Rímnafélagið

Rímnafélagið er félag sem gaf út íslenskar rímur í fræðilegum útgáfum. Það var stofnað í Reykjavík haustið 1947 og starfaði að minnsta kosti til ársins 1976.

Um félagiðBreyta

Rímnafélagið var stofnað 23. nóvember 1947 af nokkrum áhugamönnum og voru Snæbjörn Jónsson bóksali og skoski málfræðingurinn Sir. William A. Craigie helstu hvatamenn að stofnun þess. Hlutverk félagsins var að birta rímur í vönduðum útgáfum svo og fræðirit um þá bókmenntagrein. Fyrstu stjórn félagsins skipuðu:

 • Jörundur Brynjólfsson alþingismaður, forseti.
 • Lúðvík Kristjánsson sagnfræðingur, ritari.
 • Friðgeir Björnsson, féhirðir.

Meðal síðari forseta félagsins voru alþingismennirnir Pétur Ottesen (a.m.k. 1951 og 1956), Karl Kristjánsson (1960 og 1961), Gísli Guðmundsson (1961–1965), Páll Þorsteinsson (1965–1969) og Ingvar Gíslason (1969–1978 eða lengur).

Einnig var skipuð útgáfunefnd, og voru eftirtaldir menn í henni til 1966 eða lengur:

Starfsemi Rímnafélagsins var nokkuð öflug í byrjun, en eftir að William A. Craigie féll frá, 1957, fór nokkuð að hægja á. Árið 1965 var lokið við að gefa út 10 bindi rímna og árið eftir kom út Rímnatal 1–2, eftir Finn Sigmundsson landsbókavörð. Er þar greinargerð um allar íslenskar rímur sem varðveist hafa (um 1.050 talsins, þar af eru um 240 prentaðar) og æviágrip höfundanna (um 480, þar af 16 konur). Ekki eru teknar með rímur frá 20. öld nema að litlu leyti. Rímnatalið er stórvirki og liggja miklar frumrannsóknir að baki því.

Eftir þetta virðist sem starfsemi félagsins hafi legið að mestu niðri fram til 1973, að gefið var út lítið Aukarit. Árið 1976 kom svo síðasta rit félagsins, Blómsturvallarímur eftir Jón Eggertsson, sem varðveittar eru í einu handriti í Svíþjóð. Upp úr því virðist félagið hafa lognast út af en nánari upplýsingar skortir.

Rit RímnafélagsinsBreyta

 1. Kolbeinn Grímsson: Sveins rímur Múkssonar, Rvík 1948. — Björn K. Þórólfsson bjó til prentunar.
 2. Guðmundur Andrésson: Persíus rímur og Bellofontis rímur, Rvík 1949. — Jakob Benediktsson bjó til prentunar.
 3. Steinunn Finnsdóttir í Höfn: Hyndlu rímur og Snækóngs rímur, Rvík 1950. — Bjarni Vilhjálmsson bjó til prentunar. — Elstu rímur sem varðveist hafa eftir konu.
 4. Eiríkur Hallsson og Þorvaldur Magnússon: Hrólfs rímur kraka, Rvík 1950. — Finnur Sigmundsson bjó til prentunar.
 5. Páll Bjarnason: Ambáles rímur, Rvík 1952. — Hermann Pálsson bjó til prentunar.
 6. Bjarni Jónsson Borgfirðingaskáld og sr. Hallgrímur Pétursson: Rímur af Flóres og Leó, Rvík 1956. — Finnur Sigmundsson bjó til prentunar.
 7. Hallgrímur Pétursson: Króka-Refs rímur og Rímur af Lykla-Pétri og Magelónu, Rvík 1956. — Finnur Sigmundsson bjó til prentunar.
 8. Árni Böðvarsson skáld: Brávallarímur, Rvík 1965. — Björn K. Þórólfsson bjó til prentunar, með mjög ítarlegri ritgerð um skáldið og rímurnar.
 9. Stakar rímur frá 16., 17., 18. og 19. öld, Rvík 1960. — Finnur Sigmundsson bjó til prentunar.
 10. Magnús Jónsson prúði, Pétur Einarsson og sr. Ólafur Halldórsson: Pontus rímur, Rvík 1961. — Grímur M. Helgason bjó til prentunar. Netútgáfa framlags Magnúsar prúða, 1. – 13. rímu, af 30.
 11. Jón Eggertsson: Blómsturvallarímur, Rvík 1976, 8+173 s. — Grímur M. Helgason og Hallfreður Örn Eiríksson sáu um útgáfuna.

Aukarit RímnafélagsinsBreyta

 1. William A. Craigie: Nokkrar athuganir um rímur, Rvík 1949, 20 s. — Fyrirlestur í Háskóla Íslands vorið 1948.
 2. Björn K. Þórólfsson: Sir William A. Craigie og íslenskar rímur, Rvík 1953, 15 s.
 3. Sigurður Nordal: Rímur og lausavísur, Rvík 1959, 19 s.
 4. Jakob Jónsson: Kyrus í íslenskum rímum, Rvík 1973, 26 s. — Tileinkað Hans keisaralegu hátign Mohammad Reza Pahlavi Aryamehr Shahanshah í Íran.

Önnur rit félagsinsBreyta

HeimildirBreyta

 • Rit Rímnafélagsins.
 • Alþingismannatal.

Tengt efniBreyta