Wikipedia:Grein mánaðarins/03, 2020

Íslensk matargerð er sú hefð sem einkennir hráefnisnotkun, aðferðir og venjur í matreiðslu á Íslandi. Íslensk matarhefð einkennist af fábreyttu hráefni, mikilli áherslu á dýraafurðir og fisk ásamt því bragði sem fylgir varðveisluaðferðum matvæla. Framreiðsla er yfirleitt fremur einföld. Innflutt hráefni og hefðir taka helst mið af samskiptum við Danmörku. Meðal helsta hráefnis íslenskrar matargerðar er lambakjöt, mjólkurafurðir og fiskur. Vegna einangrunar og skorts á fersku hráefni á veturna hefur sögulega verið þörf á að geyma matvæli með því að leggja þau í mysu eða lögur, salta, þurrka eða reykja. Til vinsæls íslensks fæðis má telja skyr, hangikjöt, kleinur, laufabrauð og bollur. Þorramatur samstendur af hlaðborði með kjöti, fiski, rúgbrauði og brennivíni og er helst borðaður á Þorrablóti.

Við aukinn innflutning matvæla hefur íslensk matargerð færst nær evrópskum venjum. Matreiðslunám var lengst af við Hótel- og veitingaskólann sem er nú hluti af Menntaskólanum í Kópavogi. Áherslur í kennslu þar hafa tekið mið af franskri matseld. Neysla grænmetis og ávaxta hefur aukist meðal almennings á síðustu áratugum en dregið hefur úr neyslu fisks. Samt borða Íslendingar ennþá meiri fisk en aðrar vestrænar þjóðir.

Síðustu árin hefur enn meiri áhersla verið lögð á gæði og rekjanleika hráefnis. Nýíslensk matargerð sækir innblástur í nýnorrænni matargerð, þar sem tengingu við staðhætti og árstíðir er gert hátt undir höfði. Helstu hráefnin eru sjávarfang, sjófuglar og egg þeirra, lax og urriði, krækiber, bláber, rabarbari, mosi, villisveppir, blóðberg, skessujurt, ætihvönn og þang.

Fyrri mánuðir: RojavaEva PerónFjallkonan