Aleksej Navalnyj

rússneskur stjórnmálamaður og aðgerðarsinni (1976-2024)
(Endurbeint frá Aleksej Navalníj)

Aleksej Anatoljevítsj Navalnyj (rússneska: Алексей Анатольевич Навальный; f. 4. júní 1976, d. 16. febrúar 2024) var rússneskur stjórnmálamaður og aðgerðasinni gegn spillingu. Hann var einn af helstu leiðtogum stjórnarandstöðunnar gegn ríkisstjórn Vladímírs Pútín Rússlandsforseta. Rússnesk stjórnvöld handtóku Navalnyj margsinnis og bönnuðu honum að gefa kost á sér í kosningum.

Aleksej Navalnyj
Алексе́й Нава́льный
Navalnyj árið 2017.
Fæddur4. júní 1976(1976-06-04)
Dáinn16. febrúar 2024 (47 ára)
ÞjóðerniRússneskur
StörfStjórnmálamaður
FlokkurRússland framtíðarinnar
TrúRússneska rétttrúnaðarkirkjan
MakiJúlía Navalnaja
Börn2
VerðlaunSakharov-verðlaunin (2021)
Vefsíðanavalny.com
Undirskrift

Í ágúst árið 2020 var eitrað fyrir Navalnyj með taugaeitrinu Novítsjok. Navalnyj var fluttur á sjúkrahús í Þýskalandi en sneri aftur til Rússlands í janúar 2021 og var handtekinn. Hann lést í fangavistinni þann 16. febrúar árið 2024.

Æviágrip

breyta

Navalnyj kom fram á sjónarsviðið sem baráttumaður gegn spillingu í Rússlandi árið 2007 þegar hann keypti hlutabréf í fyrirtækjum í meirihlutaeigu ríkisins og fór að mæta á ársfundi þeirra til að yfirheyra stjórnendur þeirra. Hann stofnaði bloggsíðu þar sem hann skrifaði um fjársvik og spillingu sem viðgekkst innan rússneskra stórfyrirtækja.[1]

Navalnyj varð þjóðþekktur í Rússlandi sem einn af skipuleggjendum mótmæla sem fóru fram veturinn 2011-2012 gegn kjöri Vladímírs Pútín til síns þriðja kjörtímabils í forsetaembætti. Um var að ræða fjölmennustu mótmæli frá valdatöku Pútíns við upphaf aldarinnar.[1] Eftir þátttöku Navalnyj í mótmælunum var hann ákærður fyrir fjárdrátt í embætti sem ráðgjafi rússneskra stjórnvalda varðandi timburkaup í borginni Kírov árið 2009. Navalnyj sagðist saklaus af ásökununum og vændi stjórnvöld um að reyna að sverta mannorð hans til að koma í veg fyrir að hann gæti boðið sig fram til pólitísks embættis.[2] Navalnyj var dæmdur í fimm ára fangelsi en samherjar hans vændu stjórnvöld um að standa að sýndarréttarhöldum gegn honum.[1]

Vegna mótmæla gegn dómnum var Navalnyj leystur úr haldi innan við sólarhring eftir að hann var felldur. Á meðan dómstólar tóku mál hans til endurskoðunar var honum leyft að gefa kost á sér í borgarstjórakosningum í Moskvu sem fóru fram í september 2013 á móti samherja Pútíns, sitjandi borgarstjóranum Sergej Sobjanín. Navalnyj bað ósigur en hlaut um þrjátíu prósent atkvæða, sem þótti mjög góður árangur fyrir stjórnarandstæðing í Rússlandi. Í október 2013 komst áfrýjunardómstóll að þeirri niðurstöðu að Navalnyj væri sekur um þjófnað en dómurinn var gerður skilorðsbundinn. Navalnyj var því frjáls ferða sinna en honum meinað að bjóða sig aftur fram til opinbers embættis.[3] Mál Navalnyj var síðar tekið upp að nýju vegna athugasemda sem Mannréttindadómstóll Evrópu gerði við málsmeðferð hans. Niðurstaðan var hins vegar sú að rússneskir dómstólar felldu nákvæmlega sama dóm og áður yfir Navalnyj með sömu sönnunargögnum án þess að taka tillit til athugasemda MDE.[4]

Navalnyj hafði haft hug á að bjóða sig fram til forseta Rússlands gegn Pútín árið 2018 en honum var meinað að gefa kost á sér vegna dómsins.[5] Navalnyj hefur nokkrum sinnum verið fangelsaður fyrir að skipuleggja mótmæli gegn rússneskum stjórnvöldum án þess að fá formlegt leyfi fyrir því.[6][7][8]

Eitrun og fangelsun

breyta
 
Navalnyj árið 2020 í mótmælagöngu til minningar myrta stjórnarandstöðuleiðtogans Borísar Nemtsov.

