Þrístapar
Þrístapar eru þrír samliggjandi smáhólar sem eru hluti af Vatnsdalshólum. Þar fór fram síðasta aftaka á Íslandi 12. janúar 1830 en þá voru hálshöggvin Friðrik Sigurðsson og Agnes Magnúsdóttir fyrir morð á Natani Ketilssyni og Pétri Jónssyni.
Morðið, aftakan og örlagasaga Friðriks, Agnesar og Natans hafa verið yrkisefni í íslenskri skáldsögu og íslenskri kvikmynd. Þorgeir Þorgeirson skrifaði skáldsöguna Yfirvaldið og mun sú saga styðjast við heimildir. Kvikmyndin Agnes sem Egill Eðvarðsson leikstýrði árið 1996 er byggð á þessum atburðum en víkur mjög frá þekktum staðreyndum.