William A. Craigie

(Endurbeint frá William A. Cragie)

Sir William A. Craigie – (fullu nafni William Alexander Craigie) – (13. ágúst 18672. september 1957) var skoskur málfræðingur og höfundur orðabóka. Hann var frumkvöðull í útgáfu á íslenskum rímum.

Sir William A. Craigie á efri árum.

Æviágrip

breyta

William A. Craigie fæddist í Dundee, Skotlandi, 1867. Foreldrar hans töluðu lágskoska mállýsku, en afi hans í móðurætt talaði gelísku. Einstök tungumálagáfa Williams og uppeldisaðstæður ollu því að hann náði í æsku góðum tökum á skoskum mállýskum. Hann hóf háskólanám í St. Andrews-háskóla 1883, brautskráðist 1888, fór síðan í Balliol College í Oxford, en flutti sig eftir eitt misseri yfir í Oriel College. Þekking hans á tungumálum varð með tímanum frábær og sérhæfði hann sig einkum í gelísku, fyrri alda skosku og Norðurlandamálum, einkum íslensku. Hann hafði mikinn áhuga á frísnesku, sem er það mál sem stendur einna næst ensku, og beitti sér í þágu móðurmálshreyfingar Frísa. (Átti m.a. þátt í stofnun Frísnesku akademíunnar 1938, og varð þá heiðursfélagi hennar). Sagt var að þegar hann var upp á sitt besta hafi hann verið læs á 50 tungumál.

Hann var kennari í latínu við St. Andrews háskóla 1893–1897, fluttist svo til Oxford og hóf störf við Oxford English Dictionary 1897 og varð þriðji ritstjóri orðabókarinnar, frá 1901 og þar til útgáfunni var lokið 1928. Hann var aðstoðarritstjóri við vinnslu viðaukans 1933 (með C. T. Onions). Samhliða vinnu við orðabókina var hann kennari í Norðurlandamálum við Taylorian Institute í Oxford, frá 1905. Frá 1916 til 1925 var hann prófessor í fornesku í Háskólanum í Oxford.

Árið 1925 tók hann að sér að hafa umsjón með Dictionary of American English, sögulegri orðabók, sem kom út í fjórum bindum 1936–1944. Fluttist hann þá vestur um haf og varð prófessor í ensku við Chicago-háskóla. Flutti hann þar fyrirlestra um orðabókargerð, og nutu margir þekktir bandarískir orðabókahöfundar leiðsagnar hans í tengslum við þetta fyrirlestrahald. Meðal rita hans þar var: The study of American English (1927).

Árið 1936 fluttist William Craigie aftur til Englands til að geta einbeitt sér að Dictionary of the Older Scottish Tongue, sem var verkefni sem hann var upphafsmaður að. Vann hann að orðabókinni til 88 ára aldurs (1955) og hafði lokið bókstafnum I, þegar annar ritstjóri, Adam Jack Aitken, tók við. William A. Craigie hefur verið sagður einn afkastamesti orðabókahöfundur sinnar tíðar. Hann vann að jafnaði 7½ klst. á dag að orðabókagerð, hvorki lengur né skemur.

Samhliða orðabókarstörfunum vann William Craigie að mörgum öðrum fræðilegum verkefnum, auk vinnu í þágu ýmissa fræðafélaga. Hann var t.d. forseti The English Place-Name Society 1936–1945, Scottish Text Society (Skoska fornritafélagsins) 1937–1957, og Anglo-Norman Text Society 1938–1957. Á vegum Skoska fornritafélagsins gaf hann út sjö bindi.

William Craigie giftist (1897) Jessie K. HutchenLady Craigie – rithöfundi (d. 10. febrúar 1947). Þau voru barnlaus.