Þann 20. ágúst 2020 féll Navalnyj í dá og var lagður inn á gjörgæslu í Omsk í Síberíu. Upplýsingafulltrúi hans sagðist telja að eitrað hefði verið fyrir Navalnyj í tebolla sem hann keypti á flugvellinum í Tomsk.[9][10] Flogið var með Navalnyj meðvitundarlausan til Berlínar og hann lagður inn á Charité-sjúkrahúsið í borginni. Þýskir læknar komust að þeirri niðurstöðu að Navalnyj hefði verið byrlað taugaeitrið Novítsjok. Eitrað hafði verið fyrir rússneska fyrrum njósnaranum Sergej Skrípal og dóttur hans, Júlíu Skrípal, með sama eitri í Salisbury á Englandi árið 2018.[11] Navalnyj vaknaði úr dáinu þann 7. september.[12]

Navalnyj sneri aftur til Rússlands þann 17. janúar 2021 en var umsvifalaust handtekinn þegar þangað var komið.[13] Hann var dæmdur í 30 daga gæsluvarðhald fyrir að rjúfa skilorð sitt með ferðinni til Þýskalands[14] og síðan dæmdur til tveggja og hálfs árs fangelsisvistar.[15] Handtaka Navalnyj leiddi til fjöldamótmæla í Rússlandi þar sem þúsundir voru handteknir.[16] Í lok febrúar var Navalnyj fluttur til fanganýlendu í Vladímírfylki til þess að afplána fangelsisdóminn.[17]

Pólitísk samtök Navalnyj voru úrskurðuð öfgasamtök af rússneskum stjórnvöldum og starfsemi þeirra bönnuð með lögum þann 10. júní 2021.[18] Fangelsismálayfirvöld í Rússlandi veittu Navalnyj stöðu hryðjuverkamanns í október sama ár.[19]

Navalnyj var á lista Amnesty International yfir samviskufanga. Hann var tekinn af listanum í stuttan tíma árið 2021 vegna gamalla hatursfullra ummæla sinna um innflytjendur.[20] Navalnyj var aftur settur á lista samtakanna yfir samviskufanga stuttu síðar.[21]

Navalnyj var dæmdur til þrettán ára fangelsisvistar í viðbót fyrir fjársvik þann 22. mars 2022.[22] Í ágúst 2023 var dómurinn lengdur um nítján ár vegna ákæru gegn Navalnyj um að fjármagna og styðja starfsemi öfgasamtaka.[23]

Í desember 2023 hafði Navalnyj verið færður til fanganýlendu í Síberíu.[24]

Andlát

breyta

Navalnyj lést í fangelsi þann 16. febrúar árið 2024. Fangelsismálayfirvöld í Rússlandi sögðu hann hafa veikst og hnigið niður eftir gönguferð um morguninn. Tilraunir til að endurlífga hann hafi ekki borið árangur. Navalnyj hafði átt við ýmis heilsuvandamál að stríða í fangelsinu vegna slæms aðbúnaðar og illrar meðferðar.[25] Stuðningsmenn Navalnyj kenndu Vladímír Pútín og stjórn hans um andlátið og bentu á að Navalnyj hafði virst við góða heilsu fáeinum dögum áður en hann dó.[26]

Viðurkenningar

breyta

Evrópuþingið veitti Navalnyj Sakharov-verðlaunin í október 2021. Vegna fangelsisdóms síns gat Navalnyj ekki veitt verðlaununum viðtöku. David Sassoli, forseti Evrópuþingsins, sagði við tilkynninguna á veitingu verðlaunanna að Navalnyj hefði „barist ötullega gegn hinni spilltu stjórn Vladímírs Pútín“ og hefði „fyrir það goldið með frelsi, og næstum lífi sínu.“ Verðlaunin væru viðurkenning á hugrekki hans og ítrekun á kröfu um lausn hans úr fangelsinu.[27]

