Wikipedia:Úrvalsgreinar/Heimspeki

Hugsuðurinn eftir Auguste Rodin.
Hugsuðurinn eftir Auguste Rodin.

Heimspeki er glíman við grundvallarspurningar um veruleikann, tilvist og stöðu mannsins í alheiminum. Þeir sem fást við heimspeki kallast heimspekingar og reyna þeir meðal annars að skýra inntak og tengsl hugtaka og fyrirbæra á borð við sannleika, merkingu og tilvísun, skilning, þekkingu, skoðun, vísindi, skýringu, lögmál, tegund, samsemd, eðli, eiginleika, orsök, rök, vensl, nauðsyn, möguleika, lög, rétt, rangt, gott, illt, hamingju, dygð, skyldu, athöfn, atburð, réttlæti, réttindi, frelsi, vináttu, ást, fegurð, list og svona mætti lengi áfram telja. En heimspekin er ekki hvaða glíma sem er við þessar spurningar sem á okkur leita, heldur er hún fyrst og fremst tilraun til að fást við þessar spurningar af einurð og heilindum. Hún er ekki einber opinberun einhverrar skoðunar, heldur er hún ætíð rökstudd, jafnvel þótt stundum séu rökin ósögð og undanskilin og þau verði að lesa á milli línanna.

Við þetta má bæta að heimspeki er ekki bara samansafn spurninga sem raunvísindin eiga eftir að svara, því túlkun á niðurstöðum vísindanna getur beinlínis oltið á heimspekilegri afstöðu sem liggur tilraunum og túlkun þeirra til grundvallar. Þess vegna geta vísindin einfaldlega ekki svarað öllum spurningum heimspekinnar án þess að gefa sér svörin. Á hinn bóginn mætti segja að heimspekin sé sjálf ákveðin grein eða ákveðinn þáttur vísindanna eða framhald þeirra; hún hefur sjálf eitthvað fram að færa til heildarmyndar okkar af sjálfum okkur og heiminum, lífinu og tilverunni.

Heimspekilegar bókmenntir einkennast öðru fremur af röksemdafærslum, sem eru notaðar til að setja fram kenningar um viðfangsefni heimspekinnar. Þessar röksemdafærslur fela yfirleitt í sér hugleiðingar um andstæð eða gagnstæð viðhorf og meinta galla á þeim.

Lesa áfram um heimspeki...