Vatnsdalshólar
Vatnsdalshólar eru víðáttumikil hólaþyrping í mynni Vatnsdals. Hæstu hólarnir eru 84 metrar yfir sjávarmáli. Vatnsdalshólar eru sagðir vera óteljandi margir. Mikið er um rhýólít (líparít) í hólunum. Talið er að þeir séu berghlaup og hafi myndast við hrun úr Vatnsdalsfjalli. Bæir í og við hólana taka nöfn af þeim: Hólabak, Vatnsdalshólar og Hnausar.
Skriðuföll eru tíð í Vatnsdal, einkum í grennd við Vatnsdalshóla. Skíðastaðaskriða eyddi bænum Skíðastöðum árið 1545 en hún er ein mannskæðasta skriða sem fallið hefur á Íslandi. Bjarnastaðaskriða hljóp árið 1720 og fór yfir bæinn á Bjarnastöðum, stíflaði Vatnsdalsá. Þá myndaðist Flóðið, stöðuvatnið innan við Vatnsdalshóla.
Vestast í Vatnsdalshólum eru þrír samliggjandi smáhólar, Þrístapar. Þar fór fram síðasta aftaka á Íslandi 12. janúar 1830 en þá voru hálshöggvin Friðrik Sigurðsson og Agnes Magnúsdóttir fyrir morð á tveimur mönnum, Pétri Jónssyni og Natani Ketilssyni.
Heimild
breyta- „Hvernig mynduðust Vatnsdalshólar“. Vísindavefurinn.
- Vatnsdalshólar Geymt 30 janúar 2010 í Wayback Machine
- Ágúst Guðmundsson 1997. Vatnsdalshólar. Náttúrufræðingurinn 67, 53-62.
- Höskuldur Búi Jónsson, Hreggviður Norðdahl og Halldór G. Pétursson 2004. Myndaði berghlaup Vatnsdalshóla. Náttúrufræðingurinn 72, 129-138.
- Jakob H. Líndal 1936. Hvernig eru Vatnsdalshólar til orðnir? Náttúrufræðingurinn 6, 65-75.
- Ólafur Jónsson 1976. Berghlaup. Ræktunarfélag Norðurlands, Akureyri.