Netbólan
Netbólan var efnahagsbóla sem stóð frá 1995 til 2000 eða þar um bil og náði hámarki 10. mars 2000 þegar hlutabréfavísitala NASDAQ-hlutabréfamarkaðarins náði 5132,52 stigum. Bólan stafaði af ofmati á vaxtarmöguleikum Internetgeirans. Megineinkenni bólunnar var að fjárfestar viku til hliðar arðsemiskröfu til tæknifyrirtækja vegna væntinga um hraðan vöxt og hækkun hlutabréfaverðs í kjölfarið. Næstu mánuðina eftir að hámarkinu var náð fór síðan allt loft úr bólunni og hlutabréfaverð tæknifyrirtækja lækkaði hratt. Hrunið átti sér þó ekki stað á einu bretti heldur stóð yfir frá 2000 til 2002. Hryðjuverkin 11. september 2001 bættu enn á vandræði hlutabréfamarkaða um allan heim.