William Craigie og Ísland

breyta

William Craigie dvaldist í Kaupmannahöfn veturinn 1892–1893 til að læra betur Norðurlandamálin. Kynntist hann þar nokkrum Íslendingum, svo sem Valtý Guðmundssyni og Þorsteini Erlingssyni og lærði íslensku til hlítar. Í grúski á söfnum þar rakst hann á handrit að Skotlandsrímum eftir síra Einar Guðmundsson á Stað á Reykjanesi, frá fyrri hluta 17. aldar. Rímurnar fjalla um samsæri gegn Jakob 6. Skotakonungi árið 1600. Tók Craigie afrit og gaf rímurnar út í vandaðri útgáfu í Oxford 1908. Fékk hann þá áhuga á rímum, sem entist meðan hann lifði.

Þó að íslensk viðfangsefni hafi aðeins verið hjáverk í störfum Williams A. Craigies, þá er sá þáttur nokkuð drjúgur, sbr. ritaskrá. Mest beitti hann sér í þágu íslenskra rímna, sem hann taldi merkilegar ekki aðeins sem bókmenntagrein, heldur einnig sem málfarslegar og menningarsögulegar heimildir. Hann hvatti til þess að stofnað yrði félag til útgáfu á rímum og varð það að veruleika haustið 1947, þegar Rímnafélagið var stofnað.

William Craigie kom a.m.k. fjórum sinnum til Íslands, fyrst snögga ferð 1905. Árið 1910 dvöldust þau hjón hér í 10 vikur, ferðuðust um Vesturland og komu m.a. að Stað á Reykjanesi, þar sem Skotlandsrímur voru ortar.

Sir William A. Craigie var sýndur margvíslegur sómi fyrir störf sín, hann var sleginn til riddara 1928, þegar lokið var fyrstu útgáfu Oxford English Dictionary. Hann fékk riddarakross Fálkaorðunnar 1925, og stórriddarakross 1930. Hann varð heiðursfélagi Hins íslenska bókmenntafélags 1916 og Rímnafélagsins frá stofnun, 1947, og heiðursdoktor frá Háskóla Íslands 1946. Hann var félagi í mörgum vísindafélögum.

Snæbjörn Jónsson bóksali var mikill vinur Craigies og var óþreytandi að vekja athygli á störfum hans í þágu Íslendinga.

Nokkur rit um íslensk og norræn efni

breyta
 • Oldnordiske ord i det gaeliske sprog, 1893.
 • Gaelic words and names in the Icelandic sagas. Zeitschrift für Celtische philologie, 1897. — Sérprent.
 • On some points in scaldic metre, 1900. — Arkiv för nordisk filologi XVI.
 • The Gaels in Iceland. Proceedings of the Society of Antiquaries of Scotland, 1901. — Sérprent.
 • Notes on the Norse-Irish question, 1902. — Arkiv för nordisk filologi XIX, 173–180.
 • The Religion of ancient Scandinavia, London 1906, 12+72 s.
 • The Icelandic Sagas, Cambridge 1913, 120 s.
 • The art of poetry in Iceland, Oxford 1937, 34 s.
 • Nokkrar athuganir um rímur, Rvík 1949, 20 s. — Fyrirlestur í Háskóla Íslands 30. júní 1948. Aukarit Rímnafélagsins I.

Útgáfur

breyta
 • Scandinavian Folklore, London 1896, 20+554 s. — Valið og þýtt af William A. Craigie.
 • Guðbrandur Vigfússon (útg.): Origines Isandicae 1–2, Oxford 1905. — William A. Craigie lauk útgáfunni og ritaði formála.
 • Einar Guðmundsson: Skotlandsrímur. Icelandic ballads of the Gowrie conspiracy, Oxford 1908.
 • Sýnisbók íslenskra rímna, frá upphafi rímnakveðskapar til loka 19. aldar 1–3, Rvík og London 1952.
 • Guðbrandur Vigfússon (útg.): Icelandic-English Dictionary (fyrst prentuð 1874). — Önnur útgáfa með 52 bls. viðauka eftir William A. Craigie kom út 1957, endurprentuð 1962.

Afmælisrit

breyta

Heimildir

breyta

Tenglar

breyta