Tengt efni

breyta

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 1,2 Bogi Þór Arason (19. júlí 2013). „Erkióvinur Pútíns í svartholið“. Morgunblaðið. bls. 20.
  2. Karl Blöndal (7. apríl 2013). „Stjórnarandstæðingur dreginn fyrir dóm“. Morgunblaðið. bls. 6.
  3. Þórunn Elísabet Bogadóttir (31. október 2013). „Kremlarklönin“. Kjarninn.
  4. Þórunn Elísabet Bogadóttir (9. febrúar 2017). „Væntanlegur forsetaframbjóðandi dæmdur í annað sinn“. Kjarninn. Sótt 6. september 2020.
  5. „Pútín fagnaði í Moskvu“. mbl.is. 18. mars 2018. Sótt 6. september 2020.
  6. Kjartan Kjartansson (29. júlí 2019). „Heilsa Navalní sögð ásættanleg“. Vísir. Sótt 6. september 2020.
  7. Jónas Atli Gunnarsson (12. júní 2017). „Navalny handtekinn aftur í kjölfar mótmæla“. Kjarninn. Sótt 6. september 2020.
  8. Jóhann Hlíðar Harðarson (24. september 2018). „Navalny handtekinn enn á ný“. RÚV. Sótt 6. september 2020.
  9. „Grunur um morðtilraun gegn helsta andstæðingi Pútins“. Varðberg. 20. ágúst 2020. Sótt 6. september 2020.
  10. „Eitrað fyr­ir Navalní?“. mbl.is. 20. ágúst 2020. Sótt 6. september 2020.
  11. Atli Ísleifsson (2. september 2020). „Eitrað fyrir Naval­ny með tauga­eitrinu No­vichok“. Vísir. Sótt 6. september 2020.
  12. Kjartan Kjartansson (7. september 2020). „Navalní vaknaður úr dáinu“. Vísir. Sótt 8. september 2020.
  13. Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir (17. janúar 2021). „Navalní handtekinn við komuna til Rússlands“. Vísir. Sótt 18. janúar 2021.
  14. „Navalní úr­sk­urðaður í 30 daga varðhald“. mbl.is. 18. janúar 2021. Sótt 18. janúar 2021.
  15. Þórgnýr Einar Albertsson (2. febrúar 2021). „Navalní sakfelldur í Moskvu“. Vísir. Sótt 2. febrúar 2021.
  16. Vésteinn Örn Pétursson (31. janúar 2021). „Hafa hand­tekið yfir þúsund manns í fjöl­mennum mót­mælum í Rúss­landi“. Vísir. Sótt 31. janúar 2021.
  17. „Navalníj fluttur til langdvalar í fanganýlendu“. Varðberg. 28. febrúar 2021. Sótt 23. mars 2021.
  18. „Samtök Navalnís úrskurðuð öfgafull“. mbl.is. 10. júní 2021. Sótt 11. júní 2021.
  19. Kjartan Kjartansson (11. október 2021). „Navalní fær stöðu hryðjuverkamanns“. Vísir. Sótt 21. október 2021.
  20. Róbert Jóhannsson (25. febrúar 2021). „Navalny ekki lengur samviskufangi“. RÚV. Sótt 26. apríl 2023.
  21. Róbert Jóhannsson (8. maí 2021). „Navalny aftur á lista yfir samviskufanga“. RÚV. Sótt 26. apríl 2023.
  22. Urður Ýrr Brynjólfsdóttir (22. mars 2022). „Naval­ny dæmdur fyrir fjár­svik“. Fréttablaðið. Sótt 22. mars 2022.
  23. Björn Malmquist; Alexander Kristjánsson (4. ágúst 2023). „Dómur yfir Navalní lengdur um 19 ár“. RÚV. Sótt 4. ágúst 2023.
  24. Ólafur Björn Sverrisson (25. desember 2023). „Navalní fundinn í fanganýlendu í Síberíu“. Vísir. Sótt 25. desember 2023.
  25. Þorgils Jónsson (16. febrúar 2024). „Alexei Navalny látinn“. RÚV. Sótt 16. febrúar 2024.
  26. „Navalníj var myrtur af mönnum Pútins, segja stuðningsmenn stjórnarandstæðingsins“. Varðberg. 16. febrúar 2024. Sótt 19. febrúar 2024.
  27. Þorgils Jónsson (20. október 2021). „Naval­ní hlýtur Sak­harov-verðla­unin“. Vísir. Sótt 21. október 2021.