt kerfi tölvuneta
(Endurbeint frá Alnetið)

Internetið er alþjóðlegt kerfi tölvuneta sem nota IP-samskiptastaðalinn til að tengja saman tölvur um allan heim og myndar þannig undirstöðu undir ýmsar netþjónustur, eins og veraldarvefinn, tölvupóst og fleira. Í daglegu tali er oft talað um netið þegar átt er við Internetið.

Myndræn framsetning á tengingum hluta netsins

Internetið hefur orðið vettvangur fyrir alls kyns nýja samskiptatækni (stundum kallaðir nýmiðlar) og hefur haft mikil áhrif á eldri samskiptatækni. Í sumum tilvikum hefur netið nánast útrýmt eldri samskiptatækni, eins og t.d. póstsendingum bréfa. Fjölmiðlun fer nú í auknum mæli fram á netinu, samhliða ljósvakamiðlum og prentmiðlum.

Internetið er upprunnið í Bandaríkjunum og er enn að mestu á forræði þeirra. Internetið er ekki miðstýrt en bandaríska einkafyrirtækið ICANN hefur yfirumsjón með mikilvægustu nafnrýmum netsins, IP-talnakerfinu og lénakerfinu, þar á meðal úthlutun rótarléna. Fyrirtækið rekur stofnunina IANA samkvæmt samkomulagi við ríkisstjórn Bandaríkjanna frá 1998 en áður var hún rekin af upplýsingatæknistofnun University of Southern California.

Á Íslandi er boðið upp á lén sem enda á .is en þó eru ekki öll þau lén á íslensku né endilega á Íslandi. Sum eru í eigu erlendra fyrirtækja en íslensk fyrirtæki geta líka staðsett vélbúnað sem hýsir íslensk lén á erlendri grundu með erlendum IP-tölum. Á sama hátt eru t.d. sumar íslenskar síður á öðru léni en .is, oftast .com, en t.d. líka .org sbr. þessa síðu, en íslenskan segir ekki endilega til um að síðan sé staðsett á Íslandi. IP-tölur, en ekki lén (eða tungumál), segja til um hvort gögn síðunnar komi frá Íslandi eða útlöndum.

Notkun Internetsins eftir löndum.
Notkun Internetsins eftir löndum.
 
Netkaffi spruttu upp um allan heim á 10. áratug 20. aldar.

Rannsóknarstofnunin Advanced Research Projects Agency (ARPA eða DARPA) var sett á stofn innan varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna í kjölfar Spútnikáfallsins 1957 þegar Bandaríkjamenn töldu sig hafa dregist aftur úr Sovétríkjunum í tækniþróun. Eitt af fyrstu verkefnum ARPA var að hanna tækni til að tryggja að samskiptanet Bandaríkjahers þyldu áföll og til að tengja saman tölvur ólíkra höfuðstöðva hersins. J. C. R. Licklider var settur yfir verkefnið árið 1962. Eftirmaður hans, Ivan Sutherland, fékk Lawrence Roberts til að hanna tölvunet með pakkabeiningu sem verkfræðingurinn Paul Baran hafði rannsakað fyrir bandaríska flugherinn.

Roberts varð síðan yfirmaður í verkefninu og þróaði fyrstu útgáfuna af því sem síðar varð ARPANET. Netið var sett upp 29. október 1969 milli Kaliforníuháskóla í Los Angeles og Stanford Research Institute í Kaliforníu sem var undir stjórn frumkvöðulsins Douglas Engelbart. Upphaflega notaðist netið við samskiptastaðalinn Network Control Program (NCP) en 1983 skipti ARPANET yfir í TCP/IP sem var mun sveigjanlegri staðall. Nafnið „Internet“ var fyrst notað til að lýsa neti byggðu á TCP/IP-samskiptareglunum árið 1974. 1987 varð til NSFNET sem tengdi háskóla í Bandaríkjunum og víðar og opnaði Internetið fyrir almennri notkun.

Fyrsta tengingin við Internetið frá öðru landi var við rannsóknarstofnunina NORSAR í Noregi og University College London um gervihnött árið 1973. Á Íslandi tengdist Hafrannsóknarstofnun EUnet með UUCP-tengingu árið 1986 og Orkustofnun og Reiknistofnun Háskóla Íslands tengdust henni, en fyrsta IP-tengingin við útlönd var frá Tæknigarði við Háskóla Íslands 21. júlí 1989. Áætlaður fjöldi Íslendinga á Internetinu var um 5 þúsund árið 1995 (þar af 3 þúsund virkir) en aðeins 10 tölvur á Íslandi voru nettengdar árið 1988.[1]

Upphaflega var Internetið hugsað fyrst og fremst til að tengja saman opinberar stofnanir, rannsóknarstofnanir og háskóla en árið 1988 var opnað fyrir tengingar við net sem rekin voru í hagnaðarskyni. Fyrsta tengingin var við MCI Mail, einkarekna tölvupóstþjónustu sem hafði verið stofnuð árið 1983. Einkareknir þjónustuaðilar urðu til sem buðu upp á tengingu við heimili og fyrirtæki um mótald gegn gjaldi og önnur vinsæl net, eins og Usenet og BITNET, tengdust Internetinu og sameinuðust því síðar.

Árið 1990 var ARPANET lagt niður og tengingar þess teknar yfir af NSFNET. Veraldarvefurinn var fyrst kynntur árið 1991 og fyrsti margmiðlunarvafrinn, Mosaic, varð til árið 1993 og Netscape Navigator kom á markað árið eftir. Á þessum tíma var mikil almenn umræða um Internetið og möguleika þess og tölvueign, sem áður takmarkaði notkun, var farin að aukast vegna útbreiðslu netsins fremur en öfugt. Netnotkun tvöfaldaðist á hverju ári en um leið var mikill og greinilegur munur á notkun þess á Vesturlöndum og í þróunarríkjum sem hefur aukist með tímanum.

Umræðan um framtíðarmöguleika Internetsins leiddi til þess að fjárfestar fengu ofurtrú á vaxtarmöguleikum tæknifyrirtækja. Fyrirtæki á borð við Microsoft, Yahoo og AOL juku virði sitt gríðarlega á hlutabréfamörkuðum og lítil nýsköpunarfyrirtæki á sviði tækniþróunar áttu greiðan aðgang að fjármagni. Netbólan sprakk svo árin 2000–2001 þegar í ljós kom að væntingar fjárfesta voru ekki í takt við arðsemi fyrirtækjanna sem sum hver gerðu slæma yfirtökusamninga til að viðhalda vexti hvað sem það kostaði, og upp komst um nokkur mál þar sem bókhaldssvikum var beitt til að fegra stöðu fyrirtækja. Niðurstaðan var sú að NASDAQ-vísitalan þar sem tæknifyrirtæki eru fyrirferðamikil féll og trú fjárfesta á framtíð upplýsingatæknifyrirtækja minnkaði mikið. Hlutabréfahrunið olli niðursveiflu í hagkerfum margra vestrænna ríkja. Þegar upp er staðið hafði hrunið þó meiri áhrif á hlutabréfamarkaðina en fyrirtækin sjálf sem flest lifðu það af.

Heimildir

breyta
  1. Mál málanna í íslenskum tölvuheimi í dag

Tenglar

breyta